Kirkjan í Grindavík

6. mars 2021

Kirkjan í Grindavík

Altaristafla Grindavíkurkirkju - mósaíkmynd eftir eldri töflu sem Ásgrímur Jónsson málaði og hana má sjá í safnaðarheimilinu

Mörgum hefur sjálfsagt verið hugsað til Grindvíkinga í þeim jarðhræringum sem skekið hafa Reykjanesið.

Grindvíkingar eru í nábýli við marga staði þar sem skjálftarnir eiga upptök sín. Þeir hafa fundið skjálftana betur en aðrir. Einn var til dæmis svo að segja í túnfætinum í fyrradag og þó ekki væri hann „nema“ 4.1 á Richter þá fundu Grindvíkingar hressilega fyrir honum.

Allt samfélagið bíður að þessi skjálftahrina gangi yfir.

Sr. Elínborg Gísladóttir, er sóknarprestur Grindvíkinga.

Kirkjan.is ræddi við hana.


„Svo sannarlega er samfélagið hér upptekið af skjálftunum,“ segir hún, „en fólk heldur ró sinni enda þótt allir vildu vera lausir við þá.“ Hún segir að mikilvægt sé að fólk sýni samhug og samstöðu á óvissutímum í litlu samfélagi.

Sr. Elínborg segir að kirkjan standi sína vakt gagnvart Grindvíkingum. Í dag sé hún til dæmis opin frá kl. 12.00-16.00. Kveikt verður á kertum og leikin tónlist, boðið upp á samtöl, og léttar veitingar. Mikilvægt sé að fólk komi saman og eigi gott kirkjusamfélag. Grindavíkurkirkja hefur verið opin alla daga frá kl. 9.00-12.00.

„Pólverjarnir eru auðvitað ekki vanir svona jarðskjálftum,“ segir sr. Elínborg, „og þeim finnst þetta mörgum afskaplega óþægilegt.“

Föstudaginn 12. mars verður stund í Grindavíkurkirkju kl. 20.00 og þá mun kaþólski presturinn, sr. Nikolaj Kecik, koma og þau sr. Elínborg munu ræða sérstaklega við fólk úr pólska samfélaginu í Grindavík. Pólverjar eru allfjölmennir í Grindavík og starfa flestir þeirra hjá fiskvinnslunni Vísi. 

Sr. Elínborg segir að traust og gott samband sé milli kirkjunnar og pólska samfélagsins, og hún eigi prýðilegt samstarf við kaþólska prestinn sem sinnir Suðurnesjum. Kaþólskar guðsþjónustur séu í gömlu sóknarkirkjunni.

Heimafólk í Grindavík er nokkuð æðrulaust í þessari skjálftahrinu. Þó er þreytu ögn farið að gæta vegna þess hve lengi hún hefur staðið yfir - og skyldi engan undra - og áhyggjur banka upp hjá sumum eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum. Seint verður sennilega hægt að venjast sífelldum jarðskjálftum og flestir vona að þetta gangi sem fyrst yfir.

Það er óneitanlega sérstök reynsla fyrir heimamenn þegar brugðið er á loft ýmsum sviðsmyndum eldsumbrota eins og það heitir og mögulegur vettvangur sumra þeirra er handan við bæjarhólinn. Heimamenn eru þó ýmsu vanir. Allir sækja vinnu sína eins og ekkert sé og halda sig svo að mestu heima og fylgjast mjög vel með þróun mála. Og einhverjir eins og gengur skjótast upp í sumarbústað til að hvíla sig.

Grindvíkingar horfa björtum augum fram á vorið og verða fengnir þegar þessi órói er um garð genginn. Hvenær það verður nú - um það er ekki hægt að segja. 

En kirkja Grindvíkinga stendur þeim opin og öll þjónusta. Þeir vita af því. 

hsh

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurbær


Altaristaflan í safnaðarheimilinu - Ásgrímur Jónsson (1876-1958) málaði. Stefið er Jesús kyrrir vatn og vind, Markúsarguðspjall 4. 39: „Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegi þú, haf hljótt um þig!“ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Trúin

  • Frétt

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta