Margt í boði

29. maí 2021

Margt í boði

Bessastaðakirkja á fögrum degi - kl. 17.00 á morgun verður lagt upp frá kirkjunni í 5 kílómetra íhugunargöngu - mynd: hsh

Svo sannarlega er allt kirkjustarf að taka vel við sér eftir síðustu tilslakanir heilbrigðisyfirvalda vegna kórónuveirunnar.

Það leikur mikil birta yfir kirkjunum og gleði. Loksins er allt að færast smám saman í rétt horf. Sunnudagurinn 30. maí segir þá sögu.

Kirkjurnar kalla á fólk og það er margt í boði. Heimasíður kirkna og Feisbókasíður sýna það og hvetur kirkjan.is fólk til að skoða þær. Úr ýmsu er hægt að velja.

Gönguguðsþjónustur Breiðholtssafnaðanna fara nú af stað. Gengið verður frá Seljakirkju á morgun kl. 10.00 og að Fella- og Hólakirkju og þar verður messa kl. 11.00.

Kaffihúsamessa verður í Grafarvogskirkju kl. 11.00. Þær hafa verið vinsælar.

Landakirkja býður upp á batamessu kl. 11.00. Þar koma Vinir í bata að messunni með ýmsum hætti.

Og kvöldmessurnar eru byrjaðar í Bústaðakirkju og hefjast þær kl. 20.00. Kvöldmessa verður líka í Keflavíkurkirkju kl. 20.00. Í Lindakirkju kl. 20.00.

Sérstaklega skal bent á kvöldmessu í Innra-Hólmskirkju í Garða- og Saurbæjarprestakalli og hefst hún kl. 20.00. Nú eru hafnar langþráðar viðgerðir á þessu fallega guðshúsi

Dægurlagamessa verður í Víðistaðakirkja kl. 20.00.

Síðdegisguðsþjónusta í Ástjarnarkirkju kl. 17.00.

Vorhátíð Bessastaðasóknar verður á morgun kl.11.00 í safnaðarheimilinu Brekkuskógum. Þar verða auðvitað grillaðar pylsur, hoppukastalinn vinsæli mun opna sinn litríka faðm og andlitsmálum verður boðin og margt fleira. Síðdegis verður íhugunarganga, hún hefst kl. 17.00. Genginn verður 5 kílómetra hringur frá Bessastaðakirkju.

Vorhátíð Glerárkirkju og Vortónleikar Barna- og Æskulýðskórs verður í dag 29. maí kl. 11 í kirkjunni. Þar verður aldeilis mikið fjör. 

Víða er sunnudagaskólastarfi að ljúka. Þau á Selfossi ljúka sínum sunnudagaskóla með pompi og pragt á morgun í Selfosskirkju kl. 11.00. Boðið verður upp á bangsaleikrit, biblíusögu og síðast en ekki síst söng með góðum undirleik.

Hestafólki er boðið til guðsþjónustu í Mosfellskirkju. Það er árlegur viðburður að hestamenn koma ríðandi til kirkju. Hestamannaþjónustan hefst kl. 14.00.

Auk þessa sem nú er talið verða hefðbundnar guðsþjónustur í mörgum kirkjum, fermingar og fjölskylduguðsþjónustur. Einnig helgistundir.

Pílagrímaganga verður í Austfjarðaprestakalli. Gengið verður að steinboganum í Jafnadal. Það er 12 kílómetra leið og lagt verður upp frá Stöð í Stöðvarfirði kl. 11.00. Tema göngunnar er: að brúa bilið og standa á kletti.

Kirkjan.is spurði sr. Dag Fannar Magnússon, prest í Heydölum, út í pílagrímagönguna:

„Gangan er hluti af stóra loftlagspílagrímaverkefninu sem sr. Sindri Geir Óskarssonar, sóknarprestur í Glerárkirkju, stendur fyrir,“ segir sr. Dagur Fannar. Hann á von á allt að tíu manns í gönguna en það verið sá fjöldi sem tekið hefur þátt í fyrri göngum. „Ég og sr. Erla Björk Jónsdóttir leiðum þetta verkefni hér í Austfjarðaprestakalli, og það hafa nú þegar verið farnar nokkrar göngur en við munum enda þetta tímabil á Jónsmessunæturgöngu yfir Reyndalsheiði.“ Hann segir gönguna á morgun ekki hafa verið farna áður á vegum Austfjarðaprestakalls en um sé að ræða þekkt gönguleið.

Ekki má gleyma útvarpsmessunni á Rás 1. Hún kemur að þessu sinni frá Hafnarfjarðarkirkju og hefst að vanda kl. 11.00.

Þetta er aðeins brot af því sem er í boði. Starf kirknanna er öflugt og fjölbreytilegt.

Nú er bara að velja.

hsh


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall