Um andleg mál

25. mars 2021

Um andleg mál

Andlegar bækur á markaði - Bókakaffið í Ármúla 42

Um þessar mundir stendur yfir markaður á bókum og bæklingum um andleg málefni í Bókakaffinu í Ármúla og á Selfossi.

Kirkjan.is brá sér inn í Ármúlann í gær og leit yfir markaðinn.

Urmull af bókum í þessum breiða málaflokki sem kallast andleg málefni hefur verið gefinn út. Sumar þeirra voru gefnar út í stóru upplagi og aðrar í minna. Nokkrar urðu metsölubækur. Aðrar seldust lítið sem ekki neitt. Enn aðrar ekkert. Enginn gafst þó upp - enda hugsjónafólk og sumt með köllun frá æðri máttarvöldum.

Og bæklingarnir um andleg mál streymdu í stríðum straumi út úr prentvélunum. Mörgum þótti gott að gauka að vinum, vandamönnum og fólki á förnum vegi einum og einum bæklingi um áhugamál sín. 

Og hvað geymir þessi flokkur?
Í fyrsta lagi má segja að í honum ægi öllu saman sem getur tengst því er andlegt kallast. Bækur og bæklingar um öll trúarbrögð, þó er kristin trú þar í fyrirrúmi eins og gefur að skilja. Hvers konar rit um spíritisma eru áberandi og hefur verið ótrúleg gróska á þeim markaði fyrir og um miðbik síðustu aldar. Bækur og ritlingar um jóga, drauma, já og sjálfshjálp, sömuleiðis um stjörnuspeki. Flóra bæklinganna er mjög svo fjölbreytileg þegar litið er til stærðar, litasamsetningar, leturs, og mynda. Kannski mætti að segja að sértækar netsíður, til dæmis á Feisbók, hafi leyst þessa bæklingaútgáfu af hólmi.

Kirkjan.is ræddi við afgreiðslumanninn í Bókakaffinu, Jóhannes Ágústsson - að sjálfsögðu bauð hann upp á kaffi! Hann sagði að markaðurinn stæði fram til páska og jafnvel lengur. Von væri á fleiri titlum því alltaf væri verið að taka upp úr bókakössum. Jóhannes sagði að töluverður áhugi væri á þessum málaflokki og bækur í honum seldust þess utan jafnt og þétt.

Jóhannes sagði að margt ungt fólk spyrðist lika fyrir um þessar bækur. Stjörnuspekibækur, og draumaráðningar - já og guðfræðibækur. Þetta væru bækur sem hefðu sígilda skírskotun og ungt fólk sem hefði áhuga á þessum málaflokki væri mjög svo næmt fyrir því sem einhver veigur væri í. 

Kirkjan.is stóðst ekki bókafreistingar og fór út með þrjá bæklinga sem þóttu athyglisverðir og eigulegir. Hér er mynd af þeim.

Hver þeirra segir sögu eins og sjá má af heitunum.

Dr. Benjamín Eiríksson var þjóðkunnur maður á sinni tíð og afar merkur. Einhver mun eflaust rannsaka trúarsögu hans sérstaklega sem og köllun þegar fram líða stundir en ævisaga hans hefur verið skráð. Bæklingurinn Skálholt geymir prentað útvarpserindi sem dr. Benjamín flutti í apríl 1963. Hann er býsna þungorður um rómversk-kaþólsku kirkjuna. En þetta segir hann meðal annars um siðbótina:

„Eitt tilfinnanlegasta tjónið, sem íslenzka þjóðin beið við siðbótina var eyðilegging bókasafna klaustranna. En þar var konungsvaldið að verki. Og rétt er að meta það tjón með hliðsjón af því tjóni sem átökin um siðbótina höfðu í för með sér í öðrum löndum. En siðbótin auðgaði íslenzku þjóðina stórkostlega, einmitt á þessu sviði.“ (Bls. 13).

Bæklingurinn um Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd frá 1931 geymir hvatningu Snæbjarnar bóksala Jónssonar um að leggja kirkjubyggingunni þar lið. Hann er fullur af eldmóði fyrir hönd kirkjunnar og var hann þó ekki að eigin sögn mikill kirkjunnar maður. Árið áður - eða 1930 - hafði Alþingi samþykkt að veita fé til kirkjubyggingar í Saurbæ, fimmtungs áætlaðs verðs. Þessi samþykkt Alþingis hleypti lífi í söfnunina sem hafði staðið yfir í nokkur ár.

Ekki þýðir að fletta upp í Guðfræðingatalinu og leita að síra Arnbirni Ólafssyni en nafn hans er á bæklingi sem út kom 1940. Síra Arnbjörn Ólafsson, tveggja manna tal, er áhugaverður bæklingur, 80 blaðsíður, og er um að ræða dulnafn prests og auk þess er nafn viðmælanda ekki getið. En presti nokkrum, sr. Kristni Daníelssyni, þótti ástæða til að vekja athygli á bæklingnum á sínum tíma með dálítilli grein í Morgunblaðinu 5. október 1940. Ástæða þess var sú að hann var mjög ánægður með bæklinginn og honum fannst hann liggja í þagnargildi og vera lítt sem ekkert auglýstur - og hvort tveggja var miður í hans augum.

Í grein sinni segir hann meðal annars þetta um bæklinginn
„Í trúmálunum er presturinn öruggur, en frjálslyndur og víðsýnn og eins og í öðrum málum óáreitinn við aðra, einstaka menn og stefnur. ... Eftir að hafa lesið hann fanst mjer hann eiga betra skilið en að verða útgefanda aðeins til kostnaðar...“

Auk þess er síra Arnbjörn sálarrannsóknarmaður og býr að eigin reynslu sem gefur honum „djörfung til að fullyrða, að framhaldslífið sé óhrekjanleg staðreynd.“ (Bls. 62-63). Það er svo annað mál að það læðist að lesanda bæklingsins að sá er tók sig til og ritaði greinarstúf í Morgunblaðið 1940 sé og höfundur bæklingsins. En það er náttúrlega ósannað mál - og ekki annað en fluga sem kom í höfuð og fékk byr undir báða vængi eftir að hafa lesið um sr. Kristin Daníelsson í Guðfræðingatalinu. Þessa tilgátu mætti rökstyðja nánar síðar til gamans - en það er allt annað mál og óskylt þessari frétt.

Kirkjan.is hvetur öll áhugasöm um andlegar bókmenntir af ýmsum toga að líta við í Bókakaffinu við Ármúla 42 í Reykjavík eða á Austurvegi 22 á Selfossi. 

hsh


Jóhannes Ágústsson, afgreiðslumaður í Bókakaffinu við Ármúla


Jóhannes útbjó auglýsinguna - einföld en segir allt - einkaframtakið bjargar sér


Góðar og nauðsynlegar leiðbeiningar fyrir viðskiptavinina á útihurð Bókakaffisins - auk þess vekur það spennu um hvaða makalausa trappa sé þarna á ferð og þess verð að hennar sé getið sérstaklega

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju