Fólkið í kirkjunni: Trúr liðsmaður

8. júní 2021

Fólkið í kirkjunni: Trúr liðsmaður

Jón Oddgeir Guðmundsson, kristilegur frumkvöðull, heiðraður á héraðsfundi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis - mynd: Guðmundur Guðmundsson

Hann heitir Jón Oddgeir Guðmundsson og hefur starfað í kirkjunni um áratugaskeið.

Hann er maðurinn sem vinnur úti á akrinum og lætur verkin tala.

„Ég er óbreyttur alþýðumaður,“ segir Jón Oddgeir „og hef ekki mikla almenna menntun og vann um aldarfjórðung í raftækjaverslun á Akureyri sem hét Hljómver.“ Hann starfaði líka sem kirkjuvörður í Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.

Jón Oddgeir kynntist kristilegu starfi í Zíon á Akureyri. Þar var rekinn öflugur sunnudagaskóli og í framhaldi af honum fór Jón Oddgeir í KFUM. Þórunn Jónsdóttir, móðir hans, var ein af þeim konum sem sóttu samkomur í Zíon en það var Kristniboðsfélag kvenna á Akureyri sem hafði veg og vanda af starfinu.

„Hvenær datt þér í hug hugmyndin um Orð dagsins?“ spyr kirkjan.is. Til skýringar fyrir þau sem ekki eru kunn þessari kristniboðsleið þá er hún fólgin í því snjallræði að hringja í ákveðið símanúmer og hlýða á guðsorð lesið upp.

„Ég byrjaði með Orð dagsins í apríl 1971,“ segir Jón Oddgeir, „góður vinur minn sem bjó í útlöndum sagði mér frá símanúmeri sem hægt væri að hringja í og hlusta á kristilega hugvekju.“ Það kveikti í Jóni Oddgeiri og hugmyndin varð að veruleika. Bjarni Eyjólfsson, sem var forystumaður i KFUM í Reykjavík, talaði inn fyrstu hugleiðingarnar inn á símann. Hann lagði út af 121 Davíðssálmi – hver hugleiðing var um þrjár mínútur og Jón Oddgeir segist eiga allar hugleiðingarnar á segulbandi.

Orð dagsins er enn til, og er ein mínúta,“ segir Jón Oddgeir. Númerið er 462-1840. Í gamla daga var númerið 21840 – svo bættust tveir stafir fyrir framan.

Margir kannast við bílabænina. Bæn með gylltum stöfum sem límd er á góðan stað við mælaborð bifreiða.

„En bílabænin, hvenær byrjaðir þú með hana?“ spyr kirkjan.is.

„Það var 1972,“ svarar Jón Oddgeir, og segir að það hafi verið nokkuð dýrt að borga af síma og símsvara á þeim tíma fyrir Orð dagsins. „Mér var gefin falleg ensk bílabæn og datt í hug að það þyrfti að koma henni yfir á íslensku,“ segir Jón Oddgeir. Hann fékk fyrirtæki á Akureyri til að prenta hana í nokkrum litum og hún seldist mjög vel í byrjun. „Og selst enn,“ segir Jón Oddgeir stoltur. Hann fjármagnaði sjálfur símsvarann og útgáfu bílabænarinnar.

Sumarbúðirnar að Hólavatni áttu hug hans allan á sínum tíma og hann tók þátt í uppbyggingu þeirra sem og byggingu félagsheimilis KFUM- og K á Akureyri. Jón Oddgeir sat líka í mörg ár á Leikmannastefnu þjóðkirkjunnar.

Að frumkvæði Jóns Oddgeirs var reistur veglegur minnisvarði um sr. Friðrik Friðriksson á fæðingarstað hans að Hálsi í Svarfaðardal.

Jón Oddgeir var kosinn í sóknarnefnd Akureyrarkirkju 1985. Er maður kristni og kirkju – vill kirkjunni allt hið besta. Hefur sýnt fram á mikilvægi einstaklingsframtaksins í kristilegu starfi. 

Á síðasta héraðsfundi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis var hann heiðraður fyrir farsælt starf fyrir kirkju og kristni. Að því tilefni fékk hann blómvönd frá biskupi Íslands og góða kveðju.

Og hvað er svo næst á dagskrá?“ spyr kirkjan.is.

„Það er sóknarnefndarfundur í kvöld,“ segir Jón Oddgeir og greina má tilhlökkun í röddinni.

Jón Oddgeir Guðmundsson er einn þeirra sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Bílabænin - skjáskot

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju