Bjart yfir Tónskóla þjóðkirkjunnar

22. maí 2021

Bjart yfir Tónskóla þjóðkirkjunnar

Við skólaslit Tónskóla þjóðkirkjunnar. Frá vinstri: Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, Dagný Arnalds, Gunnar Biering Margeirsson og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, formaður Kirkjutónlistarráðs - mynd: hsh

Síðdegis í gær var Tónskóla þjóðkirkjunnar slitið við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju.

Skólaslitin hófust á því að Erla Rut Káradóttir lék Ciacona í f-moll eftir Johann Pachelbel en Ciaconan er úr Orgelskóla Hauks Guðlaugssonar.

Sérstakir heiðursgestir skólaslitanna voru þau hjón Haukur Guðlaugsson, fyrrum söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, og Grímhildur Bragadóttir í tilefni af 90 ára afmæli Hauks. Í haust verður blásið til tónleika þar sem fyrrverandi nemendur Hauks heiðra hann með flutningi á uppáhaldsverkum lærimeistarans.

Björn Steinar Sólbergsson, skólastjóri Tónskólans, stýrði skólaslitunum og fór yfir starf skólans í vetur en það var mjög svo mótað af kórónuveirufaraldrinum. Ýmsum tónleikum og viðburðum var því frestað vegna samkomutakmarkana.

Það sem bar hæst í starfinu var þó flutningur Tónskóla þjóðkirkjunnar úr Grensáskirkju þar sem hann hefur verið um langt árabil og í Hjallakirkju. Auk þess hefur Tónskólinn aðstöðu í Katrínartúni 4, húsnæði Biskupsstofu.

Síðastliðið skólaár voru nítján nemendur í skólanum og luku nú fjórir nemendur formlegum námsáföngum:

Hjörtur Ingvi Jóhannsson og Hugrún Sif Hallgrímsdóttir luku Kirkjuorganistaprófi. Þau léku á orgel kirkjunnar.

Hugrún Sif lék O Welt, ich muss dich lassen eftir Johannes Brahms og Hjörtur Ingvi lék eigið tónverk sem heitir Elgie.

Dagný Arnalds og Jón Gunnar Biering Margeirsson luku Kórstjórn III. Það voru Félagar úr Söngsveitinni Fílharmóníu sem sungu undir stjórn þeirra. Jón Gunnar stjórnaði eigin lagi, Bænalagi, og Dagný stjórnaði Double, Double, Toil and Trouble eftir Jaako Mäntyjärvi.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti ávarp og óskaði nemendum og skólanum velfarnaðar og blessunar Guðs.

Formaður Kirkjutónlistarráðs, sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, flutti einnig ávarp.

Að athöfninni lokinni var boðið upp á léttar veitingar í safnaðarsal kirkjunnar.

Úr skólaslitaræðu Björns Steinars, skólastjóra

Kennsla fór fram í Akureyrarkirkju, Blönduóskirkju, Hjallakirkju, Hallgrímskirkju, Kópavogskirkju og Langholtskirkju. Nítján nemendur voru skráðir í nám við skólann í upphafi vetrar og er alltaf gaman að sjá þennan breiða hóp fólks víðs vegar um landið sem hefur áhuga á að starfa að framgangi kirkjutónlistarinnar. Endurmenntun er mikilvægur þáttur í starfi Tónskólans þar sem starfandi organistar geta aukið menntun sína með námi og námskeiðshaldi á vegum skólans. Þar hafa útibú Tónskólans á Akureyri, Ísafirði og Blönduós sannað gildi sitt.

----------------

Þegar ég stóð í þessum sporum fyrir ári hélt ég að áhrif Covid19 á skólastarfið yrði lokið að sama tíma að ári. Þar reyndist ég ekki sannspár því farsóttin hefur haft mikil áhrif á Tónskólann eins og aðra skóla landsins.

---------------

Kennslan hefur þó að mestu leyti gengið vel með samstilltu átaki kennara og nemenda. Kennarar voru auk skólastjóra; Guðný Einarsdóttir, Hreinn S. Hákonarson, Jón Helgi Þórarinsson, Laufey Helga Geirsdóttir, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Lenka Matéóvá, Magnús Ragnarsson, Beata Joó á Ísafirði, Eyþór Ingi Jónsson á Akureyri og Eyþór Franzson Wechner á Blönduósi.

Fulltrúi á skrifstofu er Laufey Helga Geirsdóttir.

hsh


Frá vinstri: Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Grímhildur Bragadóttir, Haukur Guðlaugsson, Kristinn Örn Kristinsson, Lilja Hjaltadóttir. Miðröð: Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Hugrún Sif Guðjónsdóttir, Dagný Arnalds, Gunnar Biering Margeirsson, Laufey Helga Geirsdóttir, Björn Steinar Sólbergsson, og aftasta röð: Guðný Einarsdóttir, sr. Jón Helgi Þórarinsson, Jónas Þórir Þórisson, Beata Joó, Magnús Ragnarsson og Eyþór Franzson Wechner. Mynd: hsh
  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Frétt

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir á biskupssofu

Fyrsti vinnudagurinn annasamur

01. júl. 2024
...hjá nýjum biskupi Íslands
For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið