Viðtalið: Hann Elli

19. ágúst 2021

Viðtalið: Hann Elli

„Pastor“ Halldór Elías Guðmundsson fyrir utan kirkjuna sem hann þjónar, Church of the Redeemer (Kirkja lausnarans)

Kirkjan.is rak augun í það fyrir nokkur að Halldór Elías Guðmundsson, djákni, hefði verið ráðinn til að þjóna við söfnuð nokkurn í úthverfinu Cleveland Heigths í Ohio í Bandaríkjunum. Þetta er lítill söfnuður og um hálft starf að ræða.

Kirkjustarf á þessum slóðum er mjög fjölskrúðugt og söfnuðir af ýmsum toga svo ekki sé meira sagt. Það er tæpast hægt að bera það saman við hefðbundið kirkjustarf sem tíðkast hér á landi.

Halldór Elías er mörgum kunnur hér heima og hefur víðtæka reynslu af starfi í kirkjum og með kristilegum samtökum. Allir þekkja hann „Ella“. Þess vegna þótti kirkjunni.is forvitnilegt að heyra í honum á þessum tímamótum í lífi hans þar ytra.

„Þetta hentaði mér vel þar sem ég sinni mörgum verkefnum á Íslandi,“ segir Halldór Elías þegar kirkjan.is spyr hann út í málið, „ég vinn meðal annars fyrir Hið íslenska biblíufélag, KFUM & KFUK og Amen.is.“

Söfnuðurinn sem Halldór Elías hefur verið kallaður til að þjóna heitir Church of the Redeemer (Kirkja lausnarans). „Þetta er fámennur söfnuður, um hundrað manns,“ segir Halldór Elías, „og í honum er alls konar fólk: húsverðir, læknar og prófessorar, stjórnendur í stórfyrirtækjum og öryrkjar. Starfsfólk í verksmiðjum og listafólk, samkynhneigð pör, einstæðar mæður og ellilífeyrisþegar. Rétt um helmingur safnaðarins er af evrópskum uppruna, önnur af afrískum eða karabískum uppruna.“ Ásamt Halldóri Elíasi starfa í söfnuðinum skrifstofustjóri í hálfu starfi og tónlistarstjóri. Hann segir að nær allir safnaðarmeðlimir séu virkir í söfnuðinum.

Hvernig þá? spyr kirkjan.is.

„Það mæta nokkur og þrífa húsið í hverri viku, mánaðarlega eru smurðar samlokur og farið með í tjaldbúðir heimilislausra,“ segir Halldór Elías og bætir við að boðið sé upp á tvo Biblíulestra í viku og auk þess sé starfandi bókaklúbbur hálfsmánaðarlega. Þá sé tónlistarlífið hjá þeim öflugt, bæði bjöllukór og hefðbundinn kór. Hann segir að söfnuðurinn hafi allt frá 1995 verið mjög virkur í réttindabaráttu samkynhneigðra.

Halldór Elías hefur embættisgengi í ameríska kirknasambandinu The United Church of Christ (Hin sameinaða kirkja Krists). „Þetta kirknasamband á sér langa sögu og hefur löngum verið í fararbroddi fyrir réttindum öllum til handa,“ segir Halldór Elías. Hann segir að fyrsta konan hafi verið vígð til þjónustu í kirkju sem seinna varð hluti af þessu kirknasambandi 1853 og innan þess hafi fyrsti opinberlega samkynhneigði presturinn verið vígður 1972. „Prestar sem tilheyrðu kirkjum sem seinna gengu í kirknasambandið voru auk þess áberandi í baráttunni gegn þrælahaldi og komu að stofnun fyrstu háskólanna í Bandaríkjunum,“ segir Halldór og bætir því við það sé rétt tæplega 1 milljón meðlima í kirknasambandinu The United Church of Christ (Hin sameinaða kirkja Krists) í dag. Mikill meirihluti þeirra sé af evrópskum uppruna.

Söfnuður Halldórs Elíasar, Church of the Redeemer (Kirkja lausnarans) er hins vegar hluti af kirkju meþódista sem á rætur að rekja aftur til miðrar 18. aldar. Meþódistar eru öflug kirkjuhreyfing og innan vébanda hennar eru á heimsvísu tólf milljónir manna. Þeir eru þriðja stærsta kirkjudeildin í Bandaríkjunum. Halldór Elías segir að Hjálpræðisherinn sé sprottinn af rót meþódista.

Hann Elli
Halldór Elías (f. 1973) hóf störf í sumarbúðunum í Vatnaskógi 1991. Hann lauk BA-djáknanámi 1997 og fékk djáknavígslu sama ár til þjónustu hjá Æskulýðssambandi kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum. Allar götur síðan hefur hann sinnt fjölbreyttum verkefnum fyrir kirkjuna og frjáls félagasamtök. Hann var framkvæmdastjóri Grensáskirkju um nokkurra ára skeið og hefur reglubundið unnið að leiðtogaþjálfun og æskulýðsmálum fyrir KFUM og KFUK.

Halldór lauk meistaranámi í leikmannaþjónustu (lay ministry) frá Trinity Lutheran Seminary 2008 og rannsóknarnámi (STM) með áherslu á árangursmat í kirkjustarfi frá sama skóla 2010. Halldór Elías hefur komið að æskulýðsstarfi og fræðslumálum í fjölmörgum söfnuðum í þremur þjóðlöndum á síðustu þremur áratugum og frá hans hendi hefur komið mikið af fjölbreytilegu fræðsluefni. Á síðustu árum hefur hann horft til vef- og samfélagsmiðla fyrir fræðslu og boðun félagasamtaka og kirkna.

Það er nóg að gera hjá „pastor“ Halldór Elías eins og hann er kallaður á heimasíðu kirkju sinnar.

„Vikuleg prédikunarskrif hafa verið meira spennandi en ég átti von á,“ segir hann glaðhlakkalegur, „helgihaldið er fjölbreytt og er í spennandi gerjun. Við glímum við að senda beint út til þeirra sem treysta sér ekki til kirkju og erum að hugsa hvernig við getum nýtt samfélagsmiðla og vefinn til að halda tengslum.“

Þá segist hann vera að ýta úr vör vikulegum Biblíulestrum fyrir fullorðna um Markúsarguðspjall. „Þeir byggja á efni sem ég útbjó fyrir fermingarfræðslu á Íslandi og við leitum nýrra leiða til að halda starfinu gangandi í gegnum COVID-bylgjuna sem er að ganga yfir núna.“

Halldór Elías hefur búið með hléum í ríflega fimmtán ár í Bandaríkjunum, síðustu átta árin í Shaker Heights, Ohio. Eiginkona hans er dr. Jenný Brynjarsdóttir prófessor, í tölfræði við Case Western Reserve Háskólann í Cleveland, og eiga þau tvö börn, Tómas, framhaldsskólanema, og Önnu Laufeyju, doktorsnema við The Ohio State University.

Kirkjan.is þakkar „pastor“ Halldór Elías kærlega fyrir samtalið og óskar honum góðs gengis.

hsh


Church of the Redeemer (Kirkja lausnarans): Kirkjan er falleg og umhverfi hennar hlýlegt


  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju