Viðtalið: Garðakirkja í sviðsljósinu

3. júní 2021

Viðtalið: Garðakirkja í sviðsljósinu

Garðakirkja á Álftanesi - mynd: hsh

„Það hefur verið að þróast aukið samstarf milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar í gegnum árin m.a. með hjólreiðarmessu í júní og öðrum viðburðum,“ segir sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðaprestakalli, þegar kirkjan.is spyr hana út í sumarmessurnar sem fara senn af stað. „Þessi samtakamáttur hefur verið gefandi og þess vegna fóru menn að athuga hvort hægt væri að hleypa af stað skemmtilegu átaki yfir sumarið þegar ýmislegt safnaðarstarf fer í hvíld,“ bæti hún svo við full tilhlökkunar.

Sr. Jóna Hrönn segir að messusókn sé oft minni yfir sumarið og ekki hægt að halda úti fullu helgihaldi í öllum kirkjum til að prestar, organistar og kirkjuverðir komist í sumarfrí.

„Það er líka styrkur í því að hafa alltaf helgihald á einum stað,“ segir hún „í stað þess að fara á milli kirkna, slíkt gæti ruglað menn i rýminu.“

Allir sem fara hjá Garðakirkju hrífast af umhverfinu og kirkjunni. Sjálf kirkjan liggur svo nálægt báðum bæjarfélögunum og Hafnfirðingar eiga margir sterk tengsl við kirkjuna og er hún mikið notuð af þeim til athafna.
„Sumarmessurnar fara af stað á sjómannadaginn 6. júní kl.11:00 og verða alla sunnudaga í Garðakirkju í júní, júlí og ágúst,“ segir sr. Jóna Hrönn. „En það verður einnig helgihald í sjómannadaginn í Hafnarfirði eins og sterk hefð er fyrir.“

Einnig eru helgistundir og guðsþjónustur í fleiri kirkjum í Garðabæ og Hafnarfirði á 17. júní. Lesendur eru hvattir til að skoða heimasíður kirknanna og Feisbókarsíður þeirra.

Hvað form er á sumarmessunum?
„Við erum með einfalt og létt form en það er lögð áhersla á að hver söfnuður fái að skapa sitt yfirbragð og engin miðstýring með slíkt,“ svarar sr. Jóna Hrönn. „Við skiptum messunum með okkur eftir stærð safnaða og fjölda presta og starfsfólks, sem er afar eðlilegt.“

Hún segir að þau hafi séð mikla aukningu í kirkjusókn í fyrrasumar og hafi fjöldinn farið hátt upp í 100 manns við guðsþjónusturnar.

Sunnudagaskóli í sumri og sól

Samstarfsfólkið er ekki hrætt við nýjungar og bryddar upp á ýmsu óvenjulegu og fer aðrar leiðir til að ná til fólks.

„Við ætlum líka að bjóða upp á sunnudagaskóla í júní og júlí sem er ekki hefð fyrir í þessum sóknum yfir sumartímann,“ segir sr. Jóna Hrönn. Hún segir að þau hafið notið sérstakrar velvildar í gegnum menningarfulltrúa Garðabæjar því að sunnudagaskólinn verði í vinnustofunni í bænum Krók sem er á Garðaholtinu. „Sjálfur bærinn, Krókur, verður auk þess opin til skoðunar eins og verið hefur í gegnum árin.“

Sr. Jóna Hrönn segir að þau sem sinni barnastarfinu séu bæði fræðarar úr sunnudagaskólunum og ungt fólk í skapandi störfum hjá Garðabæ.

Hlaðan

Öllum þykir skemmtilegt að koma í hlöðu og ekki síst þegar blásið er þar til fagnaðar. Hlöðuball og hlöðuskemmtun! Hvað er betra!

„Já, við fáum hlöðuna við bæinn Krók lánaða til að bjóða upp á messukaffi og þar verður boðið upp á ýmsa viðburði,“ segir sr. Jóna Hrönn og brosir breitt. „Það gerir þetta ennþá skemmtilegra, það verður boðið upp á hestaferðir, töfrabrögð, spurningarkeppni, fjöldasöng, söngatriði og harmonikkuleik fyrir utan sýningu á fornbílum svo eitthvað sé nefnt.“

Hér er enginn skortur á hugmyndum!

Sr. Jóna Hrönn segir samstarfskirkjurnar horfa til þess að nýta svæðið í Garðaholtinu til að gleðja fólk og uppörva á þessu sumri eftir erfiða mánuði í íslensku samfélagi.

Nú er bara að fylgjast með auglýsingum í sumar um sumarmessurnar og skella sér. Enginn verður svikinn af þeim – né heldur hinu fagra umhverfi Garðakirkju sem er einstakt.

hsh

                  




Krókur - og hlaðan - mynd: hsh


  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Nýjung

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju