Ferming.is og minnislykill

29. júní 2021

Ferming.is og minnislykill

Ferming í Grafarvogskirkju í Reykjavík. Mynd: Grafarvogskirkja

Það er alltaf eitthvað nýtt á prjónunum hjá þjóðkirkjunni.

Í dag fá fermingarbörn ársins 2022  sendan í pósti umhverfisvænan minnislykil (usb-lykil). Á lyklinum er að finna sex áhugaverða fyrirlestra sem ætlaðir eru fermingarbörnum.

Alls verða sendir út fjögur þúsund umhverfisvænir minnislyklar.

„Við vonumst eftir góðum viðtökum hjá fermingarbörnunum og að foreldrar horfi og hlusti með þeim á þessa áhugaverðu fyrirlestra,“ segir sr. Hildur Björk Hörpudóttir, núverandi sóknarprestur í Reykholti en áður sviðsstjóri fræðslusviðs Biskupsstofu. „Einnig að börnin nýti svo minnislyklana áfram til þess að geyma annað nytsamlegt efni á. En þeir smellapassa í öll veski.“

Sr. Hildur Björk segir að hugmyndin að fermingar-usb-lykli hafi orðið til á fræðslusviðinu á Biskupsstofu og einnig í samtölum við fagfólk á sviði upplýsinga- og kennslufræðimála.

„Hugmyndin frá upphafi var að koma út til árgangsins 2008 fræðslu um gagn og gaman fermingarfræðslunnar og starfsemi þjóðkirkjunnar sem tengist fermingarfræðslunni“, segir sr. Hildur Björk, og bætir því við að vandinn hafi verið sá að setja efnið í þann búning að það bærist fermingarbörnum heim að dyrum og væri áþreifanlegt. „Þess vegna var þessi leið farin að gefa þeim umhverfisvæna minnislykla með fallegum skilaboðum og myndum.“
Myndböndin á minnislyklinum eru mjög aðgengileg og málfarið á þeim höfðar vel til fermingarbarna. Ekkert þeirra er lengra en tíu mínútur. Þau sem þar koma fram hafa flest mikla reynslu af því að starfa með börnum og unglingum. „Prestarnir eru í yngri kantinum og hafa sumir verið duglegir í gera TikTok-myndbönd,“ segir sr. Hildur Björk. „Sumir prestanna eru jafnvel dálítið þekktir á samfélagsmiðlum og því er hugsanlegur möguleiki að þeir nái betur til fermingarbarnanna en aðrir.“ En auk prestanna kemur efni frá upplýsinga- og fræðslufulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar. Þá segir ungur maður frá trúarlegri upplifun sinni og tveir þaulreyndir æskulýðsfulltrúar fara yfir málin.

Samhliða útgáfu á þessum umhverfisvæna usb-lykli hefur verið opnaður vefurinn ferming.is. Þar má finna margvíslegar upplýsingar um ferminguna, skemmtilegan fróðleik og fyrirlestrana sem usb-lykillinn geymir.

Gaman verður að heyra frá fermingarbörnum næsta árs sem fædd eru árið 2008 hvað þeim finnst um usb-lykilinn sem sendur verður til þeirra. Örugglega fá þau ekki oft póstsendingu upp á gamla mátann og því verða þetta kannski líka tímamót hjá mörgum þeirra.

hsh

 


Minnislyklar settir í fjögur þúsund umslög - frá vinstri: Ívar Jónsson og Kjartan Jakobsson Richter


Margt hefur verið gert í fermingarfræðslu undanfarna áratugi og ætíð reynt að koma nýjungum á framfæri - þetta skírteini er frá sjöunda áratug síðustu aldar


Textinn í fermingarskírteininu - sennilega yrði kveðjan í lokin orðuð með öðrum hætti nú en þá
  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Æskulýðsmál

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí