Fermingarfræðslan

22. ágúst 2021

Fermingarfræðslan

Í fermingarfræðslunni eru sögur úr Biblíunni í öndvegi - mynd eftir Albert Thorvaldsen (1770-1844) - gifsmynd í Akraneskirkju: Í Emmaus - Lúkasarguðspjall 24. 13-35. Mynd: hsh

Þetta er sá tími sem fermingarfræðslan fer af stað í flestum söfnuðum landsins. Fræðslan er mikilvægur liður í öllu safnaðarstarfi og er leitast við að hún sé skilmerkileg, uppbyggileg, skemmtileg og eftirminnileg. En kjarninn í allri fræðslunni snýst að sjálfsögðu um fagnaðarerindi kristinnar trúar. Í fræðslustarfinu er reynt að fara ýmsar leiðir til að koma því til skila til fermingarbarnanna. Fermingarstarfið er því afar fjölbreytilegt.

Kirkjan.is hafði samband við nokkra presta og spurði þá út í fermingarfræðsluna. Það sem hér fer á eftir er almenn samantekt úr svörum þeirra. Svör þeirra sýndu áhugasama fræðara og umhyggjusama. Þeim er öllum mikið kappsmál að inna þessa mikilvægu fræðslu vel og fagmannlega af hendi.

Allir eru þeir vongóðir um að kórónuveiran trufli starfið ekki eins mikið og í fyrra en eru þó viðbúnir öllu. Síðasta ár kenndi þeim hvernig bregðast skyldi við fordæmalausum aðstæðum og því voru víða farnar nýjar leiðir í fermingarfræðslu eins og í gegnum fjarbúnað. En ekkert kemur að sjálfsögðu í stað þess að hitta fermingarbörnin í eigin persónu.

Í ljós kom að víðast hvar eru farnar svipaðar leiðir í fermingarfræðslunni. Fyrirkomulagið er ýmist námskeiðahald; sumir kjósa sumarnámskeið en aðrir haustnámskeið. Annars staðar koma börnin vikulega í kirkjuna í fermingartíma – eða það er tekinn fræðslusprettur. Í stærri prestaköllum úti á landsbyggðinni reynir á skipulagsfærni og í einu þeirra verður boðið upp á fjóra fermingarfræðsluhópa með mismunandi fræðslustefjum.

Þegar prestarnir voru spurðir hvernig þeir hefðu samband við fermingarbörnin kom í ljós að langflestir senda fermingarárganginum í sínu prestakalli bréf og kynna ferminguna og starfið fram undan. Dæmi er um að kynningarbæklingar séu sendir til barnanna. Nokkrir senda tölvupóst. Sumir prestar auglýsa að auki í blöðum, héraðsblöðum og hverfisblöðum, og á samfélagsmiðlum. Þá er auglýst á heimasíðum safnaðanna og Feisbókasíðum þeirra. Auglýsingar eru til dæmis mjög áberandi á Feisbók. Sumir nota líka Instagram. Aðrir stofna jafnvel Feisbókarhóp fermingarstarfsins. Þá útbjó einn söfnuður talglærur þar sem farið var yfir fyrirkomulag fermingarfræðslunnar. Úti á landsbyggðinni fá margir prestar að fara í skólana og tala þá beint við börnin. Það kom fram í svörum að boðleiðir eru jafnan styttri til sveita sem og í þorpum og bæjum úti á landsbyggðinni. 

Það er ánægjulegt að segja frá því að fræðsluefnið sem söfnuðir bjóða upp á er mjög fjölbreytilegt. Námsbækur, Con Dios, leikir, hópstarf, biblíusögufræðsla, Alfa-myndbönd ætluð unglingum, Kirkjulykilinn, heimatilbúið efni. Sumir kenna börnunum að fletta upp í Nýja testamentinu; farið er í spurningakeppni, haldið í stuttar ferðir og margt fleira. Á einum stað mótast fermingarfræðslan af svokölluðu Family ministry þar sem áhersla er lögð á sameiginlega fræðslu forráðamanna og barna með verkefnum, samverum og fyrirlestrum. Þá eru umræðufundir og erindi um eitt og annað sem snertir unglingamenningu. Sumir söfnuðir kalla þá til gestafyrirlesara.

Þátttaka
Allir leitast við að láta börnin taka þátt í helgihaldi og starfinu með ýmsum hætti. Sums staðar eru börnin mjög virkir þátttakendur í barna- og æskulýðsstarfinu. Þá hafa foreldrar fermingarbarna verið virkjaðir og þeir tekið þátt í fræðslu- og samverustundum, snætt saman og haft helgihald um hönd. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir höfðu reyndar áhrif á þennan síðarnefnda þátt í fyrra. Á einum stað er fermingarbörnum boðið upp á svokallaða óskamessu en þá geta þau lagt fram óskir sínar um tónlist, ræðumann og veitingar í messukaffinu.

Flestir prestanna höfðu það á tilfinningunni að fjöldi fermingarbarna þetta misserið væri svipaður og undanfarin ár. Sumir sögðu reyndar börnin vera fleiri en aðrir færri. Margir söfnuðir gefa kost á því að fermingardagurinn sé valinn strax að hausti.

Margir reyna að tengja fermingarfræðsluna við náms- og skemmtiferð og næturgistingu á staði eins og Vatnaskóg, Kirkjumiðstöðina á Eiðum og Hólavatn.

Niðurstaðan úr svörum prestanna sýnir að fermingarstarfið er vandað og fjölbreytilegt. Prestarnir áhugasamir um starfið, hefðbundnir en horfa jafnframt til nýjunga í fræðslunni. Það getur ekki verið betra. Ljóst er að starf þjóðkirkjunnar á þessum vettvangi er til fyrirmyndar, sinnt af ábyrgð og kærleika.

hsh


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju