Eldsmiður á Eyrarbakka

14. apríl 2021

Eldsmiður á Eyrarbakka

Birkir Örvarsson, eldsmiður, við aflið og skoðar eina kirkjuhurðarlömina

Birkir Örvarsson heitir ungur maður og býr í Mundakoti á Eyrarbakka.

Hann er áhugasamur um gömul vinnubrögð sem snerta smíðar úr járni og tré.

„Ég lærði margt hjá honum Gunnari Bjarnasyni, sáluga, við smíðina á Þorláksbúð,“ segir hann þegar kirkjan.is tekur hann tali á blíðviðrisdegi á Bakkanum. „Maður lærir fyrst og fremst að smíða með þessum gamla hætti með því að sjá aðra gera það og taka svo sjálfur til hendinni.“ Hann segir að Gunnar hafi verið sinn meistari og minnist hans með virðingu. Gunnar var bæði feiknagóður smiður og sömuleiðis einlægur trúmaður. Birkir segist vera stoltur af verkum sínum í Þorláksbúð, sérstaklega þeim járnum sem hann smíðaði á útihurð hennar. „Þetta var góður skóli í Skálholti hjá Gunnari, nokkurs konar eldskírn,“ segir hann.

Inni í stofu er lítið harmóníum sem Birkir leikur stundum á en segir með glettnissvip að hann kunni reyndar ekki að spila á það - nema fyrir sjálfan sig. En hann er áhugasamur um tónlist, sálma og þjóðlög – það er líka mikil tónlist í ætt hans.

Birkir hefur nýlega komið sér upp dálítilli eldsmiðju við Mundakot og þar knýr hann afl sinn. Þetta er svo kölluð lausasmiðja, hægt að flytja hana til. Beint fyrir ofan aflinn þar sem logarnir skjótast upp er lítill reykháfur sem fer í gegnum torfþakið. Smiðjan hans litla er í kofa steinsnar frá húsi hans og hann er byrjaður að bika hliðar hans.

Um þessar mundir er Birkir að smíða fjórar lamir á ytri hurð Hofskirkju á Höfðaströnd. Það var Hjörleifur Stefánsson, arkitekt, sem fól honum þetta verkefni og er hann afskaplega ánægður með að hafa fengið það. Verkefni af þessu tagi liggja ekki á lausu eins og gefur að skilja. En Birkir er vandvirkur eldsmiður og kann vel til verka. Smíðajárnið leikur í höndum hans. Lamirnar eru soðnar saman í eldi og engri rafsuðu er komið að - gamalt handbragð í hávegum haft. Þær verða með laufi til endanna sem hann mun forma.

Hofskirkja var reist 1868-1870, og við hana var byggð forkirkja 1921. Hún er friðuð frá 1990.

Í smiðju Birkis hangir uppi mynd af langalangafa hans sem var eldsmiður. Hannes Hannesson, bóndi í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Hann segist finna fyrir návist hans. Hannes hefur heimsótt hann í draumi. „Mér finnst viðeigandi að hafa mynd af honum hér,“ segir Birkir, „og svo þarf ég líka mynd af Gunnari, meistara mínum.“ Birkir segir að Gunnar hafi verið sannur meistari sem hafi meðal annars beitt þeirri viskuaðferð að segja ekki of mikið, heldur varðveita ýmsa leyndardóma sem tengjast listasmíðinni, og láta lærisveininn smám saman uppgötva hvernig staðið skyldi að verki við einstaka þætti smíðanna.

Gamall tími heillar Birki og það eru ekki aðeins vinnubrögðin heldur fellur hann fyrir ýmsum munum og áhöldum frá fyrri tíð. Þegar komið er inn til hans í Mundakot er sem komið sé inn á heimili á 19. öld og traustur andblær liðins tíma svífur þar yfir vötnum. Ýmsum gömlum munum er komið smekklega fyrir í litla húsinu sem hann er jafnframt að dytta að.

Auðvitað bauð eldsmiðurinn ungi upp á kaffi. Flautuketill dansaði á eldavélahellunni og pípti hátt og Birkir hellti úr honum í gegnum trekt í bláa emaljeraða könnu. Hann sótti dýrindis postulínsbolla, kóngabláan á lit, næfurþunnan, frá Pétursborg í Rússlandi, og ilmandi blásvart kaffið rann í bollann. Síðan dró hann upp tóbakspontuna og tók virðulega í nefið. Þetta var góð og ljúf stund og gaman til þess að vita að enn eru til ungir menn sem láta ekki nútímann slá sig út af laginu. Kunna að meta það gamla og góða. „Ég er fæddur á annarri öld,“ segir Birkir og hlær, „hef farið aldavillt.“ Síðan var rætt um liðna tíð og tíminn leið hratt því eldsmiðurinn ungi hefur ákveðnar skoðanir á ýmsu og veltir vöngum yfir mörgu.

Birkir er kirkjumaður og sækir messur víða. En óneitanlega heillar Skálholt hann mjög og þegar hann kemur þangað er að sjálfsögðu staldrað við í Þorláksbúð. Birkir smíðaði járnverkið á hurðinni þar og segist vera stoltur af því. Auk þess sem afskaplega góðar minningar séu tengdar við það hús.

Birkir vinnur í smíðateymi Áhaldahúss Selfoss og er nýbyrjaður. Hann segist fullur tilhlökkunar og þykir gott að vinna með öðrum. Gamla eldsmíðin er áhugamál sem hann fær kannski einhvern tíma tækifæri til að helga sig algerlega en núna sinnir hann þessum verkefnum samhliða dagvinnu.

Svona í lokin spyr kirkjan.is spyr hvort hann sé ekki hundamaður eins og margir Bakkamenn.

„Jú, ég er það,“ svarar hann „helst vildi ég fá írskan úlfhund eins og Gunnar á Hlíðarenda átti og fékk í gjöf frá Ólafi pá að Hjarðarholti í Dölum.“

Hver var Gunnar Bjarnason?
„Ég er kannski sá sem mest hefur kynnt sér hér smíði miðaldabygginga, á Íslandi eru fáir sem fást við miðaldasmíði. Ég var á sínum tíma yfirsmiður Þjóðveldisbæjarins á Stöng í Þjórsárdal, árin 1976-77. Einnig byggði ég litla kirkju sem stendur við Stöng. Við Hjörleifur Stefánsson arkitekt hönnuðum hana. Síðan tóku við fleiri verkefni. Ég smíðaði t.d. landnámsbæ til sýningar í Árbæjarsafni og var yfirsmiður á Eiríksstöðum í Haukadal. Var í hönnunarteymi í endurgerð bygginga þar. Einnig var ég með Stefáni Erni Stefánssyni og Grétari Markússyni í Brattahlíð á Grænlandi við kirkju- og skálabyggingu þar. Þá byggði ég litla kapellu á Efri-Brú í Grímsnesi og kirkju á Litla-Bakka í Hróarstungu, svokallaða Geirsstaðakirkju. Ég var og fenginn til að koma að smíði Auðun(n)arstofu á Hólum í Hjaltadal. Hún er eftirlíking að miðaldarbyggingu úr timbri. Byggð á svipuðum forsendum og Þorláksbúð.
Í öllum þessum verkum hef ég reynt að útbúa verkfæri þess tíma sem viðkomandi byggingar áttu að vísa til. Ég skrifaði raunar grein um verkþátt Auðun(n)arstofu, bæði bygginguna og verkfærin sem hún var reist með. Með þessa reynslu mína að vopni var fremur einfalt fyrir mig að teikna og leggja drög að Þorláksbúð í Skálholti. Ég er ekki viðvaningur, heldur hafði fullar forsendur til að hanna Þorláksbúð.“
(Úr viðtali við Gunnar í Morgunblaðinu 14. júlí 2014. Hann var fæddur 15. ágúst 1949 og lést 15. september 2014.)

Um Hofskirkju á Höfðaströnd í Skagafirði má lesa um Kirkjur Íslands 6. bindi, bls. 89-116

hsh


Ekkert gerist án verkfæra


Steðji er ómissandi - löm í vinnslu


Svona löm heitir staflalöm og hún er með svokölluðum stafla sem er rekinn í dyrastafinn og á hann sest lamarblaðið á hurðinni. Pinninn eða titturinn sem fer í gegnum staflann heitir þolinmóður - eða öxull


Hér eru lamirnar, fallegar og gljáandi svartar og bíða síns hlutverks 


Birkir hellti upp á þetta fína kaffi fyrir gestinn - og upp á gamla mátann 

  • List og kirkja

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju