Orgelandakt

8. febrúar 2021

Orgelandakt

Guðmundur Sigurðsson, organisti, við barokk-orgel kirkjunnar

Fyrir nokkrum árum var boðið upp á svokallaða orgelandakt í Landakotskirkju í Reykjavík. Þetta var gjarnan hádegisstund og komu þar ýmsir organistar að. Síðan buðu nokkrir þjóðkirkjusöfnuðir upp á slíkar stundir. Þær virtust ekki ná sterkri fótfestu hver sem ástæðan kann að vera en þær hafa þó í einhverjum mæli verið hafðar um hönd í kirkjum landsins og kannski ekki alltaf undir þessu heiti, orgelandakt.

En hvað er orgelandakt?

Eins og orðið ber með sér er orgelið á vissan hátt í fyrirrúmi. Þó má ekki skilja svo að verið sé bugta sig og beygja fyrir gripnum, orgelinu, og þótt listasmíði sé sem og drottning hljóðfæranna. En auðvitað ber að sjálfsögðu að hafa í heiðri alla hirðsiði í kringum þetta eðla hljóðfæri. Það eru hins vegar verkin sem organistinn leikur og tónar þeirra sem leggja fyrsta skerfinn í þá andakt, eða það bænamál, sem stundinni er ætlað að gefa og ramma þar með inn boðskap fagnaðarerindisins. Síðan kemur ritningarlestur og útlegging. Stundin er um hálftími að lengd.

Kirkjan.is rak augun í þessa auglýsingu frá Hafnarfjarðarkirkju og hélt á vettvang.

Guðmundur Sigurðsson er listasnjall organisti og veit hvað hann er að gera. Þau tónverk sem hann valdi hæfðu stund og stað. Þar eru maður og hljóðfæri eitt. Og útlegging sr. Sighvats féll að þessum sunnudegi sem var Biblíudagurinn.

Það þarf ekki að taka það fram að í nær öllum kirkjum eru prýðileg orgel og framúrskarandi organistar. Kirkja og tónlista hafa ætíð farið saman, organisti og prestur sömuleiðis að viðbættu því sem mestu máli skiptir, það er söfnuðurinn.

Guðmundur organisti er stoltur af sinni kirkju og tveimur orgelum hennar sem hann segar vera ein þau merkustu í landinu. Annað þeirra er uppi á sönglofti, úr orgelsmiðju Christans Schefflers í síðrómantískum stíl, 25 radda, en það var vígt árið 2008. Norðanmegin við kór í kirkuskipinu er svo orgel sem Kristian Wegscheider smíðaði, 12 radda og það var vígt ári síðar. Umgerð þess er mikil og í barokk-stíl. Ætla mætti að þungum marmara væri hlaðið í kringum það en þegar betur er skoðað kemur í ljós að þetta er marmararamálaður viður. Þar kom að listfeng hönd Helga Grétars Kristinssonar, kennara og málarameistara, og aðstoðarmanns hans, Birgis Ísleifssonar. Þeir máluðu líka altarið og skírnarfontinn.

Guðmundur lék á barokk-orgelið við orgelandaktina. 

„Ég leitaðist við að sýna ólík litbrigði orgelsins, hljóðlát og sterk,“ segir Guðmundur en hann lék litlar prelúdíur og fúgur eftir barokkmennina Giovanni Battista Martini frá Ítalíu (1706-1784) og Johann Babtist Peyer frá Austurríki (1680-1733). 

hsh


Organistinn, Guðmundur Sigurðsson, og sr. Sighvatur Karlsson, við barokk-orgelið í lok orgelandaktarinnar


  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju