Listaverk afhjúpað

17. maí 2021

Listaverk afhjúpað

Í Breiðholtskirkju - Vigdís V. Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar, þakkar fyrir gjöfina. Frá vinstri: Willy Petersen, Vigdís, og sr. Magnús Björn Björnsson - mynd: hsh

Í gærmorgun var trélistaverk sem Breiðholtskirkja fékk að gjöf afhjúpað í guðsþjónustu. 

Sr. Magnús Björn Björnsson, prestur í Breiðholtskirkju, ávarpaði kirkjugesti og sagði að nokkuð lengi hefði staðið til að afhjúpa listaverkið en kórónuveirurfaraldurinn hefðir tafið það. Síðan bað hann listamanninn, Willy Petersen, um að koma og afhjúpa listaverkið en hvítur dúkur var breiddur yfir það.

Dúkurinn rann léttilega af trélistaverkinu og í ljós kom fallegt, látlaust en þó sterkt, útskorið listaverk sem hangir á léttu skilrúmi vinstra megin við altarið. Við það er lítil silfurplata merkt nafni listamannsins og einnig nafni verksins sjálfs sem er Hendur Guðs.

Formaður sóknarnefndar, Vigdís V. Pálsdóttir, flutti stutt ávarp eftir að verkið var afhjúpað, og tók við listaverkinu fyrir hönd safnaðarins og þakkaði þessa höfðinglegu og táknrænu gjöf.

Kirkjan.is ræddi við Willy Petersen, sem gerði listaverkið. Spurði hvort hann væri smiður en hann kvað svo ekki vera. Hann væri aftur á móti blikksmiður.

Og hvað fór mikill tími í þetta?

„Það er nú ekki mælt en ég hef verið að vinna í þessu nokkuð lengi,“ segir Willy.

Listaverkið dregur fram útlínur Breiðholtskirkju, Tjaldkirkjunnar. Útlínurnar eru nettilega útskornar hendur sem halda hver í aðra. Neðri hlutinn er bogadreginn og stendur fyrir jörðina að sögn Willys. Hendurnar eru hvítar og dökkar – tákna órofa samstöðu og einingu alls mannkyns. „Fyrir ofan er hringur,“ sagði Willy og hann táknar eilífðina og andann heilaga. Er sem alfa og ómega að sögn listamannsins. Ofan á honum er krossinn, lóðrétti ásinn eru hendur sem og þvertréð – allt í réttum hlutföllum.

Sr. Magnús Björn vék að því í prédikun sinni að listaverkið sómdi sér einkar vel í Breiðholtskirkju þar sem Alþjóðlegi söfnuðurinn væri til húsa. Útlínur Breiðholtskirkju yrðu í listaverkinu að tákni fólks með ólíkan uppruna og væri boðið velkomið til kirkjunnar. Samtakamáttur flóttafólks og þeirra sem rétta þeim hjálparhönd væri líka dreginn fram í verkinu með þéttu handtaki allra handanna.

Hvaða við notaðir þú í trélistaverkið?

„Ég er með reykta eik, furu, mahóní, tekk, linditré, birki og venjulega eik,“ segir Willy.

Söfnuðurinn var mjög áhugasamur um listaverkið og skoðaði það að lokinni guðsþjónustu.

Síðan var haldinn aðalsafnaðarfundur.

hsh


Hér sést vel hvernig hendur tengja verkið saman


Efsti hluti verksins


Útskurðurinn er fallegur


Brennt í viðinn til að ná fram réttri áferð


  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju