Tvær doktorsritgerðir

5. júní 2021

Tvær doktorsritgerðir

Dr. Haraldur og dr. Sigurvin Lárus - mynd: hsh

Nýlega komu út tvær doktorsritgerðir eftir íslenska guðfræðinga.

Sú fyrri er ritgerð dr. Haralds Hreinssonar sem heitir Force of Words – A Cultural History of Christianity and Politics in Medieval Iceland (11th-13th Centuries)Það er bókaforlagið Brill í Hollandi sem gefur bókina út og er hún 328 blaðsíður.

Seinni ritgerðin er eftir dr. Sigurvin Lárus Jónsson og ber titilinn James Among the Classicists: Reading the Letter of James in Light of Ancient Literary Criticism. Útgefandi er Vandenhoeck & Ruprecht í ritröðinni Studia Aarhusiana Neotestamentica (Sant) 8 og er hún 353 blaðsíður.

Í ritgerð dr. Haralds leitast hann við að draga fram vægi kristinna trúarhugmynda fyrir þá kirkjupólitísku þróun sem átti sér stað á Íslandi á miðöldum (n.t. 11., 12. og 13. öld) einkum uppgang kirkjuvaldsstefnunnar. Oft er sagt að Þorlákur Þórhallsson, Skálholtssbiskup, hafi verið fyrsti fulltrúi kirkjuvaldsstefnunnar á Íslandi sem hann sannarlega var sé aðeins horft til biskupa og annarra leiðtoga kirkjunnar. Nýlegar rannsóknir, t.a.m. á uppgangi klausturhreyfinga á Íslandi, hafa þó sýnt að þessi þróun var mun flóknari. Bókinni er beint inn í þessa fræðilegu umræðu með því að sýna fram á þátt kristinnar, trúarlegrar orðræðu í framvindunni. Mikilvægustu heimildir á íslensku um þessa orðræðu er að finna í stólræðum og dýrlingasögum en fram að þessu hafa slíkar heimildir ekki verið rannsakaðar nema að litlu leyti með tilliti til félagspólitísks vægis þeirra. Kenningarlega var greining textanna unnin frá sjónarhorni orðræðugreiningar út frá ýmsum túlkunarfræðilegum vinklum, t.d. skrifa guðfræðingsins Elisabeth Schüssler-Fiorenza og heimsveldisfræða.

Dr. Haraldur er fæddur í Reykjavík 1985. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2009 og meistaraprófi í guðfræði frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum 2011. Doktorsprófi í sagnfræði lauk hann 2019 frá Universität Münster í Þýskalandi. Hann býr og starfar í Leipzig og kennir einnig við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Dr. Sigurvin Lárus sendir frá sér Jakob á meðal klassísista en það er endurskoðuð doktorsritgerð, sem var varin við Árósaháskóla í maí 2019. Bókin setur fram kenningu um tilgang og erindi Jakobsbréfs, með því að greina tungumál og stíl bréfsins. Megin rannsóknarspurningin er hvernig að höfundur áréttar kennivald sitt í bréfinu. Þeirri spurningu er svarað með því að skoða textann í ljósi bókmenntarýni fornaldar, en í því ljósi birtast aðferðir höfundar til að byggja upp kennivald í textanum. Erindi höfundar er m.a. að gagnrýna misskiptingu auðs – en því hefur margoft verið haldið fram að Jakobsbréf varðveiti beittustu ádeilu á auðsöfnun sem er að finna í fornöld.

Jakobsbréf skapar bókmenntalega persónu í bréfaformi til að árétta siðferðislegt kennivald sitt (eþos) (2. kafli), beitir orðaforða og stíl til að sýna fram á menntun sína (3. og 4. kafli) og kallar sig vitring, kennara og ritskýranda (5. kafli). Á grundvelli þessa kennivalds getur höfundur áminnt hina ríku í Rómarveldi sem jafningi og ákallað jafnt ríka sem fátæka til að meðtaka visku Guðs.

Samanburðurinn við bókmenntafræði fornaldar sýnir svo ekki verður um villst að höfundur vinnur með sömu forsendur og klassísistar, á borð við Díónýsíus frá Halíkarnassus. Jakobsbréf jafnt sem klassísistarnir settu fram hugmyndafræði til höfuðs Rómarveldi, hið fyrrnefnda á grundvelli gyðinglegrar guðrækni, sem höfundur telur standa Rómarveldi framar í siðferði og efnahagslegum jöfnuði, og hinir síðarnefndu á grundvelli þess að hápunktur grískrar menningar eigi að liggja til grundvallar Rómarveldi.

Dr. Sigurvin Lárus Jónsson er fæddur í Reykjavík 1978 og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2006. Síðan lauk hann meistaraprófi 2014 frá sama skóla, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Hann stundaði doktorsnám við Árósaháskóla og Emory-háskóla í Atlanta. Nú starfar dr. Sigurvin Lárus sem prestur við Fríkirkjuna í Hafnarfirði og við rannsóknir og kennslu við háskólann í Münster í Þýskalandi, auk þess að sinna stundakennslu við Háskóla Íslands.

Kirkjan.is óskar þeim dr. Haraldi og dr. Sigurvin til hamingju með lærdómsgráðuna.

hsh

 

 
  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju