Umhverfismál og kirkja

20. mars 2021

Umhverfismál og kirkja

Sr. Sindri Geir Óskarsson - kirkja og umhverfi eru hans málNú er föstutími og hver sunnudagurinn á fætur öðrum líður þar sem margvísleg föstustef eru tekin fyrir í prédikunum úti í söfnuðinum. Enda þótt fastan hafi almennt látið undan síga þá heyrist alltaf af fólki sem hefur sett sér sín eigin föstumarkmið ef svo má að orði komast. Þau ná til ákveðinna þátta, til dæmis hafa sumir látið hjá líða að vera á Feisbók á föstunni; aðrir láta ákveðinn mat vera, sumir setja sér það mið að lesa einn Passíusálm á dag og þannig mætti tína fleira til. Fastan er semsé ekki horfin af vettvangi – hún hefur breyst.

Og fastan er líka tengd umhverfismálunum. Sumir hafa tamið sér að fara út í náttúruna, ganga um og finna ilm jarðar og himins. Horfa til náttúrunnar sem kraftaverks sem maðurinn sé hluti af.

Græn skref og göngur

Umhverfisstarf er mjög öflugt í Glerárprestakalli á Akureyri. Þar er ungur sóknarprestur í forystu og lætur umhverfismál sig mjög varða. Hann hefur skrifað handbók um umhverfismál í kirkjunni og þýtt verkefni fyrir Grænn söfnuður. 

Kirkjan.is las um græn skref á páskaföstu hjá Glerárkirkjusöfnuðinum og sló á þráðinn til sr. Sindra Geirs Óskarssonar og spurði hann hvernig gengi.

„Það gengur hægt en örugglega,“ svarar sr. Sindri. „Hér í Glerárprestakalli byrjum við göngur í kyrruviku og þær eru margar á dagskrá í vor og sumar. Þótt að fastan sé í nafni þessa verkefnis þá var það ekki ætlunin að þetta yrði bara tengt lönguföstu.“ Hann segir að Feisbók leyfi ekki að síðan Loftslagspílagrímar, sé nefnd á nafn. „En þar sem verkefnið byrjaði á föstunni þá fær síðan að heita þessu nafni í bili“, segir hann og er hvergi banginn. „Svo finn ég einhverja leið til að breyta nafninu.“

Sr. Sindri Geir segir að nafnið hafi komið til vegna þess að verkefnið hófst við upphaf föstu og sér hafi fundist það upplagt ef einhverjir söfnuðir vildu tengja föstuna við umhverfismál og nota tækifærið til að ganga pílagrímagöngur.

„Það eru nokkrir einstaklingar sem hafa verið duglegir að ganga og senda sína kílómetra,“ segir sr. Sindri Geir og bætir því við að Austfjarðaprestakall sé búið að skipuleggja margar pílagrímagöngur á föstunni og kílómetrarnir þeirra hrannist inn. „Nú hafa íslenskir loftslagspílagrímar gengið 104 kílómetra svo ég er bjartsýnn á að við náum takmarkinu að ganga frá Hólum til Glasgow, eða 1400 kílómetra, fyrir veturinn“, segir sr. Sindri Geir fullur tilhlökkunar.

Sr. Sindri Geir segir að fleiri en þau í Glerárkirkju séu með pílagrímagöngur á dagskrá. Hann veit hins vegar ekki til þess að til standi að ganga þessar loftslagspílagrímagöngur víða. „Ég hef heyrt frá sex prestum sem stefna að því að vinna með þetta verkefni í sumar, svo mér sýnist að það verði víða um land, og jafnvel hjá íslenska söfnuðinum í Noregi verði hægt að ganga sem loftslagspílagrími í ár.“

En hve áhugasamur er söfnuðurinn? Höfðar þessi málaflokkur meira til yngra fólks en eldra?

„Reynslan af göngumessum er sú að þær höfða frekar til eldra fólks,“ segir sr. Sindri Geir. „Það að ganga í þögn, vera ekki með tónlist í eyranu eða stöðugt auga á símanum reynist sumu yngra fólki erfitt.“ Hann segir að þau fermingarbörn sem hafi mætt í göngumessu hafi kvartað mikið yfir því hvað þetta væri erfitt, þótt gangan sjálf væri létt. „Hins vegar erum við núna að kynna þetta í söfnuðinum og ég hlakka til að sjá hvernig þetta verkefni gengur í sumar“, segir sr. Sindri Geir.

Umhverfisstefna kirkjunnar er framsýn

En er hinn umhverfissinnaði klerkur sáttur við starf þjóðkirkjunnar að umhverfismálum? Er eitthvað sem betur mætti fara og ef svo er hvað þá helst?

„Ég er sáttur, já svo sannarlega,“ svarar hann að bragði.

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar
„... er framsýnni en marga grunar. Greinargerðin sem henni fylgir ávarpar misskiptingu auðs, ranglátt efnahagskerfi og sinnuleysi Vesturlanda í réttlætis- og umhverfismálum. En það er auðvitað eitt að hafa góð orð á blaði og annað að fylgja þeim eftir. Grænum söfnuðum og söfnuðum á grænni leið fjölgar.“

Sr. Sindri Geir segir að biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hafi talað um grænu kirkjuna í flestum viðtölum og prédikunum undanfarin ár. „Þjóðkirkjan hefur verið virk í samræðu kirkjudeilda um umhverfismál og víða eru umhverfismálin tekin upp í barna- og æskulýðsstarfinu.“

Þetta tvennt

Sr. Sindri Geir segir að Glerárkirkjusöfnuður sé duglegur við flokkun og umhverfismálin hjá þeim í flestu til fyrirmyndir en þau eigi eftir að fara í þá vinnu að gerast grænn söfnuður. Málið sé á dagskrá og því verði hrint í framkvæmd.

„Ég vona að umhverfisstarfið verði eitt af okkar sérkennum hér á Norðurlandi en þá þurfum við líka að vinna að því,“ segir sr. Sindri Geir.

Sr. Sindri Geir segist vilja sjá tvennt þegar hann horfir fram á við:

Tvennt
„Stóraukna skógrækt á jörðum kirkjunnar, og ég vil sjá meira af náttúrutengdu helgihaldi, að litúrgían og prédikunin hjálpi okkur að styrkja tengslin við skaparann og sköpunarverkið. Að það verði ríkur þáttur í boðun kirkjunnar að við séum hluti af þessari sköpun, en ekki yfir hana hafin.“

„Þjóðkirkjan er ekki umhverfissamtök,“ segir sr. Sindri Geir með þunga, „en við erum hreyfing fólks sem fylgir friðar,- réttlætis- og kærleiksboðskap Krists.“

Frammi fyrir vistvá


Hann segir mannkyn standa frammi fyrir vistvá, eyðingu vistkerfa og breytingum á veðrakerfum, og þá þurfi fólk að spyrja sig eins og endranær þeirrar spurningar:

„Á ég að gæta bróður míns?“

„Svarið er hrópandi já – bræður okkar og systur eru ekki aðeins fólkið í kringum okkur heldur einnig ófæddar kynslóðir og jörðin sjálf sem á uppruna sinn hjá sama skapara og blés lífsandanum í þig og mig.“

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Umhverfismál og kirkja

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju