Fólkið í kirkjunni: Úr Breiðholti í Fljótin

27. mars 2021

Fólkið í kirkjunni: Úr Breiðholti í Fljótin

Krossinn tekinn ofan af Knappstaðakirkju - myndina tók Halldór Gunnar Hálfdánarson, sóknarnefndarformaður Barðssóknar

Halldór Gunnar Hálfdánarson er bóndi á Molastöðum í Fljótum og sóknarnefndarformaður í Barðssókn.

Kirkjan.is spyr hvort hann sé fæddur í sveitinni en svo er nú ekki.

„Ég er úr Breiðholtinu í Reykjavík,“ svarar Halldór Gunnar glaðlega „og fór í bændaskólann á Hvanneyri þar sem ég kynntist konu héðan úr sveitinni.“

Og það var haldið norður. Ekki aftur snúið. 

Konan hans er María Þórunn Númadóttir, bóndi og bókhaldari.

Þau hjónin eru með sauðfjárrækt og nautgripi. Svo er hann í skólaakstri meðfram búmennskunni, Grunnskólinn austan Vatna, heitir skólinn, hann er á Hofsósi og á Hólum. „Ég smala saman krökkunum í Fljótunum og ek þeim áleiðis á móti öðrum skólabíl,“ segir hann glaðbeittur.

Halldór Gunnar segist ekkert hafa verið í kirkjumálunum þegar hann var fyrir sunnan og bætir við: „Mér var nú hótað því að ég yrði ekki fermdur vegna þess að ég var svo erfiður unglingur.“ Svo hlær hann hann hressilega, fermingardrengurinn úr Seljahverfinu í Breiðholti og sóknarnefndarformaðurinn í Fljótum.

Þær eru margar kirkjurnar um allt land sem eru gamlar og hver þeirra segir sína sögu. Þær eru líka enn notaðar sem sóknarkirkju en í sumum þeirra er helgihald haft um hönd einu sinni á ári eða svo.

Knappstaðakirkja í Fljótum er fagurt hús þar sem hún stendur undan brekku í miðjum kirkjugarðinum sem er snotur og grjóthlaðinn. Þar er messað einu sinni á ári. Knappstaðamessa og drífur margt fólk að. Kirkjan var vígð 1840.

Krossinn á vesturstafni kirkjunnar er óvenjulegur og fögur smíð því að hann stendur á fæti sem gerður er úr átta ferstrendum pílárum. Hann var farinn að gefa sig og tekin var ákvörðun um að smíða nýjan. Byggingafélagið Berg á Siglufirði var fengið til verksins og á myndinni sést starfsmaður þess taka krossinn ofan. Sóknarnefndarformaðurinn Halldór Gunnar tók myndina. Hann segir að Húsafriðunarnefnd hafi óskað eftir því að fá myndir af öllum framkvæmdum við kirkjuna. 

Síðan verður að sögn Halldórs Gunnars ráðist í að laga klæðningu á Knappstaðakirkju.

„En það er Barðskirkja sem er sóknarkirkjan,“ segir Halldór Gunnar. Hún er líka gömul – vígð í nóvember 1888 og byggð forkirkja við hana 1915. Halldór Gunnar segir að það þurfi líka að setja nýjan kross á hana því að krossinn fauk af kirkjunni í desemberveðrinu fræga á síðasta ári. Auk þess þurfi að skipta um vatnsbretti.

Kirkjan er kjölfesta
Halldór Gunnar segist hafa snemma áttað sig á því að það var ekki annað hægt en að taka þátt í störfum kirkjunnar í sveitinni vegna þess að hún sé svo stór hluti af henni enda þótt ekki sé verið að messa í tíma og ótíma. Kirkjan í sveitinni segir söguna og er viss kjölfesta. Fólki þyki vænt um kirkjurnar. Það er fámennt í Barðssókn, segir Halldór Gunnar, og sjóðir ekki digrir frekar en hjá öðrum fámennum sóknum. Gamlar kirkju þurfi náttúrlega viðhald og með þeim þurfi að fylgjast. Hann segir að því miður sé ekki auðvelt að fá iðnaðarmenn til starfa – og svo er reyndar víða um land.

Eins og sums staðar úti á landsbyggðinni er erfitt um vik með að fá organista og kórstjóra.

„Lengi vel var það hún Anna Kristín Jónsdóttir, Mýrarkoti við Hofsós, sem sá um orgelspil og kórstjórnina,“ segir Halldór Gunnar, „en hún er hætt fyrir aldurs sakir“. Svo var tónlistarkennari frá Sauðárkróki, Anna María Guðmundsdóttir, hjá þeim um tíma. Hann segir að spænskur körfuboltaþjálfari hafi æft kórinn fyrir eina netmessu en nú sé hann farinn heim. Sjálfur syngur Halldór Gunnar í kórnum, er tenór. Þessi mál eru í biðstöðu og segir hann að kannski hafi ekki reynt svo mjög á þau vegna þess að lítið hefur verið um að vera í kirkjunum út af kórónuveirufaraldrinum.

Sóknarprestur Barðssóknar er sr. Halla Rut Stefánsdóttir sem búsett er á Hofsósi. Barðssókn var þjónað af sr. Gísla Gunnarssyni í Glaumbæ frá 1985-1996.

Halldór Gunnar Hálfdánarson, sóknarnefndarformaður í Barðssókn, röskleikamaður í orði og verki, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Halldór Gunnar Hálfdánarson, bóndi, skólabílstjóri og sóknarnefndarformaður


Verkið undirbúið - myndir frá Knappstöðum tók Halldór Gunnar Hálfdánarson


Björn Jónsson frá Byggingarfélaginu Bergi á Siglufirði einbeittur við verkið


Krossinn skoðaður - augljóst að hann þarf að endurnýja - krossinn er svokallaður smárakross eða Lasarusarkross - þriggja blaða smári stendur fyrir heilaga þrenningu







  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar