Pípur til sölu

8. apríl 2021

Pípur til sölu

Nýja orgelið í Grafarvogskirkju - látlaust en öflugt - sígilt en nútímalegt - er hægt að hafa það betra? Mynd: Grafarvogskirkja

Orgel eru kirkjuhljóðfæri og þau eru dýr enda mikil smíð og nákvæm. Fæstir gætu hugsað sér að koma í kirkju þar sem ekkert orgel er enda þótt það sé svo sem ekki skilyrði. En hefðin er sterk. Orgel fylgir kirkju eins og sumar vori. Það er ekki flóknara.

Grafarvogssókn er stærsta sókn landsins. Það orgel sem nú er notast við í kirkjunni er lítið og á hjólum en hefur engu að síður þjónað söfnuðinum vel. Organistar hafa þó frekar hyllst til að nota flygilinn í stað þessa litla orgels. Það segir sína sögu.

En sóknin hefur látið margt ganga á undan orgelkaupum eins og skiljanlegt er en nú er komið að því að nýtt orgel komi í hús. Stóra stundin rennur brátt upp.

Orgel kemur frá Ungverjalandi og það er verið að reka á það hið fræga smiðshögg. Það er 33ja radda snemm-rómantískt. Sá ungverski völundur sem fengist hefur við að smíða orgelið heitir Farago Attila og starfar hjá orgelsmiðjunni Aeris Orgona í Budapest.

Sóknin er að safna fyrir þeim kostnaði sem hlýst af heimsendingu orgelsins og uppsetningu.

Hvað er þá til ráða?

Aða selja pípur
Pípurnar í nýja orgelinu. Alls eru þær 2.277 - og eru misdýrar. Sú ódýrasta kostar 5000, svo er hægt að fá pípur á 10.000, 25.000, 50.000 og 100.000. Einnig er hægt að leggja meira í eftir efnum og aðstæðum. Semsé: Fólk kaupir orgelpípu og gefur kirkjunni. Með bros á vör – að sjálfsögðu – og syngjandi glöðu hjarta! Málstaðurinn er góður: trú, kirkja og menning.

Kirkjan.is sló á þráðinn til sóknarprestsins í Grafarvogsprestakalli, sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur. Hún er að vonum ánægð með framtakið og er bjartsýn. Orgel er mikil fjárfesting og skiptir miklu máli að vel takist til með gripinn.

„Við eigum sjötíu milljónir í orgelsjóði,“ segir sr. Guðrún og bætir því við að nú vanti fjörutíu milljónir svo allt gangi upp. Það eru miklir peningar en velvilji fólks er mikill – og söfnuðurinn hefur sýnt að hann á til þrautseigju. Hún segir að orgelið sé mjög nútímalegt í hönnun og allri tækni, hlaðið stafrænum búnaði en þó með náttúrlegum hljómi.

„Við bíðum spennt eftir fyrstu tónleikunum,“ segir sr. Guðrún, „en fjöldi fólks hefur boðist til að leggja málinu lið – ekki síst tónlistarfólk.“

Grafarvogssöfnuður er mjög þakklátur öllum þeim er hafa staðið þétt við bakið á orgelsjóðnum.

Trú, menning, orgel
Orgelið gefur Grafarvogskirkju gott tækifæri til að draga fram fjölbreytni í helgihaldi safnaðarins. Auk þess mun það styrkja stöðu kirkjunnar sem virks þátttakanda í menningarlífi borgarinnar. Orgel er sterkt tákn um lifandi menningar- og trúarlíf og verður því til mikils sóma. Þetta vita Grafarvogsbúar og hafa því tekið söfnunarátakinu með miklum fögnuði og hvetja alla til að leggja sitt fram - margt smátt gerir eitt stórt!

hsh


Hér má sjá hressilegt myndband um söfnunina


Nánar um söfnunina.


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Söfnun

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju