„Opnið kirkjur allar...“

15. febrúar 2021

„Opnið kirkjur allar...“

Stjórnarkonur í Safnaðarfélagi Áskirkju afhenda fermingarbarni Biblíu

Nú mega 150 manns koma saman til kirkjulegra athafna sé allra sóttvarnareglna gætt.

Ekki hefur verið annað að sjá á Feisbókarsíðum flestra kirkna undanfarna daga en að þessum tímamótum væri fagnað og ekki laust við að spenna væri í lofti.

Kirkjuhjólin snúast hægt af stað og örugglega. Víða voru guðsþjónustur í gær.

Kirkjan.is brá sér í Áskirkju í hinu nýja Laugardalsprestakalli. Prestarnir í því prestakalli skipta með sér verkum á sunnudögum. Nú sá sr. Sigurður Jónsson um þjónustuna í Áskirkju ásamt djáknanum, Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur. Organisti var Bjartur Logi Guðnason og kór kirkjunnar söng. Að lokinni þjónustu í heimakirkju sinni hélt sr. Sigurður niður í Laugarnes. Prestur í Langholti, sr. Aldís Rut Gísladóttir, var að störfum í sinni kirkju.

Í Áskirkju hefjast guðsþjónustur kl. 9.30 og hélt sr. Sigurður að henni lokinni í Laugarneskirkju en þar var auglýst guðsþjónusta kl. 11.00. Nýtt prestakall kallar á nýtt skipulag.

Sr. Sigurður sagði að rúmir fjórir mánuður væru liðnir frá því að hefðbundið helgihald hefði farið fram í Áskirkju. Hann var eins og aðrir í kirkjunni að vonum glaður með að vera kominn til þjónustu.

Eflaust hefur þessi sálmur  hljómað víða í kirkjum landsins í gær eins og í Áskirkju enda vel við hæfi.  

Að lokinni guðsþjónustu afhentu stjórnarkonur í Safnaðarfélagi Áskirkju fermingarbörnum Biblíu að gjöf. Það skal og tekið fram að kirkjan.is sá ekki betur en að fermingarbörn á Seltjarnarnesi fengju líka Biblíu að gjöf í guðsþjónustu í gær. Fróðlegt væri að vita hve margir söfnuðir gefa fermingarbörnum sínum Biblíur – upplýsingar um það sendist á frettir@kirkjan.is.

Kirkjukaffi eftir guðsþjónustuna var tvískipt svo allar sóttvarnareglur væru í heiðri hafðar. Segja má að þetta hafai verið kirkjubollukaffi því að gómsætar rjóma- og súkkulaðibollur voru á boðstólum. 

Kirkjan.is fékk þessar upplýsingar hjá  próföstum

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi, sagði að tvær guðsþjónustur hefðu verið þar eystra í dag og svo yrði eitthvað um að vera á öskudag.

Prófastur í Suðurprófastsdæmi, sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, sagði að helgihald hefði verið víða haft um hönd, allt frá örstundum til hefðbundinna guðsþjónusta. Þá voru barnaguðsþjónustur haldnar á ýmsum stöðum.

Prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Hans Guðberg Alfreðsson, sagði að guðsþjónustur hefðu verið í mörgum kirknanna og tiltók sérstaklega, Ástjarnarkirkju, Lágafellskirkju, Vídalínskirkju, Hafnarfjarðarkirkju, Víðistaðakirkju, Kálfatjarnarkirkju, Keflavíkurkirkju og Hvalsneskirkju. Síðasta sunnudag var guðsþjónusta á Útskálum. Sunnudagaskólinn er víða farinn af stað.

Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis, sr. Magnús Erlingsson, sagði að þau á norðanverðum Vestfjörðum hygðust byrja sunnudaginn 21. febrúar.

Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, sagði að aðstæður til sveita væru öðruvísi en í þéttbýli eins og í svo mörgu öðru. Víða sé ekki hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð vegna þess hve litlar kirkjurnar séu. Þess vegna hafi til dæmis söfnuðir í Skagafirði ákveðið enn um sinn að skipta með sér verkum og senda út helgistundir á netinu.

Prófasturinn í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, sr. Jón Ármann Gíslason, sagði að guðsþjónusta hefði verið í Akureyrarkirkju, opin kirkja í Glerárkirkju, barnastarf í Glerárkirkju, Akureyrarkirkju, Ólafsfirði, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn.

Í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra voru guðsþjónustur í öllum kirkjum að sögn prófastsins, sr. Gísla Jónassonar. 

hsh


Svona auglýstu þau í Ástjarnarsókn

Myndir með frétt

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju