Stefnumótunarfundur

5. febrúar 2021

Stefnumótunarfundur

Hvert skal halda? Rafrænn stefnumótunarfundur þjóðkirkjunnar

Mikil gerjun hefur verið í umræðu innan kirkjunnar um framtíðarsýn.

Prestastefna sem haldin var í Áskirkju 2019 ályktaði að tímabært væri að ræða „framtíðarsýn fyrir þjóðkirkjuna og móta henni heildarstefnu,“ og að leiðarljós þeirrar umræðu ætti einkum að vera „umræða um áherslur, starfshætti, starfsmannahald og skipulag kirkjunnar á 21. öld.“ Síðan þyrfti að athuga hvort ræða þyrfti breytingar á skipulagi kirkjunnar og starfsemi hennar.

Kirkjuþing tók líka framtíðarmálin til umræðu árið 2019 (sjá Gerðir kirkjuþings, bls. 76) og fól kirkjuráði að hefja undirbúning að stefnumótun fyrir þjóðkirkjuna.

Dr. Bjarni Snæbjörn Jónsson var ráðinn til að stýra skipulagi á stefnumótunarumræðunum, meta stöðu þjóðkirkjunnar í dag hvað skipulag, rekstur og stjórnsýslu snertir. Kirkjustarfshópur kirkjuráðs starfaði með honum ásamt Brynju Dögg Guðmundsdóttur Briem, framkvæmdastjóra kirkjuráðs. Í kirkjustarfshópi sitja sr. Guðrún Karls Helgudóttir, formaður, sr. Arna Grétarsdóttir, og sr. Hreinn S. Hákonarson. Með hópnum starfaði einnig Þórður Sigurðarson, organisti.

Nú er stóra stundin runnin upp.

Laugardaginn 6. febrúar verður haldinn rúmlega 100 manna stefnumótunarfundur í netheimum þar sem tvær spurningar verðar ræddar frá kl. 13.00 -16.00 og reynt að fá svör við þeim. Spurningarnar verða ræddar í tólf umræðuhópum á þessum samráðsvettvangi og undir stjórn umræðustjóra.

Tilgangur fundarins er að mynda málefnagrunn að frekari mótun á framtíðarsýn og áherslum í starfsemi þjóðkirkjunnar og byggja þann grunn á samtali í breiðum hópi úr starfsemi kirkjunnar um allt land. Með því að skoða málin frá öllum hliðum í svo stórum hópi, er leitast við að fá fram heildarmyndina og jafnframt að geta lagt upp með áherslur og forgangsmál sem eiga sér upphaf í umræðu sem þessari.

Þær spurningar sem leitað verður svara við eru þessar:

  • Framtíðarsýn
    Hvað á að einkenna starfsemi þjóðkirkjunnar í framtíðinni ef horft er til allra þátta?
    Horft er á málin bæði inná við og út á við, þ.e. bæði innra starfog jafnframt út frá viðhorfi til þjónustu og stöðu í samfélaginu.
  • Áherslur
    Hver eru mikilvægustu verkefnin í starfseminni á næstu árum?
    Tekið mið af fyrri umræðu og leitast verður við að setja fram mikilvægustu viðfangsefnin í náinni framtíð til þess að ná meginmarkmiðum, efla starfsemina og bregðast við þróun og breytingum í samfélagi og starfsumhverfi þjóðkirkjunnar.

Niðurstaða fundarins verður svo send til kirkjuráðs og kirkjuþings til athugunar og umfjöllunar. Kirkjuþing mun taka málið sérstaklega til umræðu og koma því í farveg.

En hvaða 100 manna vaska sveit er þetta sem kemur saman í netheimum og ræðir málið?

Því miður var ekki unnt að kalla öll þau fjölmörgu til fundarins sem starfa að málefnum þjóðkirkjunnar, en þess hefur verið gætt að á fundinum sé breiður hópur kirkjufólks sem endurspeglar þjóðkirkjuna: landsbyggð, þéttbýli, fulltrúar frá stofnunum kirkjunnar, sóknarnefndum, samtökum og félögum sem tengjast kirkjunni. Kynjahlutfalla og aldurssamsetningar er gætt og eru leikmenn í meirihluta.

Fundurinn 6. febrúar er ekki neinn lokafundur heldur miklu fremur fundur sem markar upphaf stefnumótunar þjóðkirkjunnar.

hsh


  • Fundur

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar