Fólkið í kirkjunni: Engin uppgjöf

9. apríl 2021

Fólkið í kirkjunni: Engin uppgjöf

Ragnheiður Guðmundsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjukona

Mörg sem hafa vakandi auga með kirkju og kristni og hugsa um kirkjuhúsin, hafa ekki hátt um það en varðstaða þeirra er ómetanleg.

Ragnheiður Guðmundsdóttir er kirkjukona. Hógvær kona og yfir henni er rósemd og öryggi. Kona sem lætur ekki margt koma sér úr jafnvægi. Bjartsýn kona en þó raunsæ.

Kærleiksþjónusta

„Ég fór að vinna á hjúkrunarheimilinu Höfða þegar börnin mín voru orðin stálpuð,“ segir Ragnheiður, „lærði til sjúkraliða rúmlega fimmtug og svo flaug mér í hug að læra til djákna og fór á fund guðfræðideildarinnar til að kanna málin.“ Ragnheiður segir að menntun hennar hafa ekki reynst næg og því dreif hún sig í dagskólann í Fjölbrautaskóla Vesturlands og lauk þaðan stúdentsprófi 2002. Hún var staðföst í þeirri hugsun sinni að verða djákni því að hún er trúkona.

Ragnheiður lauk síðan djáknaprófi 2005. Hún var fyrsti djákninn við hjúkrunarheimilið Höfða á Akranesi – vígð í mars 2007 af sr. Karli Sigurbjörnssyni. Í fyrra lauk Ragnheiður störfum sem djákni við hjúkrunarheimilið og voru það að sönnu tímamót.

Kirkjan hennar

Kirkjan að Innra-Hólmi er hennar kirkja. Kirkjustaðurinn er gamall og þar hefur kirkja staðið frá því á 12. öld.

Hún er fædd á kirkjustaðnum og alin þar upp, bóndadóttir. Þar er hún sóknarnefndarformaður og hefur verið það hátt í fjörutíu ár – búið í sókninni alla sína ævi.

Í Innra-Hólmskirkju gifti hún sig átján ára gömul, þar var hún skírð og fermd. Kirkjan er því samofin lífi hennar.

Foreldrar Ragnheiðar, þau Jónína Gunnarsdóttir og Guðmundur Jónsson, hófu búskap að Innra-Hólmi 1945. Þau sinntu kirkjunni af mikilli samviskusemi og natni. Sr. Jón Einarsson, prófastur í Saurbæ, sendi þeim þessa hlýju kveðju í Morgunblaðinu 5. mars 1987:

„Fljótlega eftir að þau komu að Innra-Hólmi, beittu þau sér fyrir stofnun kirkjukórs í sókninni, þar sem þau sungu í áratugi við guðsþjónustur og aðrar helgar athafnir. Þá hafði Jónína með höndum hirðingu kirkjunnar og Guðmundur var um skeið meðhjálpari og átti lengi sæti í sóknarnefnd. Öll þessi störf voru unnin af kærleika, fórnfýsi og trú. Oft hafa þau hjónin gefið kirkjunni stórgjafir.“

Ragnheiður á því ekki langt að sækja umhyggju sína og ræktarsemi gagnvart kirkjunni. Hún man eftir sér sem lítilli stúlku að ramba um kirkjugólf eða horfa upp á kirkjuloftið þar sem fólkið stóð ögn lotið og organistinn tróð lítið harmóníum sem þar var uppi. Og mamma hennar sá um kirkjukaffið í lok hverrar guðsþjónustu.

Ragnheiður ólst upp við almenn sveitastörf á Innra-Hólmi, sótti skólann í Miðgarði og gagnfræðaskóla á Akranesi.

Um margt sérstök kirkja

Innra-Hólmskirkja er reisuleg þar sem hún stendur inni í kirkjugarðinum. Á turni er smárakross og turnglugginn er mjög sérstakur með svokölluðu broddbogalagi. Vindskeiðar kirkjuturnsins eru randskornar. Ljóst er af mörgu sem ber fyrir augu í þessu húsi að vandað hefur verið til verka og þar hefur góður smiður lyft hamri og drifið sporjárn áfram af mikilli íþrótt. Sá hagleikssmiður sem skar út var Jón Mýrdal (1825-1899) – hann var forsmiður kirkjunnar og höfundur – smíðaði og hannaði allt tréverk kirkjunnar. Altarið, prédikunarstóllinn og ýmsar skreytingar eru hans verk. Fleiri komu einnig að kirkjusmíðinni. 

Hver var Jón Mýrdal?
Lauk trésmíðaprófi í Reykjavík 1852 og sigldi svo til Kaupmannahafnar og var þar í tvö ár. Iðjumaður mikill, vel gefinn og vinsæll. Orti kvæði, og skrifaði bækur eins og Mannamunur. Hann var fæddur 1825 og lést 1899. (Íslenzkar æviskrár, Páll Eggert Ólason, J-N, bls. 229).

„En kirkjan er öllum kær,“ segir Ragnheiður þegar hún lýkur dyrum hennar upp. Það er ylur í forkirkjunni og kirkjan.is hefur orð á því. „Já, við kyndum hana alltaf aðeins upp,“ segir Ragnheiður. Það er kynt upp með rafmagni því að hitaveitan hefur ekki verið leidd hingað.

„Hér er unnið gott kirkjustarf,“ segir Ragnheiður, „fólk er til dæmis mjög áhugasamt um kórinn, og stundum eru tuttugu manns í honum.“ Sjálf söng hún í kórnum í tæpa hálfa öld.

Kirkjan er fallegt guðshús og vel sést að um hana er vel hugsað. Ragnheiður segir að töluverð umferð sé í kringum hana. Fólk komi og skoði hana – þegar söfnuðir efna til stuttra ferðalaga á vorin eða að sumri er gjarnan numið staðar við kirkjuna og hún skoðuð.

Fyrir ofan forkirkjudyr er bogadreginn tréskjöldur með byggingarári kirkjunnar, 1891, og fangamarki hreppstjórans sem stóð að byggingu hennar. Sá hét Árni Þorvaldsson. Fyrir ofan ártalið er kross og trjágrein vefur sig utan um hann. Forkirkja var reist 1952 um leið steypt var utan hana og þá kom ný hurð en vængjahurðin fékk inni í forkirkjunni ef svo má segja.

Það sem grípur augað

Þegar staldrað er við í kirkju dregur sumt meiri athygli til sín en annað. Stundum er það tilviljun sem veldur því að auga nemur staðar fremur við þetta eða hitt. Og sumt sér augað ekki. Fer fram hjá því. Lítil og falleg sálmatafla, stundum kallað númeratafla eða söngtafla, er á kórvegg. Svo nett og fögur. „Hún er alltaf notuð,“ segir Ragnheiður, „alltaf sett númer í hana.“

Svo er látlaus skírnarfontur þar sem kórþili sleppir og segir Ragnheiður hann vera gjöf foreldra hennar til kirkjunnar og hafði hann verið vígður þegar yngsti sonur hennar var skírður.

„Skálin í honum er norsk og hana gaf séra Jón M. Guðjónsson,“ segir Ragnheiður, „skálin er með sama mynstri og kertastjakarnir á altarinu.“ Hún segir að séra Jón hafi þjónaði kirkjunni lengi.

„Pabbi og hann voru miklir vinir,“ segir Ragnheiður. „Séra Jón kom að svo mörgum athöfnum í fjölskyldu minni.“ Síðan flutti sr. Jón í elli sinni inn á Hjúkrunarheimilið Höfða og þar tók fermingardóttir hans við honum og hjúkraði gamla prestinum. Hann var fæddur 1905 og lést 1994.

Altaristafla Innra-Hólmskirkju er einstök í sinni röð og vekur mikla athygli í einfaldleika sínum og sérleika. Þau sem inn koma eiga kannski von á að yfir altari hangi sígild kvöldmáltíðarmynd – eða upprisumynd – þegar aldur kirkjunnar er hafður í huga – en hún 128 ára. Svo er ekki.

Altaristaflan fangar augað strax. Einfaldur trékross í íslenskri náttúru á svarbláum fleti, himinninn að brjótast úr fjötrum. Djúpt í fjarska djarfar fyrir bláleitri birtu. Morgunn lífsins er ekki langt undan. Og sagan á bak við altaristöfluna er merkileg.

Altaristaflan í Innra-Hólmskirkju er eftir Jóhannes Kjarval. Hún er með þeim sérstakari í kirkjum landsins. Myndin kom í kirkjuna 1931. Ástæða þess að mynd Kjarvals er í kirkjunni er sú að maður nokkur, bóndi á Eystra-Krossi, veiktist og var honum vísað til Reykjavíkur til lækninga. Þar dvaldist hann vetrarlangt og hét á kirkjuna að næði hann heilsu myndi hann biðja Jóhannes Kjarval sem hann hafði kynnst í suðurför sinni, að mála altaristöflu. Þetta gekk eftir, hann náði heilsu og Kjarval málaði mynd, setti reyndar ekki stafi sína við hana. - Altarismyndin sýnir trékross rekinn niður í íslenskan svörð, annar armurinn ögn klofinn í endann sem og efst á hinum lóðrétta ási, krossinn er skorðaður af með grjóti, ekkert fólk sjáanlegt. Sterkt tákn í einfaldri boðun sinni. Altaristaflan stendur á litlum stalli sem á er letrað: Það er fullkomnað. (Jóhannesarguðspjall 19. 30; sjötta orð Krists á krossinum). (Sjá nánar: Kirkjur Íslands, 13. bindi, bls. 191).

Kirkjan.is spyr um altaristöfluna sem var á undan þessari.

„Hún fór á byggðasafnið,“ segir Ragnheiður og bætir því við með bros á vör að hún sé týnd þar – um stundarsakir.

Með seiglu og trú

Innra-Hólmssókn er fámenn. Það kostar sitt að reka kirkju og sérstaklega ef hún er gömul – svo ekki sé talað um að á hana sæki fúi eða sprungumyndun í steypu.

Það fer ekki fram hjá neinum að mikilla endurbóta og fjárfrekra er þörf á kirkjunni og það fyrsta sem blasir við sjónum eru steypuskemmdir.

„Kirkjan er timburkirkja og var járnklædd,“ segir Ragnheiður „síðan var steypt utan um hana.“ Hún segir að sums staðar leki inn um sprungur og til standi að kanna ástand steypunnar með því að taka kjarnasýnishorn úr henni. Þá sé þakið gjörónýtt. En allt kostar fé.

„Við sóttum um í Jöfnunarsjóð sókna en fengum neitun,“ segir Ragnheiður. Eins hafði Húsafriðunarsjóður ekki tök á að veita styrki.

En það er enginn uppgjafatónn í Ragnheiði. Miklu frekar seiglutónn. Góðir hlutir gerast hægt.

„Við höldum alltaf markað fyrir jólin og ágóðinn af honum rennur í sjóð til styrktar endurbótum á kirkjunni,“ segir Ragnheiður. Á markaðnum er hægt að kaupa fallegt handverk, heimabakaðar kökur og kleinur, sultur, já og brodd sem mörgum þykir góður. „Það er svo margt sem þarf að gera í kirkjunni og það mun takast.“ Hún segir að um ein milljón króna náist inn í sjóðinn þegar markaðurinn gengur vel. Það eru konur sem skipa sóknarnefndina og halda traustum tökum utan um alla þræði – auk Ragnheiðar sóknarnefndarformanns eru það þær Ingileif Daníelsdóttir og Lára Ottesen.

Innra-Hólmskirkju hefur ýmist verið þjónað frá Akranesi eða Saurbæ. Nú er hún í hinu nýja Garða- og Saurbæjarprestakalli.

„Þjónustan hefur alltaf verið einstaklega góð,“ segir Ragnheiður með áherslu. Og þó mörg ár skilji milli hennar og unga sóknarprestsins á Akranesi, sr. Þráins Haraldssonar, þá voru þau um tíma samferða í guðfræðinámi við háskólann.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, djákni og sóknarnefndarformaður í Innra-Hólmssókn, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Kirkjan er reisuleg - nýtt sáluhlið - kirkjan var vígð 27. mars 1892 - á næsta ári verða 130 ár liðin frá vígslu hennar


Kirkjan stendur á mjög fallegum stað - þessi mynd tekin í maí 2020


Boginn er hluti af léttu kórþili


Altarismyndin - á stöplinum stendur: Það er fullkomnað


Hér sér í gegnum kórþilið


Ragnheiður við skírnarfontinn sem foreldrar hennar gáfu kirkjunni


Söngtaflan, sálmataflan, er listasmíð - enn notuð


Hér sést handbragð smiðsins Jóns Mýrdals - smárakross, randskornar vindskeiðar og broddbogalaga turngluggi og yfir honum rósetta með lárviðarsveig - mynd tekin í maí 2020


Á hlaðinu er gott aðstöðuhús - mynd tekin í maí 2020


Svona leit kirkjan út fyrir 1950. Trébogaverkið yfir dyrunum er nú inni í forkirkju - ljósmyndari óþekktur - myndin er í ramma inni í aðstöðuhúsinu



  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls