Kirkja og menning: Tónlist og helgihald

9. júlí 2021

Kirkja og menning: Tónlist og helgihald

Ekki verður annað sagt þegar litið er yfir hina vönduðu sumardagskrá í Hóladómkirkju að þar búi listrænn metnaður og glæsibragur sem sómir vel hinum forna Hólastað.

„Það er ferðafólk sem sækir tónleikana hjá okkur, og svo auðvitað heimafólk,“ segir sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, þegar kirkjan.is spyr hana út í hina glæsilegu dagskrá Sumartónleikanna í Hóladómkirkju. „Fólk sem heyrir auglýsingar frá okkur í útvarpi, héraðsmiðlinum og annars staðar.“ Hún segir að aðsóknin fari vaxandi að tónleikunum. Hóladómkirkja tekur um 150 manns í sæti.

Sumartónleikarnir eru á vegum Guðbrandsstofnunar sem er samvinnuverkefni Þjóðkirkjunnar, Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands um menningarstarfsemi á Hólum. Í stjórn stofnunarinnar sitja auk vígslubiskups sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur, dr. Erla Björk Örnólfsdóttir rektor Háskólans á Hólum og dr. Hjalti Hugason prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.

Sumartónleikar í Hóladómkirkju eru tengdir helgihaldi með þeim hætti að alla sunnudaga frá 13. júni til 22. ágústs er messað kl. 14.00 og síðan er boðið í messukaffi á Kaffi Hólar í boði Hólanefndar. Eftir messukaffið eru svo tónleikar í kirkjunni.

Tónleikaröðin í ár hófst 13. júní s.l. með tónleikum Aulos Futos, næst léku þau Þórunn Ósk Marínósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson á víólu og selló.

Þann 27. júní léku heiðursgestir Sumartónleikanna hjónin Guðný Guðmundsdóttir og Gunnar Kvaran á fiðlu og selló. Fyrstu helgina í júlí voru tvennir tónleikar. Duo Freyja, sem mæðgurnar Svava Bernharðsdóttir og Rannveig Marta Sarc skipa, léku á víólu og fiðlu á laugardeginum og hljómsveitin Brek lék og söng á sunnudeginum.

Næstkomandi sunnudag, 11. júlí eru píanótónleikar. Þá leikur Ingi Bjarni Skúlason eigin lög.

Þann 18. júlí syngur miðaldasönghópurinn Voces Thules.

Vigdís María Hermannsdóttir syngur hinn 25. júlí eigin lög og leikur á gítar og píanó.

Um verslunarmannahelgina leikur Melkorka Ólafsdóttir á flautu og 8. ágúst syngja Harpa Ósk Björnsdóttir og Jara Hjálmarsdóttir við undirleik Símonar Karls Sigurðssonar og Romain Þórs Denuit.

Hólahátíð verður haldin hinn 15. ágúst með afar fjölbreyttir dagskrá, pílagrímagöngum, málþingi, tónleikum og hátíðamessu. Mun kirkjan.is greina frá því þá nær dregur hátíðinni.

Þessari vönduðu sumardagskrá lýkur 22. ágúst með tónleikum Tendru hljómsveitar, en hana skipa Mikael Máni Ásmundsson og Marína Ósk Þórólfsdóttir.

Aðgangur að Sumartónleikum Hóladómkirkju er ókeypis.

Sumartónleikar í Hóladómkirkju eru styrktir af Tónlistarsjóði, Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og Þjóðkirkjunni.

hsh

 

 


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Logo.jpg - mynd

Opið fyrir umsóknir um styrki úr kynningar-, fræðslu- og útgáfusjóði Þjóðkirkjunnar

06. maí 2025
Hlutverk sjóðsins að styðja við og efla kynningar- og fræðslustarf kirkjunnar svo og útgáfustarfsemi á því sviði.
Sr. Karen Hjartardóttir

Sr. Karen Hjartardóttir ráðin

05. maí 2025
...í Setbergsprestakall
Screenshot 2025-05-01 at 16.03.32.png - mynd

Ályktanir presta- djáknastefnu 2025

01. maí 2025
Þrjár ályktanir voru samþykktar af presta- og djáknastefnu. Þær má sjá hér.