Viðtalið: Kirkjan er hornsteinn

24. mars 2021

Viðtalið: Kirkjan er hornsteinn

Sr. Gunnlaugur Stefánsson er kirkju- og hestamaður

Séra Gunnlaugur Stefánsson, fyrrum sóknarprestur í Heydölum, er maður sem liggur ekki á skoðunum sínum. Hann var enda áhrifamaður í kirkjustjórn um langt skeið og þar áður sat hann á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn. Um árabil hefur hann ritað greinar í blöð um samfélagsmál af ýmsum toga. Hann hefur til dæmis verið ötull baráttumaður gegn laxeldi í opnum sjókvíum sem hann telur vera ógn við náttúru landsins og umhverfi.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um þjóðkirkjulög þar sem kveðið er meðal annars á um að nú verði fjárstjórnarvald framvegi á hendi kirkjuþings. Þetta frumvarp mun marka viss tímamót í kirkjusögunni verði það samþykkt sem allt útlit er fyrir enda um að ræða stjórnarfrumvarp.

Það er því forvitnilegt að heyra hvað sr. Gunnlaugur hefur um þessi mál að segja í hinu víða samhengi. Maður með fjölbreytilega reynslu og skoðanir sem hann setur fram af hispursleysi og einurð.

Jafnvægi milli ríkis og kirkju

Séra Gunnlaugur hefur í fjölmörg ár bent á að þjóðkirkjan sé nú þegar sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu hvað allan rekstur og starfsemi snertir.

„Prestarnir eru ekki embættismenn ríkisins, heldur starfsfólk kirkjunnar sem borgar því laun,“ segir sr. Gunnlaugur. Hann spyr jafnframt hvort að þau sem klifi endalaust á aðskilnaði ríkis og kirkju telji að segja beri upp kirkjujarðasamkomulaginu sem sé ekki annað en viðskiptasamningur, þar sem ríkið greiði afgjald af kirkjujörðum til kirkjunnar. „Ætla þau þá að sjá til þess að ríkið skili kirkjunni jörðum sínum?“ spyr hann með þunga.

Hann telur umræðu í þessum dúr vera iðulega þokukennda og tekur dæmi:

„Nú gerir ríkið alls konar fjársamninga við fyrirtæki og félagasamtök án þess að þau teljist þess vegna vera einhver ríkisfyrirtæki. Má nefna íþróttahreyfinguna, Rauða Krossinn, lífeyrissjóðina, verkalýðshreyfinguna og fleiri. Hrópar einhver þar um aðskilnað ríkis og félaganna? Nei, svo sannarlega ekki. Sömuleiðis setur Alþingi fyrirtækjum nákvæm lög til að starfa eftir eins og gildir um kirkjuna og trú-og lífsskoðunarfélögin.“

Þar sem óljóst hafi verið í umræðunni um það hvað bæri að skilja að þá spyr séra Gunnlaugur hvort málið snúist ekki í raun og veru um stöðu kristinna gilda í samfélaginu og hvaða umgjörð eigi að vera um þau.

„Felur krafan um „aðskilnað“ ríkis og kirkju í sér að skipta þjóðsöngnum út fyrir annan af því að söngurinn gæti verið „áróður“ fyrir kristna trú?“ spyr séra Gunnlaugur með alvörusvip og bendir líka á að dagatalið okkar sé samofið sögu og boðskap Jesú Krists. „Svo er það þjóðfáninn með sínum kristna krossi“, segir hann og spyr hvað menn ætli þá að gera við hann í aðskilnaðarpælingum sínum. „Málið er ekki einfalt því að allt eru þetta hornsteinar og skilaboð um að í landinu býr kristin þjóð“, segir sr. Gunnlaugur ákveðið.

Þjónusta kirkjunnar um allt land

Sr. Gunnlaugur bendir á hið víðfeðma hlutverk þjóðkirkjunnar í samfélaginu. Þéttriðið þjónustunet hennar nái um allt land og frumvarpið sem nú liggur fyrir þingi ítrekar þetta með afdráttarlausum hætti í 3. gr.:

„Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.“

„Þjóðkirkjan gegnir veigamiklu hlutverki í menningarlífi og velferðarþjónustu,“ segir hann, „þjónustan felur í sér sálgæslu, oft í sárum aðstæðum og fer ekki hátt.“ Þá kjósi 90% þjóðarinnar útför sem sé á hendi þjóðkirkjunnar. Hann spyr hvort að með því að klifa sýknt og heilagt á aðskilnaði ríkis og kirkju sé verið að krefjast takmörkunar eða breytinga á þessari þjónustu. Sé svo verði fólk að tala skýrt og hreint út.

„Kirkjan hefur staðið fyrir helgihaldi og athöfnum í meira en 1000 ár, sér einnig um umfangsmikla félagslega þjónustu fyrir unga og aldna,“ segir sr. Gunnlaugur og bætir því að að Hjálparstarf kirkjunnar sé áþreifanlegur vitnisburður um það. „Á að „aðskilja“ eitthvað þar?“ spyr hann undrandi á svip.

Og fleiri dæmi tiltekur fyrrum Heydalaklerkur og honum er mikið niðri fyrir.

„Kirkjan varðveitir í húsum sínum og umhverfi gríðarleg menningarverðmæti. Stofnun hollvinafélags á Húsavík til að fjármagna viðgerðir á kirkjunni þar er táknrænt um það. Fólkinu finnst vænt um kirkjuna sína. Þýðir „aðskilnaður“, að þessar eignir kirkjunnar verði settar í umsjá ríkisins af því að einhverjir telji þær sameign þjóðar og hvað kostar það? Þá eru kirkjurnar inngrónar af menningu og sögu. Þar blómgast listin og fjölskrúðugt starf. Kirkjukórarnir og tónlistarfólkið vitna t.d. um það. Hefur „aðskilnaður“ ríkis og kirkju áhrif þar?“

Kirkjan er fólkið í landinu

Sr. Gunnlaugur vitnar til orða fyrrum forseta Íslands, dr. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem sagði fyrir nokkrum árum í ræðu á Sauðárkróki að kirkjan væri elsta og stærsta lýðræðishreyfingin og lagði áherslu á að kirkjan væri fólkið í landinu.

„Leiða má að því gild rök, að lútersk þjóðkirkjuskipan á Norðurlöndum hafi örvað þróun um almenna velferð og mannréttindi í samanburði við önnur lönd í Evrópu,“ segir sr. Gunnlaugur. „Þar vó þungt alþýðufræðslan sem kirkjan sá um og þrátt fyrir sára örbirgð þjóðarinnar.“ Hann bendir á að lýðræði sé kjölfesta í starfsháttum kirkjunnar. Heimafólkið velji presta og einstaklinga í sóknarnefnd til að sjá um stjórnsýsluna og starfið í sjálfboðinni þjónustu. Þar eigi ríkið enga aðkomu.

Stjórnarskráin minnir á að kirkjan er hornsteinn

Kveðið er á um stöðu þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá – 62. gr.:

Stjórnarskráin
„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda“.

„Kirkjan á að vera evangelisk og lútersk til að ríkisvaldið geti stutt hana og verndað“, segir sr. Gunnlaugur og bendir á að meirihluti kjósenda hafi ekki viljað breyta þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir nokkrum árum. „Það eru tær skilaboð um kristinn sið í landinu,“ segir sr. Gunnlaugur, „vilja stjórnmálaflokkar, sem hrópa á „aðskilnað“ ríkis og kirkju, breyta því?“ Vilji þeir breyta því þá verða þeir að svara því skýrt og skorinort að mati sr. Gunnlaugs.

Í lok samtalsins segir sr. Gunnlaugur að þessi pólitíski frasi um „aðskilnað“ ríkis og kirkju sé merkingarlaus tímaskekkja og nær væri þeim sem á honum klifa í tíma og ótíma að ræða kjarna málsins sem er samfélag kristni og þjóðar.

Algleymi - hestamennska og veiði

Það er hressandi sem fyrr að ræða við fyrrum Heydalaklerk og nú sem áður á kirkjan þar góðan liðsmann. Kirkjan.is tók hann tali í hesthúsum í Hafnarfirði. Sr. Gunnlaugur hefur ætíð verið mikill hestamaður en hann fór í sveit sem drengur og kynntist þar hestum. Sveitalífið heillaði hafnfirska drenginn og það kom því ekki á óvart að hann skyldi gerast sveitaprestur.

„Þegar ég er kominn hingað í hesthúsin til að hirða um hrossin og ríða út þá er ég kominn í algleymi,“ segir hann, „það sama á við þegar ég er við veiðar í ám og vötnum.“ Hann segir þetta vera algera slökun úti í náttúrunni sem honum er mjög umhugað um og með þeim orðum vindur hann sér á bak, sæll á svip og einbeittur sem fyrr. Svo hverfur fyrrum Heydalaklerkur smám saman sjónum ásamt samferðafólki sínu þar sem þau ríða fetið eftir reiðleiðinni í kyrru og mildu veðri hins fyrsta dags einmánaðar. Í algleymi - og hvíld - umvafin sköpunarverkinu.

hshSr. Gunnlaugur á leið til kirkju í Heydölum þar sem hann þjónaði alla sína prestskapartíð, rúm þrjátíu ár