Gamla og nýja fréttin: Húsvitjun

27. maí 2021

Gamla og nýja fréttin: Húsvitjun

Húsvitjun - heimilin hafa breyst - frá sýningu í Þjóðminjasafni Íslands: Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár - mynd: hsh

Reglugerðir hins opinbera eru margar og fjölbreytilegar. Allar eru þær gagnlegar þó áhöld geti verið um sumar þeirra.

Í dag eru 275 ár liðin frá því að gagnleg tilskipun (reglugerð) var sett. Sú varð grunnur að miklum upplýsingabanka sem sagnfræðingar og aðrir hafa unnið úr. Þeir sem skráðu upplýsingarnar inn í þennan banka voru prestarnir.

Þetta er reglugerð eða tilskipun um húsvitjanir frá 27. maí 1746

Í húsvitjunum könnuðu prestar meðal annars kunnáttu fólks í kristnum fræðum og lestrarfærni barna, söfnuðu almennum upplýsingum um það; athuguðu heimilishagi alla; tóku manntal og ræddu við heimilisfólkið.

Frá því að þessi tilskipun var sett hafa prestar húsvitjað hver með sínum hætti allt til þessa dags enda þótt inntak heimsóknarinnar hafi breyst.

Hvers vegna er verið að nefna þetta núna?

Senn lýkur alþingi störfum sínum. Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um þjóðkirkjunasem er næsta víst að verði samþykkt enda stjórnarfrumvarp flutt af dómsmálaráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu verður meðal annars tilskipun um húsvitjanir frá 27. maí 1746 felld úr gildi ásamt öðrum gömlum lögum og tilskipunum – 13. grein frumvarpsins rekur það allt saman og 21. liður hennar getur um nefnda tilskipun.

Þetta er nýja fréttin.

Það er vissulega frétt þegar svo gömul tilskipun og merkileg fyrir margra hluta sakir er felld úr gildi. Auðvitað kemur það ekki í veg fyrir að prestar heimsæki sitt sóknarfólk þegar þeir kjósa og í samvinnu við það.

En tilskipun þessi hefur semsé verið í gildi í 275 ár upp á dag og afmæli hennar er fagnað um leið og hún verður kvödd í lok þings og þökkuð góð þjónusta við kristni og þjóð.

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar