Skjólið opnað með viðhöfn

26. febrúar 2021

Skjólið opnað með viðhöfn

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, flutti ávarp og blessaði starfsemina, Guðni Th. Jóhannesson flutti einnig ávarp, og Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem veitir Skjólinu forstöðu

Í gær var hátíðleg stund á fyrstu hæð Grensáskirkju þegar biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, opnaði formlega dagsetur fyrir konur sem hafa hvergi höfði sínu að að halla að degi til. Auk hennar ávarpaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, þau sem viðstödd voru.

Rósa Björg Brynjarsdóttir, forstöðukona Skjólsins, bauð gesti velkomna.

Úr ávarpi biskups
Sr. Agnes rakti forsögu málsins og þakkaði öllum þeim er komið hafa að því.

Hún vakti fyrst máls á þessu verkefni 13. febrúar 2019 á kirkjuráðsfundi og var strax vel í það tekið. Í lok ársins var málið aftur á dagskrá kirkjuráðs og lögð drög að því að málið kæmist á fjárhagsáætlun þjókirkjunnar fyrir árið 2020. Síðan var Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, fengin til að stýra nefndinni sem undirbjó stofnun dagsetursins.

Sr. Agnes sagði að verkefnið væri unnið í anda orða úr Matteusarguðspjalli 25. kafla um að allt það sem mennirnir geri hinum minnstu systrum og bræðrum hafi þeir gert frelsaranum.

En góðir hlutir gerast hægt, sagði sr. Agnes í ávarpi sínu og mælti svo í lokin: Friður sé með Skjólinu og öllum þeim sem hingað koma.

Dagsetrið hefur fengið nafnið Skjólið og má vísa í því sambandi til bænarorða Davíðssálma 119.114: Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
Úr ávarpi forseta
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fagnaði þessu framtaki og taldi það vera heillaskref. Forseti sagði að honum væri mikill heiður að fá að vera við opnun Skjólsins.

Sagði hann að eitt af megineinkennum öflugs samfélags væri að setja sig í spor annarra og í framhaldi af því að leitast við að verða að liði. Síðan vitnaði hann til orða mannfræðings nokkurs sem sagði fyrstu heimildir um menningu vera brotinn lærlegg sem búið hafði verið um. Sú umhyggja sýndi menningu því að í hinu forna samfélagi var sá sem ekki gat fylgt hópnum skilinn eftir en þarna hafði verið hlúð að manneskju og það væri merki um menningu. Síðan hann gaf Skjólinu bókina Orðsnilld kvenna.


Starfskonur Skjólsins, þær Rósa Björg Brynjarsdóttir, sem veitir því forstöðu, og Una Sigrún Ástvaldsdóttir sem er í 50% starfshlutfalli við setrið, og Fjóla Halldórsdóttir sem er í 60% starfshlutfalli, sýndu gestum aðstöðuna og ræddu við þá. Magnea Sverrisdóttir, djákni á Biskupsstofu, hefur og starfsskyldur við Skjólið.

Að sjálfsögðu var allra sóttvarnareglna gætt og grímunotkun viðhöfð eins og sjá má af myndum. Setrið er opið fimm daga vikunnar frá kl. 11.00 til 15.00.

Það var þann 15. febrúar s.l. sem Skjólið var opnað. Stefnt er að því að fara hægt af stað og þróa starfsemina eftir því sem reynslan segir til um. Strax hafa nokkrar konur komið og sumar hafa komið oftar en einu sinni. Víst er að þessi þjónusta þjóðkirkjunnar við konur sem eru í bágri stöðu mun spyrjast út og verða vel sótt eins og búist er við. Við athöfnina í gær voru nokkrar konur sem sótt hafa Skjólið viðstaddar. Þeim leist mjög vel á hvernig búið hefur verið að starfsemi Skjólsins og voru mjög þakklátar.

Sömuleiðis var ekki annað að heyra en að öll þau sem viðstödd voru við opnunina væru afar ánægð með aðstöðuna.

Aðbúnaður og aðstaða í Grensáskirkju er eins góð og á verður kosið. Starfskonurnar sem og þær sem sótt hafa Skjólið þessa fyrstu daga voru ákaflega ánægðar með hve vel er að öllu staðið. Húsnæðið hefur verið skipulagt með þarfir kvennanna í huga.

Í anddyrinu eru skápar þar sem þær geta geymt töskur og þess háttar með öruggum hætti.

Gott viðtalsherbergi er um leið og komið er inn, síðan er annað þar við hliðina sem er hvíldarherbergi með tveimur rúmum. Í hvíldarherberginu er á vegg lítill kassi sem úr hanga hleðslusnúrur fyrir ýmsar símategundir. Síminn er nauðsynjatæki nútímans og mikilvægt að hann sé ætíð hlaðinn og þarna er séð fyrir því. Þá er afar rúmgott alrými með góðum stólum og sófum. Þar inn af er tómstundaherbergi og er nú beðið eftir því að saumavélar komi í hús en þær eru í pöntun. Þær konur sem hafa nú þegar komið í Skjólið hafa málað á léreft og búið til skartgripi eftir sínu höfði. Þá eru nokkrar tölvur á staðnum.

Mjög gott eldhús er innst í rýminu og matsalur. Stefnt er að því að bjóða upp á hollan mat í hádeginu. Hreinlætisaðstaða, sturta, og þvottaaðstaða er til fyrirmyndar.

En fyrir hverja er Skjólið?
Það er fyrir konur sem búa við húsnæðisvanda yfir daginn og hafa fáa ef nokkra staði til að fara á um hádaginn. Þetta á sérstaklega við um til dæmis konur sem eru í Konukoti en það er lokað yfir daginn. Aðrar konur sem búa við bágar og snúnar aðstæður eru velkomnar sem og þær sem eru nýkomnar í húsnæði eftir að hafa hvergi átt fastan samastað sem eigið heimili kallast um lengri eða skemmri tíma. Markmiðið er að efla samkennd meðal þessara kvenna, styrkja þær, og auka lífsgæði þeirra. Í Skjólinu er þeim boðið öryggi og umhyggja. Skjólið er félagslegt athvarf á grunni kristilegs kærleika og verður mótað í samvinnu við konurnar sem þangað sækja.

Kirkjan.is mun fylgjast með framvindu mála í Skjólinu og óskar þjóðkirkjunni til hamingju með þetta úrræði til handa konum.

Það er Hjálparstarf kirkjunnar  sem sér um rekstur á Skjólinu. Áætlaður rekstrarkostnaður ári er um 32 milljónir króna að sögn Bjarna Gíslasonar, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins.

Stefnt er að því að hafa samstarf við ýmsa aðila sem vinna í þessum málaflokki hvort heldur á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka. Þar má nefna sem dæmi Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR), Frú Ragnheiði (Rauði krossinn) og Konukot.

hsh


Rósa Björg leggur áherslu á orð sín


Margt fólk var viðstatt opnunina


Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, Magnea Sverrisdóttir, djákni, sem kemur að starfi Skjólsins og Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, sem stýrði undirbúningsvinnu við stofnun Skjólsins. Fjær sér í sr. Agnesi og Pétur Markan

Rósa Björg tekur við bók úr hendi forsetans

Alrýmið er snorturt og inn af því er tómstundastofa


Eldhúsið er traust og vandað

Hvíldarherbergið - fyrir miðri mynd sést kassinn með hleðslusnúrunum


Viðtalsherbergið er bjart og hlýtt



Skápar sem hægt er að læsa eru í anddyrinuog og í þeim er hægt að geyma föt og persónulega muni


  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Hjálparstarf

Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju
Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu
Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins