Sr. Þorvaldur ráðinn

25. ágúst 2021

Sr. Þorvaldur ráðinn

Sr. Þorvaldur Víðisson, nýr prestur í Fossvogsprestakalli

Umsóknarfrestur um Fossvogsprestakall, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, rann út 29. júní s.l.

Biskup Íslands auglýsti eftir presti til þjónustu og miðað var við að viðkomandi hæfi störf þann 1. september næstkomandi.

Kjörnefnd kaus sr. Þorvald Víðisson, biskupsritara, til starfans og hefur settur biskup Íslands í þessu máli, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, staðfest ráðningu hans.

Nýi presturinn
Sr. Þorvaldur Víðisson er fæddur í Reykjavík 1973, sonur hjónanna Jóhönnu Ásdísar Þorvaldsdóttur, sérkennara og Vilmundar Víðis Sigurðssonar, stýrimanns og kennara.

Sr. Þorvaldur ólst upp í Vesturbæ Kópavogs, var skiptinemi í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum 1990-1991 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 1994. Hann lagði stund á píanónám í Tónlistarskóla Kópavogs og æfði knattspyrnu með Breiðabliki upp alla flokka.

Árið 2001 lauk Þorvaldur kandídatsprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og starfaði sem æskulýðsfulltrúi Dómkirkjunnar til ársins 2002. Það ár vígðist hann til Landakirkju í Vestmannaeyjum þar sem hann starfaði í fjögur ár. Frá 2006-2010 starfaði hann sem miðborgarprestur Dómkirkjunnar. Árið 2011 leysti hann af í Neskirkju til skamms tíma áður en hann flutti með fjölskyldu sína til Noregs þar sem hann starfaði sem sóknarprestur hjá norsku kirkjunni á Hitra í Þrændalögum á árunum 2011 og 2012. 

Frá árinu 2012 hefur sr. Þorvaldur starfað sem biskupsritari. 

Þá lauk hann námi í Sáttamiðlaraskólanum fyrr á þessu ári.

Sr. Þorvaldur hefur þýtt tvær bækur sem Skálholtsútgáfan hefur gefið út, annars vegar Hvað er Biblían, hvernig ævaforn ljóð, bréf og sögur, geta gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður, eftir Rob Bell og hins vegar Sanntrúaði villutrúarmaðurinn og aðrar torræðar sögur, eftir Peter Rollins.

Eiginkona sr. Þorvaldar er Sólveig Huld Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi í málefnum fatlaðra hjá Kópavogsbæ og eiga þau þrjú börn.

Prestakallið
Fossvogsprestakall er myndað af tveimur sóknum, Bústaða- og Grensássókn. Í prestakallinu búa um 14.800 einstaklingar og tilheyra um 62% þeirra þjóðkirkjunni og skiptist u.þ.b. jafnt á milli sóknanna. Tvær kirkjur eru í prestakallinu, Bústaðakirkja og Grensáskirkja með myndarlegum safnaðarheimilum sem bjóða upp á góða starfsaðstöðu fyrir presta, starfsfólk og söfnuðinn.

Við prestakallið þjóna þrír prestar ásamt tveimur djáknum, organistum, kirkjukórum, messuþjónum og framkvæmdastjóra sem starfar með báðum kirkjum.

Nýráðinn prestur verður einn þriggja presta sem munu skipta hlutverki sóknarprests á milli sín og er miðað við að skipt verði á tveggja ára fresti. Nýi presturinn mun leiða starfið fyrstu tvö árin og þá verður skipt, eftir nánara skipulagi sem unnið er í samráði við prófast. Presturinn mun hafa aðstöðu í Bústaðakirkju.

Starfinu geta fylgt viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Ofangreind þjónusta var auglýst með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju