Fór betur en á horfðist

30. júní 2021

Fór betur en á horfðist

Margt var um að vera í Háteigskirkju - altaristaflan kröftuga frá öðru sjónarhorni en venjulega - mynd: hsh

Þegar kirkjan.is gekk inn í Háteigskirkju í gær kom hún beint í flasið á öflugu hreingerningarliði sem þar var að störfum. Nett körfutæki fremst í kirkjuskipi og menn með tuskur á lofti. Súrrandi hitablásarar léku undir í stað orgels. Tuskur voru undnar í gríð og erg og vaskir hreingerningarmennirnir svifu meðfram listum fyrir ofan dyr milli forkirkju og kirkjuskips. Aðrir voru að störfum inni í kirkjunni. Struku sumir með moppu yfir veggina svo skjótt og örugglega að þrjár sýndust á lofti í guðshúsinu.

Þetta var ekki sumarhreingerningin.

Svo gott sem vatn annars er þá getur það valdið miklum skaða. Það vita allir.

Kirkjuvörðurinn í Háteigskirkju fann ókennilegan þef er hann kom í kirkjuna á mánudaginn. Við nánari athugun kom í ljós að vatn hafði runnið í kjallarann undir forkirkjunni. Kyndikerfið í kirkjunni hafði gefið sig. Vatnsgufa draup af öllu inni í kirkjunni.

Nú var þörf snarra aðgerða. Kirkjuvörðurinn Rannveig Eva Karlsdóttir og kirkjuhaldarinn Kristján J. Eysteinsson sneru bökum saman í einbeittum aðgerðum. Slökkviliðið kom á vettvang og dældi vatni upp.

Nokkrar skemmdir urðu og þá sérstaklega í kjallaranum. En áhyggjur snerust fyrst og fremst um að vatnsgufa hefði náð að smjúga inn í tréverk kirkjunnar og hljóðfærin, orgel og flygil. Tréverkið virðist hafa sloppið en kannað verður nánar með ástand hljóðfæranna síðar.

Rannveig Eva tjáði tíðindamanni kirkjunnar.is að tvær hjónavígslur sem áttu að vera í kirkjunni hefðu verið færðar til. Útför sem hafði verið ákveðin að færi fram í vikunni mun hins vegar standa.

Þegar vatnslagnir gefa sig í húsum er voðinn vís. Fyrir nokkrum árum gaf leiðsla sig í Síðumúlakirkju í Borgarfirði og olli miklum skemmdum. Þá sprakk vatnsleiðsla í Kirkjuvogskirkju í Höfnum á Suðurnesjum fyrir fáeinum árum og olli töluverðu tjóni. Þetta eru aðeins tvö dæmi. Þess vegna er brýnt fyrir kirkjur að gæta reglulega að því hvort öll lagnamál séu ekki eins og þau eigi að vera.

En víst er að betur fór en á horfðist. Allir eru þakklátir fyrir það.

hsh


Strokið af veggjum


Blástur lék um altarið - blásarar gerðu knéfall við hæfi


Rannveig Eva Karlsdóttir, kirkjuvörður, glöð í bragði því betur fór en á horfðist


Þessi forvitni nágranni fylgdist með úr öruggri fjarlægð enda vatn ekki hans ær og kýr

  • Menning

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju