Trú og menning á RÚV

1. apríl 2021

Trú og menning á RÚV

Gamla góða Gufan - trúar- og menningarefni á RÚV

Mjög fjölbreytileg dagskrá sem snertir trú og menningu verður flutt í Ríkisútvarpinu í dag og á morgun á rás eitt.

Það er orðið nánast sígilt efni útvarpsviðtalið við dr. Jón Ma. Ásgeirsson (1957-2012), prófessor í nýjatestamentisfræðum við Háskóla Íslands þar sem hann ræðir um Opinberunarbók Jóhannesar. Lesari í þættinum er Gísli Pétur Hinriksson. Þættirnir eru fjórir og sá fyrsti er hér og að morgni föstudagsins langa er svo annar þáttur í þessari röð. Þriðji þátturinn verður fluttur á páskadagsmorgni og sá fjórði annan dag páska.

Fyrsti þátturinn af þremur um Magnús Eiríksson, (1806-1881), guðfræðing, sem var frá Skinnalóni á Melrakkasléttu, og skrifaði margt í guðfræði og var mjög gagnrýninn á ríkjandi guðfræðikenningar samtímans. Magnús frater, var hann kallaður, bróðir. Umsjónarmaður þáttarins er Ævar Kjartansson, guðfræðingur. Annar þáttur er svo á dagskrá kl. 9.03 á föstudaginn langa og sá þriðji á laugardag fyrir páska.

Síðan er guðsþjónusta frá Laugarneskirkju á sínum tíma, kl. 11.00, þar sem sr. Davíð Þór Jónsson, prédikar og þjónar fyrir altari. Kór Laugarneskirkju syngur, organisti og kórstjóri er Elísabet Þórðardóttir.

Eftir hádegi er svo að finna þátt sem ber heitið Allir deyja. Þar er rætt við fólk um dauðann.

Leikritið Vorar skuldir verður flutt kl. 15.00, titilinn er náttúrlega vísun í Faðir vorið. Það er leikhópurinn Kriðpleir sem á heiðurinn af þessu og höfundar og leikstjórar eru: Bjarni Jónsson, Árni Vilhjálmsson, Ragnar Ísleifur Bragason og Friðgeir Einarsson. Annar þáttur þess er svo á dagskrá á sama tíma á föstudaginn langa. Sá þriðji á páskadag og fjórði á annan dag páska.

Í kvöld, kl. 21.05, verður svo fjallað um píslargöngu Krists, upphaf kristni, Pál postula, tilurð Biblíunnar og þróun kristninnar. Baldur Óskarsson ræðir við Gunnar Dal, (1923-2011) rithöfund og heimspeking. Fyrsti þáttur af tveimur. Seinni þáttur þessa viðtals er svo á dagskrá á sama tíma að kvöldi föstudagsins langa.

Nær miðnætti verður svo þáttur sem fjallar um þjáninguna og Guð. Það er dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði, sem flytur hugleiðingu um þjáninguna í kristinni trúarhefð og guðfræði. Ævar Kjartansson, guðfræðingur, les valin orð úr Jobsbók.

Föstudagurinn langi

Stabat mater verður svo flutt að morgni föstudagsins langa rétt eftir klukkan átta. Það var tónskáldið Giovanni Battista Pergolesi sem samdi verkið. Mingardo og Gemma Bertagnolli syngja með kammersveitinni Concerto Italiano; Rinaldo Alessandrini stjórnar. Á undan verkinu les Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona, þýðingu Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) á ljóði Jacopone da Todi „Stabat Mater“.

Útvarpsguðsþjónusta frá Áskirkju verður svo flutt kl. 11.00. Það er sr. Sigurður Jónsson sem þjónar fyrir altari og með honum er Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni. Bjartur Logi Guðnason, organisti og kórstjóri, sér um tónlist ásamt Kór Áskirkju.

Jóhannesarpassían eftir Jóhann Sebastían Bach verður svo flutt kl. 19.00. Þetta er upptaka frá tónleikum Kórs- og Kammersveitar Langholtskirkju sem fram fóru í Langholtskirkju 7. mars s.l. Einsöngvarar: Benedikt Kristjánsson,Hildigunnur Einarsdóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir, Fjölnir Ólafsson og Ólafur Freyr Birkisson. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson. Umsjón með þættinum hefur Bergljót Haraldsdóttir.

Stundarfjórðung yfir klukkan 23.00 er svo endurtekinn þáttur frá 1970 þar sem flutt verður þjóðsagnasamantekt Þorsteins frá Hamri (1938-2018). Kemur Júdas Ískaríot þar við sögu. Auk Þorsteins eru flytjendur Guðrún Svava Svavarsdóttir, Sólveig Hauksdóttir og prófessor Jón Helgason (1899-1986).

Laugardagur fyrir páska

Strax að morgni laugardagsins upp úr klukkan sjö er þáttur sem ber nafnið Hátíð hátíðanna – af hverju höldum við páska? Þetta er athyglisverður þáttur í umsjón þeirra Jónu Símoníu Bjarnadóttur og Elvars Loga Hannessonar. Rætt er um páskahátíðina fyrr og nú. Í þættinum verða flutt íslensk trúarljóð og tónlist leikin.

Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur og leikkona, lýkur svo lestri Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar, (1614-1674), á laugardagskvöldi fyrir páska. Lestur hefst laust eftir kl. 22.00.

Með réttu má segja að útvarp allra landsmanna flytji sígilt efni og nýtt sem snertir trú og menningu. Margir þáttanna eru endurfluttir en það er einfaldlega vegna þess að efni þeirra er orðið sígilt.

Enda þótt línuleg dagskrá hafi verið rakin hér í stórum dráttum þá er hægt að hlusta á efnið næstu daga og vikur á vef RÚV.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að fylgjast með þessu vandaða trúar- og menningarlega efni. 

hsh

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju