Bók um flóttafólk
Það er svo sannarlega þarft verk og þakkarvert að koma út efni handa almenningi um flóttafólk. Salt-útgáfan á þakkir skildar fyrir að hafa ráðist í útgáfu þessarar bókar eftir dr. Kjartan Jónsson: Flóttamenn – Þjónusta kirkna og kristilegra félaga á Vesturlöndum í þeirra þágu. Hún er 196 blaðsíður og er nýkomin út.
Dr. Kjartan er vel kunnugur málaflokknum úr prestakalli sínu, Tjarnaprestakalli, en þar hefur útlendingum verið meðal annars boðið upp á íslenskunámskeið í Ástjarnarsókn. Eins var dr. Kjartan lengi vel kristniboðsprestur og er doktor í mannfræði. Hann veit því vel hvað um þessi mál snúast. Auk þess hefur hann kynnt sér málefni flóttamanna sérstaklega og hvað gert er fyrir þá hér á landi og þá einkum á kristnum vettvangi. Segja má með réttu að níu mánaða námsleyfi sem dr. Kjartan fékk 2019-2020 hafi heldur betur borið ávöxt þar sem er meðal annars þessi bók en leyfið nýtti hann til að kynna sér málefni flóttamanna.
Þjóðkirkjan hefur látið málefni flóttafólks til sín taka með ýmsum hætti. Kirkjuþing 2020 samþykkti til dæmis tillögu sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskups á Hólum, til þingsályktunar um brottvísanir flóttafólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki (sjá mál nr. 26).
Mestu munar þó um starfsemi Alþjóðlega safnaðarins í Breiðholti undir stjórn sr. Toshiki Toma. Þar er stórmerkilegt starf unnið sem fer ekki alltaf hátt; burðarvirkið í starfi þjóðkirkjunnar í þessum málaflokki.
Dr. Kjartan rekur skilmerkilega meginástæður fyrir því að fólk leggur á flótta úr heimahögum sínum (bls. 40-42). Það er náttúrlega fyrst og fremst stríðsástand og margháttaðar afleiðingar þess sem er þar efst á blaði.
Tölur um fjölda flóttamanna eru ískyggilegar en höfundur segir að um 79. 5 milljónir manna séu á vergangi og þar af 45.7 milljónir í heimalandi sínu, 26 milljónir á flótta utan heimalands síns, 4.2 milljónir eru í flokki hælisleitenda og að auki eru 4.2 milljónir án ríkisfangs. Þessar tölur sækir hann til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Höfundur fjallar um flóttamannabúðir, hefðir þjóða gagnvart flóttamönnum og hvaða leiðir þær fara margar hverjar til að aðstoða fólk. Mestu máli skiptir þó Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sem dr. Kjartan segir vera mikilvægasta „skjal þjóðanna til verndar flóttamönnum.“ (Bls. 51). Alls höfðu 145 þjóðir samþykkt sáttmálann fyrir átta árum.
Dyflinnarreglugerðin er skýrð út í stuttu máli og höfundur leggur áherslu á að hún hafi ekki verið sett til að gefa ríkjum ástæðu til að varpa ábyrgð sinni af flóttamönnum yfir á önnur ríki þegar tækifæri gæfist. Höfundur segir að Ísland reyni að komast undan því að taka þátt í að axla ábyrgði á því að vera hluti af Schengen-svæðinu. Dyflinnarreglugerðin hefur verið fordæmd af ýmsum, meðal annars Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna – framkvæmdastjóri Lúterska heimssambandsins er á sömu skoðun. (Bls. 57).
Ísland hefur í raun alltaf verið sótt heim á öllum öldum af flóttamönnum. Þeir hafa verið misáberandi. Og sjálfir eru Íslendingar að stofni til flóttamenn frá Noreg.
Höfundur nefnir stórmerka bók Snorra G. Bergssonar, sagnfræðings, sem kom út fyrir tæpum fjórum árum og heitir Erlendur landshornalýður? Þar rekur hann sögu flóttafólks sem reyndi að ná fótfestu hér á ýmsum tímabilum en tókst það misvel því að yfirvöld voru ekki auðveld viðureignar. Þetta átti til dæmis við um Gyðinga. Tæpast myndu þau vilja kannast við framferði sitt í dag gagnvart því fólki.
1. Flóttamenn eru til vegna þess að heimurinn er ekki öruggur staður.
2. Flóttamannavandinn sýnir getuleysi alþjóðasamfélagsins við að leysa vandann.
3. Neikvæð viðbrögð forystufólks í Evrópu eiga sök á flóttamannavanda álfunnar.
4. Löndin sem standa að Schengen-svæðinu fara í raun hvert og eitt sínu fram þegar kemur að reglum um túlkun á hverjir megi setjast að í löndunum sem búa utan þeirra.
Á blaðsíðu 73 segir: „Þannig er kerfið hriplekt því að sum lönd eins og Írland, Portúgal og Malta hafa selt aðgang að því og litið á það sem tekjulind.“
Samtakamáttur getur bjargað miklu og þá „væri hægt að dreifa byrðunum betur og ná langt í að leysa vandann.“ (Bls. 74). Þá nefnir höfundur að Ísland geti staðið sig betur.
Í þriðja kafla bókarinnar segir höfundur í stuttu máli hvernig málum þessum var háttað á Biblíutíma ef svo má segja. Þau sem kunna einhver skil á þeim málum vita að fólk þess tíma var ýmist á ferð eða í útlegð. Kannski sjaldnast í því sem heimaland kallaðist – var reyndar á leiðinni til fyrirheitna landsins. Kristið fólk hefur ætíð verið á ferð og flugi – það fór um veröld víða til að boða trú, var fólk á ferð, eins og sagt er. En aðstæður þess voru vitaskuld allt aðrar heldur en flóttafólks nútímans. Kannski var sú hugsun lifandi í hugum fyrstu boðbera kristinnar trúar að öll veröldin væri bústaður þeirra - að minnsta kosti var hún vettvangur þeirra. Gleymum því ekki heldur að stundum er talað um heiminn á okkar dögum sem eitt heimsþorp.
Dr. Kjartan rekur svo í lokin það starf sem unnið hefur verið hér í þágu flóttafólks og hvernig það hefur tekist. Hann metur það svo að það starf sé „talsvert og gott“ (bls. 168) en segir að það þurfi að vera útbreiddara úti í söfnuðunum. Þurfi að vera eðlilegur þáttur í starfi þeirra. Þá sé mikilvægt að vinna að „vitundarvakningu innan Þjóðkirkjunnar“ og annarra safnaða um að standa með hinum minnstu bræðrum og systrum. Ástæða sé til að fjölga starfsfólki sem sinna skuli flóttamönnum og hælisleitendum. Þess vegna er ástæða til að fagna því sérstaklega að þjóðkirkjan er nýbúin að auglýsa eftir starfsmanni, presti, til að sinna aukinni þjónustu við útlendinga við hlið innflytjendaprests.
Höfundur lýkur bók sinni eins og vænta má á guðfræðilegum nótum. Það er vel við hæfi. Kristin trú ávarpar flóttamanninn í kærleika – hún á að gera það. Guð þekkir þjáninguna í heiminum – frelsarinn var krossfestur en hann reis upp frá dauðum. Leiðir heiminn til lífs. Þannig á kristinn maður að ganga fram á vettvangi dagsins og taka í hönd þeirra sem á flótta eru og eiga hvergi höfði sínu að að halla.
Hafi höfundur og útgáfan kærar þakkir fyrir bók þessa.
hsh