Skrifar ævisögu afa síns

5. maí 2021

Skrifar ævisögu afa síns

Hrannar Bragi Eyjólfsson skrifar sögu afa síns

Hrannar Bragi Eyjólfsson heitir hann. Ungur maður og starfar sem lögfræðingur. Í tómstundum sínum hefur hann fengist við að rita ævisögu afa síns.

Afi hans var sr. Bragi Friðriksson (1927-2010), sóknarprestur í Garðaprestakalli, og prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi. Þjóðkunnur maður á sinni tíð vegna þátttöku í kirkjulífi og samfélaginu í Garðahreppnum síðar Garðabæ.

Uppvaxtarsaga sr. Braga er merkileg, hann átti æsku sem var ólík æsku annarra: „Hann fæðist 1927 utan hjónabands, fer snemma í fóstur,“ segir Hrannar Bragi, „afi sagði mér að hann hefði átt fimm fóstrur því að hann fór á milli heimila sem barn – hann bjó aðeins í fjögur ár hjá móður sinni.“

Hann segist hafa velt sögu afa síns mikið fyrir sér, hvað hafi mótað hann og komið honum til manns. Þessi ævisaga muni vonandi varpa ljósi á það.

Sr. Bragi var mikill kirkjumaður og brautryðjandi á ýmsum sviðum. Þegar hann kom sem prestur í Garðahrepp var íbúafjöldi þar tæpast þúsund manns. Það var sveit og fáir sem geta ímyndað sér það sem fara nú um Garðabæ. En þarna var hann kominn, presturinn sr. Bragi og dreif upp starf bæði í kirkju, skátahreyfingunni og íþróttum. Ungi presturinn var svo sannarlega máttarstólpi í samfélagi sem var að byggjast upp. Dugnaður hans og mannleg hlýja heillaði fólk sem og traust og góð kímni.

Og barnabarn hans, Hrannar Bragi, hefur heillast af sögu afa síns og vill gjarnan gera henni skil svo aðrir geti líka notið hennar.

„Ég var á fimmtánda ári þegar afi dó,“ segir Hrannar Bragi, „hann var yndislegur og frábær afi í minningunni og ég er mjög meðvitaður um að ég geti gleymt mér í skrifunum og horft aðeins á hann sem afa minn en ég hef ákveðið að fá góðan yfirlesara eða ritstjóra til að lesa yfir og toga mig á jörðina ef ég læt persónulegan afa hafa of mikið rými.“ Það var alltaf gott að koma til afa og ömmu segir Hrannar Bragi – og hann hefur mikla ánægju af því að horfa til sögu hans núna og íhuga – það er annars konar heimsókn til afa.

Ertu búinn að skrifa mikið?

„Já, mjög mikið og ég auðvitað þarf ég að stytta textann,“ segir Hrannar Bragi, „og veit að það er gott.“ Hann segir að það hafi komið sér á óvart hve víða afi hans hafi komið við í lífinu og ekki síst í hinu litla samfélagi þar sem hann varð prestur, Garðabænum.

En hvaða heimildir hefurðu?

„Það eru nokkrir þættir, mörg viðtöl í blöðum og tímaritum, sem tekin voru við hann,“ segir Hrannar Bragi, „svo er það Saga Garðabæjar og Saga Kjalarnessprófastsdæmis.“ Sr. Bragi skrifaði dagbækur og segir Hrannar Bragi að þær komi að góðum notum til að staðreyna hvenær einstakir atburðir áttu sér stað. Heimildirnar eru víða. Hrannar Bragi fer skipulega yfir allar heimildir og skoðar þær vandlega – en þær eru býsna drjúgar og segja margt. En ævisagan dregur allt saman í eina bók og myndin verður skýrari af sr. Braga.

„Þegar afi var hættur störfum tók hann saman prédikanir og ávörp sem hann hafði flutt við ýmis tilefni og gaf út á bók sem hann rétti til vina og vandamanna á góðum stundum,“ segir Hrannar Bragi. Hann segir að þar komi fram trúarskilningur hans og áherslur í þeim efnum, sem og hverju hann hafi verið að miðla og hvað hafi leitað á huga hans.

Þá hefur Hrannar Bragi talað við fjölda fólks, bæði í fjölskyldunni og utan hennar, um afa sinn. Það er mikill heimildasjóður sem þarf náttúrlega að vinna úr með öðrum hætti en hinum rituðu heimildum.

Engin ævisaga er án mynda. Hrannar Bragi segir að til sé gott myndasafn, bæði frá afa hans og ömmu, og eins er fjöldi mynda í myndasafni Garðabæjar sem hann hefur fengið aðgang að.

Hrannar Bragi er langt kominn með ævisögu afa síns og lætur þau orð falla í lok viðtalsins, og lesendur beðnir um að taka sérstaklega eftir þeim, að þau sem kunni að luma á einhverjum sögum eða minningum um afa hans, komi þeim til sín. Það er nefnilega þannig að úti í samfélaginu hvíla oft margar sögur af þeim sem hafa verið í forystu í kirkju- og félagslífi, sögur sem sumar hverjar ættu svo sannarlega heima á bók. Netfang Hrannars Braga er: hrannar1000@gmail.com.

Það er næsta víst að sú stund verður ánægjuleg þegar bók Hrannars Braga kemur út og víst er að hann mun draga upp skýra mynd af afa sínum, fjölskyldumanninum, prestinum, prófastinum og félagsmálafrömuðinum. En umfram allt manninum, Braga Reyni Friðrikssyni.

Hver var sr. Bragi Reynir Friðriksson?
Hann fæddist á Ísafirði 15. mars 1927 og lést 27. maí 2010. Hann gekk hinn hefðbundna menntaveg og varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og lauk guðfræðiprófi 1953. Sr. Bragi var vígður 1953 til prestsþjónustu í Vesturheimi og kom síðar heim 1956 og varð framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur 1957-1964 og á sama tíma formaður Æskulýðsnefndar þjóðkirkjunnar. Hann var settur til prestsþjónustu meðal Íslendinga á Keflavíkurflugvelli 1964 (Keflavíkurflugvallarprestakall var til í fjögur ár og sr. Bragi var annar prestanna sem því þjónaði). Honum var svo veitt Garðaprestakall á Álftanesi 1966. Prófastur í Kjalarnessprófastsdæmi varð hann 1977. Sr. Bragi lét af störfum sjötugur að aldri 1997. Jafnhliða prestsskap fékkst sr. Bragi við kennslu og sinnti margvíslegum félagsmálastörfum. Hann byggði upp söfnuðinn í Garðabæ og tókst að laða fólk til verka með hlýju sinni og áhuga. Æskulýðs – og íþróttamál voru honum mjög hugleikin og ruddi hann brautina í þeim efnum – var sannkallaður æskulýðsforingi. Hann var ötull frumherji í vaxandi bæjarfélagi og sókn. Sr. Braga var sýndur margvíslegur sómi á lífsleiðinni og var hann meðal annars riddari hinnar íslensku fálkaorðu, heiðursfélagi í Stjörnunni og heiðursborgari Garðabæjar. Eftirlifandi eiginkona sr. Braga er Katrín Eyjólfsdóttir, og áttu þau fjögur börn. Áður átti sr. Bragi tvíbura með Ólafíu Margréti Guðjónsdóttur (d. 1996) og önduðust þeir á fyrsta ári, 1946.


Sr. Bragi Friðriksson, mynd tekin 1996. Mynd: Sigurgeir Jónasson

hsh



 


  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall