Baráttukonur á Skólavörðuholti

31. janúar 2021

Baráttukonur á Skólavörðuholti

Mynd af baráttukonu í Hallgrímskirkju

Á Skólavörðuholtinu er alltaf eitthvað nýtt að gerast. Nú sem fyrrum. Enda hjarta Reykjavíkur.

Hallgrímskirkjusókn er kraftmikil og bryddar upp á ýmsum nýjungum á næstunni. Ekki í fyrsta skipti. Þau láta ekki kórónuveirufaraldurinn stöðva sig. 

Spennandi og metnaðarfull dagskrá hefur litið dagsins ljós hjá þeim. Fræðslunni verður streymt á Feisbókar-síðu kirkjunnar.

Prestar kirkjunnar hafa fræðsluna á hendi.

Viðfangsefnið í febrúar verður Baráttukonur í Biblíunni og það mun örugglega vekja áhuga margra. 

Kirkjan.is forvitnaðist um fræðsluna hjá sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur. Hún sagði að hver fræðslustund væri um fimmtíu mínútur. Fræðslan er á hendi hennar og dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar – einnig kemur sr. Sigrún Óskarsdóttir, fangaprestur þjóðkirkjunnar, að fræðslunni. 

En fyrst eru það baráttukonurnar sem eiga sviðsljósið í Hallgrímskirkju og næstu fjóra þriðjudaga munu nokkrar þeirra stíga á svið. Baráttukonur Biblíunnar eru hins vegar svo margar að ekki næst að segja frá þeim öllum að sinni en það mun bíða síns tíma. En alltaf verður að byrja einhvers staðar.

Fyrsta fræðslustreymið frá Hallgrímskirkju verður næsta þriðjudag sem er 2. febrúar og hefst stundin kl. 12.05.

Síðan rekur hver fræðslustreymisstundin aðra hvern þriðjudaginn á fætur öðrum.

Í marsbyrjun mun svo sóknarpresturinn í Hallgrímssókn, dr. Sigurður Árni taka við keflinu. Temað hjá honum er eins og hans er von og vísa kraumandi af frumleika og splunkunýtt: Ástarsaga og Passíusálmar og hann mun fjalla um ástina og lífsgleðina í Passíusálmunum. Ekki er að efa að þar verður tekið á málum frá nýjum og ferskum sjónarhornum. Nánar verður sagt frá því síðar hér á kirkjan.is.

Dagskráin í Hallgrímskirkju

Baráttukonur og fyrirmyndir í Biblíunni

Biblían segir okkur hetjusögur og hversdagssögur úr lífi ótal kvenna. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Hallgrímskirkjuprestur, talar um nokkrar af konunum sem birtast okkur í Biblíunni. Í hraðferð um heim Biblíunnar leitum við þær uppi. Við hittum vinkonur, mæður, ömmur, mæðgur, systur, tengdamæður, ekkjur, ljósmæður, farandverkakonur, bændur, spámenn og dómara.

Þriðjudagur, 2. febrúar kl. 12.05
Konurnar sem þorðu Debóra, Jóseba og systir Móse ásamt Sifru og Púu eru konur sem þorðu. Við förum yfir sögur þeirra. Leggjum leið okkar að Níl og lítum undir Debórupálma.... Kynnumst konum sem Guð talaði beint við í frásögum Biblíunnar.

Þriðjudagur, 9. febrúar kl. 12.05

Ég vil líkjast Rut... Við rifjum upp kunnuglegan barnasöng og veltum því fyrir okkur af hverju viljum við líkjast Rut. Rut var einstök og því kynntist Naomí sem einnig verður fjallað um. Einnig verður fjallað um kanverska konu og nafnlausar konur Biblíunnar í framhaldi af sögu Rutar ...

Þriðjudagur, 16. febrúar kl. 12.05 - sprengidagur
Marta og María í Betaníu Lærisveinar og postular, vinkonur Jesú og veisluhaldarar. Hverjar voru þær? Við lítum við í eldhúsinu þeirra og kíkjum í pottana. Sr. Sigrún Óskarsdóttir segir okkur frá veitingunum sem voru í boði í Betaníu. Sjálf hefur hún látið frá sér bók sem ber það ljúffenga heiti: Orð, krydd og krásir.

Þriðjudagur, 23. febrúar kl. 12.05
Unglingurinn sem breytti heiminum Við skoðum sögu Maríu eða Mirjam - ungu konunnar sem sagði já við jái Guðs. Hver var hún? Breytti hún heiminum?.

hsh


  • Fræðsla

  • Guðfræði

  • Menning

  • Námskeið

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju