Fólkið í kirkjunni: Tekið tak

22. febrúar 2021

Fólkið í kirkjunni: Tekið tak

Síðumúlakirkja í Hvítársíðu

Nokkru eftir að farið er fram Hvítársíðu í Borgarfirði ber við kirkju á hægri hönd svo að segja þétt við veginn. Þarna kúrir hún ögn há í herðunum og kotroskin, með neonljósakross á forkirkju fyrir ofan kirkjudyr og hallandi hringkross á turni.

Síðumúlakirkja er ein af mörgum kirkjum sem komu af hendi frægasta húsameistara landsins, Guðjóns Samúelssonar. Kirkjan er eitt af nokkrum tilbrigðum við teikningu hans sem notuð var á fáeinum stöðum á landinu á þriðja áratug síðustu aldar. Sleðbrjótskirkja í Jökulsárhlíð er ættskotin henni sem og Draflastaðakirkja í Fnjóskadal. En því skal til haga haldið að Rögnvaldur Ólafsson, arkitekt, gerði tillögu að kirkju í Síðumúla árið 1913 en kirkjan var ekki byggð eftir þeirri teikningu. 

Kirkjan í Síðumúla er reist 1926, steypt hús, klædd stálþili á níunda áratug síðustu aldar og einangruð um leið. Áður stóð þar torfkirkja sem var rifin. Þar hefur staðið kirkja frá því á 13. öld.

Kirkja sem svo stendur nálægt vegi dregur strax að sér athygli. Kirkjan.is vindur sér út úr bílnum og byrjar á því að taka í hurðarhúninn. Mikil ósköp. Hún er opin en flestar kirkjur eru lokaðar í öryggisskyni.

Þegar gengið er sést að miklar framkvæmdir standa yfir. Kirkjunni er tekið tak. 

„Það sprakk heitavatnsleiðsla í kirkjunni og vatnið rann,“ segir Ásbjörn bóndi Sigurgeirsson, sóknarnefndarformaður á Ásbjarnarstöðum, þegar kirkjan.is spyr út í málið. „Gufan lék um veggi og gólf,“ bætir hann við og segir hana hafa eyðilagt málningu á veggjum og farið illa með innanklæðninguna. Á miðju gólfi er nú stór ofn enda er verið að þurrka kirkjuna og sá tímafreki verkþáttur langt kominn. Að sögn Ásbjörns er það handlagið fólk úr heimabyggðinni sem mun gera kirkjuna upp að mestu leyti, mála og laga klæðninguna að innanverðu. Ekki er ljóst hvenær framkvæmdum lýkur og fer það eftir umfangi verksins eins og gefur að skilja.

„Gripir kirkjunnar og altaristafla eru í Reykholti í tryggri vörslu séra Geirs,“ segir Ásbjörn sóknarnefndarformaður.

Spurður hvernig fjárhagsstaða sóknarinnar sé svarar hann því til að hún sé bara þokkaleg. Sóknin er ekki stór, aðeins fimmtíu og tvær sálir.

„Gamlar kirkjur út um allt land eru fulltrúar fyrir ákveðna hluti,“ segir Ásbjörn, „þær eru hluti af menningarverðmætum sveitanna, minna á kristna trú og eiga mjög mikið í fólki.“
Ásbjörn hefur verið sóknarnefndarformaður frá 2014 en það er í annað sinn – hann sinnti líka formennsku á síðustu öld. Hann er ekki fyrsti bóndinn né sá síðasti sem er sóknarnefndarformaður í sinni sveit. Þar á kirkjan hauka í horni sem er bændafólk.

Ásbjörn er sauðfjárbóndi og bú hans telur 500 fjár.

Hann er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjunnar maður sem ann kirkju sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Eins og sést lék vatnstjónið kirkjuna illa


Síðumúlakirkja fyrir vatnstjónið - altaristafaln er eftirmynd sem Eyjólfur Eyfellls, listmálari, gerði. Altari, gráður og prédikunarstóll kirkjunnar er úr eldri kirkjum


Skírnarsárinn stendur á marmarastöpli og er úr graníti. Jóhannes Eyfells er höfundur hans


Áletrun á skírnarsánum

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju