Rafræn presta- og djáknastefna

15. apríl 2021

Rafræn presta- og djáknastefna

Rafræn presta- og djáknastefna

Í gær fór fram fram presta- og djáknastefna í gegnum fjarfundabúnað. Það eru tímamót þegar aldagömul stofnun eins og prestastefnan er haldin með rafrænum hætti.

Það er biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sem boðar til stefnunnar.

Stefan var stutt í þetta sinn – stóð frá kl. 13. 00 til að ganga 15.00. Meginefni hennar var fyrirlestur dr. Haralds Hegstad, prófessors, um skírnina. Gafst fundarfólki tækifæri til að leggja fram spurningar sínar og varð umræða nokkur.

Þjóðkirkjan er þátttakandi í norrænu verkefni sem kallast Kirkjur á tímum breytinga (e. Churches in Times of Changes). Umfjöllun um skírnina er hluti af þessu verkefni. Það er dr. Harald Hegstad sem heldur utan um skírnarverkefnið ásamt fjölda annarra.

Áskorun
Í erindi sínu ræddi Harald um hvað hefði valdið því að svo væri komið fyrir skírninni eins og tölur benda til en rannsóknir sýna að þeim hafi fækkað töluvert. Einnig fór hann yfir það hvernig kirkjurnar hefðu brugðist við þessari þróun en sumar þeirra hafa endurnýjað skírnarferlið eða boðið upp á skírn með öðrum hætti en hefðbundnum. Nokkrar kirkjur hafa boðið upp á svokallaðar drop-in skírnir. Samtal um skírnina við foreldra er mikilvægt að hans áliti sem og eftirfylgd þess samtals með bæklingum og smábókum um skírnina. Ástæður þess að foreldrar og forráðamenn ákveða að láta skíra eða ekki eru margvíslegar. Þar geta komið til almenn tengsl fólks við kirkjuna, hefð og virðing fyrir athöfninni, ólíkur bakgrunnur foreldra, borgarumhverfið kallar ekki eins ákveðið á athöfn sem þessa eins og úti á landsbyggð eða til sveita. Enda þótt innflytjendum hafi fjölgað mjög svo þá skýrir það ekki eitt og sér fækkun skírna í hinum stóru kirkjusamfélögum Norðurlanda.

Þegar litið er yfir kirkjusviðið hér á landi er ljóst að staða skírnarinnar hefur breyst í íslensku samfélagi. Skírnum hefur fækkað og er það mörgum umhugsunarefni. Nafngjafaathafnir hafa rutt sér mjög til rúms og þar koma prestar ekki að máli. Í kirkjunni er starfandi skírnarhópur sem hefur fjallað um skírnina og skilað á hverju ári skýrslu um störf sín til kirkjuþings. Könnun sem gerð var 2020 sýndi að helmingur skírna fór fram í heimahúsum eða öðrum stöðum en í kirkju – í þessari könnun tóku 155 prestar þátt. Skírn í heimahúsum er mun algengari hér á landi en meðal grannþjóða okkar á Norðurlöndum.

Fram kom að í raun og veru er umræðan um stöðu skírnarinnar rétt að hefjast.

Annað efni stefnunnar var þjónusta kirkjunnar á tímum heimsfaraldurs og varð nokkur umræða um það efni. Ýmsar spurningar vakna um túlkun á reglugerð heilbrigðisráðuneytisins hverju sinni. Biskup sendi prestum, djáknum, organistum, sóknarnefndum og útfararstjórum bréf  í tilefni nýju reglugerðarinnar sem tók gildi í dag.

Presta- og djáknastefna hefur verið boðuð 31. ágúst – 2. september.

hsh

 


Tölur um fjölda skírna - skjáskot - myndin er skýrari í myndbandinu hér fyrir neðan

Á þessu myndbandi er fjallað um stöðu skírnarmála á Norðurlöndunum - dr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir ræðir stöðu mála hér á landi 


  • Frétt

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju