Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur, kvaddur

12. júní 2021

Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur, kvaddur

Sr. Egill Hallgrímsson, 1955-2021

Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, varð bráðkvaddur á heimili sínu í Skálholti 9. júní s.l.

Sr. Egill fæddist 11. júní 1955 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Hallgrímur Hafsteinn Egilsson, garðyrkjubóndi í Hveragerði, og Sigurlaug Guðmundsdóttir, húsmóðir í Hveragerði. Þau eru bæði látin.

Eftirlifandi eiginkona sr. Egils er Ólafía Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og eignuðust þau tvö börn, Sóleyju Lindu og Hallgrím Davíð.

Sr. Egill lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1976. Síðan stundaði hann nám í sálfræði um tveggja ára skeið og hóf svo nám í guðfræði. Hann lauk kandidatsprófi í guðfræði 1991. Þá útskrifaðist sr. Egill úr námi í stjórnendamarkþjálfun árið 2017 frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess lauk hann námi í meðferðardáleiðslu frá Bandaríkjunum árið 2018.

Hann stundaði margvísleg störf samtímis námi og síðar eins og gæslustörf á sjúkrahúsum, kennslustörf á Bíldudal, og vaktmaður á meðferðarstöð S.Á.Á., að Sogni í Ölfusi. Sr. Egill sá um barnastarf í Dómkirkjunni um þriggja ára skeið og var kirkjuvörður þar í afleysingum.

Hann var vígður til Skagastrandarprestakalls 12. maí 1991. Jafnhliða prestsskapnum kenndi hann við Höfðaskóla á Skagaströnd og tók þátt í margvíslegu félagsstarfi eins og skógræktarfélaginu; sat í stjórn Kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn, í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar; var í stjórn Prestafélags hins forna Hólastiftis og í stjórn Collegium Musicum í Skálholti; átti sæti í stjórn Helgisiðastofu í Skálholti um árabil og í stjórn Þorláksbúðafélagsins svo nokkuð sé nefnt.

Sr. Egill var skipaður sóknarprestur í Skálholtsprestakalli 1. janúar 1998.

Hveragerði var sveitaþorp á æskuárum sr. Egils og í viðtali sagði hann að staðurinn hefði verið sem paradís fyrir börnin. Reykjafell, Hamarinn og móarnir voru leiksvæði sem buðu upp á allt milli himins og jarðar. Faðir hans rak gróðurhús og sr. Egill vann þar fram á fullorðinsár. Móðir hans söng í kirkjukórnum og hann fékk trúarlegt uppeldi.

Sr. Egill var ákaflega hlýr maður og alúðlegur. Trú hans var heit og einlæg. Hann var sannur kirkjunnar maður og snjall prédikari sem náði firna vel að koma boðskap fagnaðarerindisins til áheyrenda sinna og var oft frumlegur í framsetningu sinni. Hann var ófeiminn við að taka á ýmsum vandamálum samtímans í prédikunum sínum eins og fátækt. Andans mál voru honum afar hugleikin, kristin mýstík, hugleiðsla og íhugun. Annars voru áhugasvið hans víðfeðm eins og alþjóðastjórnmál og alþjóðaviðskipti. Þá hafði hann mikinn áhuga á góðum bílum og naut þess að ferðast um á kraftmiklu mótorhjóli. Hann sagði mótorhjólamennsku og andlega iðkun fara vel saman. Áhugamál voru því fjölbreytilegt og það kom mörgum á óvart að þessi kennimaður sem var mjög hollur gömlum siðum og venjum innan kirkju sem utan skyldi svo sveifla sér upp á mótorhjól í leðurklæðnaði. Sýndi að hann var margbrotinn persónuleiki.

Sr. Egill Hallgrímsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

hsh










  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall