Fólkið í kirkjunni: Gæfa að vera í kirkjustarfi

7. maí 2021

Fólkið í kirkjunni: Gæfa að vera í kirkjustarfi

Benedikta G. Waage og sóknarpresturinn sr. Guðmundur Karl Ágústsson en með honum starfaði hún lengst af prestunum

Það var lítill og samhentur hópur sem kom saman í Fella- og Hólakirkju í hádeginu í gær. Tilefnið var að kveðja konu sem hefur staðið í stafni sóknarinnar hátt í þrjá áratugi. Ein af þeim fjölmörgu sem leggja sitt af mörkum til þess að kirkjustarf gangi vel fyrir sig. Það var hlýleg stund og full af þakklæti og virðingu.

Benedikta Guðrún Waage heitir hún.

Hún ólst upp á Selfossi en foreldrar hennar skildu þegar hún var eins og hálfs árs. Móðir hennar, Guðrún J. Þorsteinsdóttir, var píanóleikari og vildi læra meira og fór til Kaupmannahafnar með systur Benediktu, sem var tveimur árum eldri. Benediktu var komið til hjónanna Jóhönnu Sturludóttur og Gísla Bjarnasonar sem fjölskyldan þekkti vel og bjuggu þau á Selfossi. Hún átti ekki að vera lengi hjá þeim en svo fór nú engu að síður að hún ólst þar upp. Stjúpa átti hún í Reykjavík, Gunnar B. Guðmundsson, hafnarstjóra. Faðir Benediktu var Einar B. Waage, hljóðfæraleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Fósturmóðir hennar á Selfossi söng í kirkjukórnum og Benedikta sótti kirkju með henni. Hún dróst ósjálfrátt að kirkjusöngnum og hafði strax gaman af honum sem barn enda söngelsk.

„Mér finnst alveg ómögulegt ef ekki er sungið á páskum: Sigurhátíð sæl og blíð og á jólum Sjá himins opnast hlið,“ segir hún með þungri áherslu.

Unga stúlkan hélt til Reykjavíkur í gagnfræðanám og að því búnu fór hún í Húsmæðraskólann á Varmalandi og svo í Hússtjórnarkennaraskólann í Reykjavík þaðan sem hún lauk hússtjórnarkennaraprófi.

„Ég kenndi í tvö ár á Laugarvatni,“ segir Benedikta, „og eftir það meðal annars í gagnfræðaskólum en gerði svo hlé á þess háttar kennslu“. Benedikta fékk starf hjá Mjólkursamsölunni og vann þar í tuttugu ár sem húsmæðrakennari. „Ég tók á móti gestum og útbjó bæklinga og fleira er tengdist framleiðslunni,“ segir hún en síðustu sextán árin á vinnumarkaði starfaði hún við Hússtjórnarskólann í Reykjavík við Sólvallagötu.

„Við hjónin byggðum okkur hús í Breiðholti fyrir nær hálfri öld og bjuggum þar allar götur þar til að við fluttum fyrir nokkru í Árbæinn,“ segir Benedikta. „Fórum semsé úr Fella-og Hólasókn í Árbæjarsókn.“ En hún gefur ekki eftir með það að Fella- og Hólakirkja sé engu að síður hennar kirkja og verði svo ætíð.

Kirkjustarfið var gæfa

Benedikta segist hafa verið tengd kirkjustarfi í Fella- og Hólakirkju frá 1988 en þá hringdi maður í hana þegar hún var að elda sunnudagssteikina og spurði hana hvort hún vildi ekki koma í sóknarnefndina. „Hvað ég að gera þar?“ spurði hún manninn, og hann svaraði að bragði: „Ekki neitt.“ Hún fór inn sem varamaður en mál þróuðust óvænt hratt í sóknarstarfinu því að það vantaði varaformann og Benedikta tók það að sér. Síðar lést formaður sóknarnefndarinn skyndilega og þá varð Benedikta formaður. „Það var annað hvort að duga eða drepast og ég gat ekki verið þekkt fyrir að skorast undan,“ segir Benedikta.

Þegar hún tók við formennskunni voru mest allar byggingaframkvæmdir að baki. Sem formaður hefur hún komið að ýmsu eins og skiljanlegt er í kirkjustarfinu. Þegar búið er að reisa kirkju er margt eftir: að reka hana og ganga frá ýmsum endum. Kirkjustarf þarf margs við eins og hljóðfæri og skrúða – allt kostar sitt. Þá þarf kirkjuhúsið viðhald innan sem utan.

„Ég er líka heppinn að maðurinn minn, Hallur Árnason, hefur fylgt mér algjörlega í starfinu og aðstoðað á margvíslegan hátt,“ segir Benedikta.

Sameiningar
Prestaköll og sóknir hafa verið sameinaðar í Breiðholtinu.

Á sínum tíma sameinuðust tvö prestaköll í Breiðholti um að reisa eina kirkju í stað tveggja og var það nýlunda sem tókst vel.

Sagan kann að sýnast flókin: Fellaprestakall varð til 1975 og hafði áður verið hluti af Breiðholtsprestakalli. Hluti var lagður til Hólabrekkuprestakalls 1987 og þar hlaut kosningu ungur prestur, sr. Guðmundur Karl Ágústsson. Síðan var hvort tveggja sameinað 2016 í Fella- og Hólaprestakall.

Nú er oft spurt hvort ekki sé ráð að sameina Fella- og Hólaprestakall og Breiðholtsprestakall. „Mér líst vel á það,“ segir Benedikta, „kirkjan þarf að nýta alla krafta sem eru fáanlegir og hún þaf að skipuleggja sig vel.“

Benedikta segist hafa verið ákaflega ánægð og sátt með starfið í kirkjunni, guðsþjónusturnar og allt sem gert er þar fyrir utan. Starfið hefur verið öflugt og prestarnir alveg stórgóðir. Hún hefur lengst af unnið með sr. Guðmundi Karli Ágústssyni, sóknarpresti Fella- og Hólaprestakalls.

„Kirkjustarfið sem stendur upp úr í huga mínum er það sem fram fer á aðventu, jólum og páskum,“ segir Benedikta, „allt sem er í kringum sönginn og lætur kirkjuna óma – og svo er það náttúrlega messan á páskadagsmorgunn kl. 8.00 sem er alveg sérstök upplifun.“ Benedikta segir að fólk hafi oft gapað af undrun þegar hún sagði því að hún hefði farið í messu klukkan átta um morguninn.

„Ég veit ekki hvers konar lukka hefur verið yfir manni að fá tækifæri til að starfa í sóknarnefndinni og öðru kirkjustarfi,“ segir Benedikta glöð í bragði í lokin og horfir yfir árin sín 27 ár sem formaður.

Benedikta G. Waage fyrrum sóknarnefndarformaður í Fella- og Hólasókn, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh




  • Leikmenn

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju