Þær sungu

21. febrúar 2021

Þær sungu

Fella- og Hólakirkja - glaðlegur kvennasönghópur

Konur hafa löngum borið kirkjustarf uppi til sjávar og sveita. Setið í sóknarnefndum, kvenfélögum, líknarfélögum og lagt ófáar vinnustundir fram til kirkjustarfs án þess að krefjast svo mikils sem einnar krónu fyrir.

Kirkjan getur ekki verið án þeirra.

Þess vegna er það við hæfi að sýna þeim þakklæti – og reyndar sem oftast – og gefa starfi þeirra gaum.

Konudagur er að minnsta kosti einn þeirra daga sem er kjörinn til þess.

Í Fella- og Hólakirkju var það gert í morgun með þeim hætti að konur í kórnum sungu undir stjórn organistans, Arnhildar Valgarðsdóttur. Þær lögðu semsé fram sinn skerf til guðsþjónustunnar eins og svo oft áður. Og gerðu það með glæsibrag. Söngurinn var kröftugur og glaðlegur. Já, svo hrífandi var söngurinn að kirkjugestir klöppuðu saman lófum eftir hvern sálm sem er óvanalegt í guðsþjónustu. 

Hvaða konur voru þetta?

Þær koma úr ýmsum áttum.

Kirkjan.is ræddi við þær eftir guðsþjónustuna. Þær eru samhentar og hafa margar hverjar verið lengi í kórnum. Þær luku upp einum munni yfir því hve kórfélagskapurinn væri góður og gefandi. Arnhildur sagði hljómburðinn í Fella- og Hólakirkja einstaklega góðan og húsið eftirsótt til tónleikahalds.  

Fella- Hólakirkja er í Breiðholtsprestalli og í kallinu eru Breiðholts-, Fella- og Hólasóknir.

Sr. Jón Ómar Gunnarsson þjónaði fyrir altari og prédikaði. Meðhjálpari var Helga Björg Gunnarsdóttir. Í lok guðsþjónustunnar va boðið i kirkjukaffi. Að sjálfsögðu var allra sóttvarnareglna gætt.

Þér konur
Konudagur er haldinn þegar hinn forni mánuður góa gengur í garð. Á góu er ilmur vors ekki fjarri í lofti og birtan stígur mjúklega fram en þó með festu. Það er bjart yfir konudegi og hann er í byrjun lönguföstu og því ekki neinn þorrabelgingur bóndadagsins þar sem menn troða í sig súrmat. Heldur betur munur á þorragleði og góugleði. Það er kyrrð og speki yfir konudeginum, karlar góðir. Saga daganna segir að sérstaks konudags hafi fyrst verið getið á 19. öld. Þessi dagur hefur fest sig í sessi með ýmsum hætti.

hsh



 


  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju