Doktor Bill

31. ágúst 2021

Doktor Bill

Dr. Bill Anderson, prófessor - mynd: hsh

Svo sannarlega eru ferðamenn farnir að láta sjá sig í auknum mæli á landinu og ferðaþjónustan fagnar því – og þjóðarbúið hefur hag af þeim. Þeir koma víða að. Sagt er að Bandaríkjamenn séu fjölmennastir í þeim hópi.

Einn þeirra er dr. Bill Anderson og hann varð á vegi kirkjunnar.is - og aldeilis óvænt. Vingjarnlegur maður og brosmildur.

Hann hafði frá mörgu að segja sem tengist trú og kirkju. Er amerískur prófessor í hversdagsmenningu (pop culture) og trúarbragðafræðum við listadeild Concordia háskólans í Edmonton í Kanada. Hann er fjölmenntaður maður: gamlatestamentisfræðingur, sérfræðingur í spekibókmenntum; heimspekingur og . túlkunarfræðingur. Reyndar líka vígður lútherskur prestur, og á leið í frí til Þýskalands.

Kirkjan.is hitti dr. Bill eftir guðsþjónustu á sunnudaginn og þá kom ekki bara í ljós að hann er stórskemmtilegur í samtali heldur er hann líka týpa eins og sagt er. Ekki þó hversdagslega týpan. Ogmeð óvenjulega og kolsvarta listaspírulega gleraugnaumgjörð. Bersköllóttur og með lokka í báðum eyrum – svartklæddur. Ekki beint hin sígilda guðfræðiprófessorsímynd.

Hann talaði af innlifun og eldmóði.

Hvers vegna hér á ferð? Þekkti engan hér en hafði frá því í menntaskóla alltaf löngun til að koma við í túnfætinum á leið frá Ameríku og nú gafst tækifæri. Stórhrifinn af landinu, hvað annað? Að minnsta kosta af því sem hann var búinn að sjá. Hefur aðeins séð gosið á skjá og kannski ekki þesslegur til að ganga að því. En hver veit.

„Féll algjörlega fyrir kirkjunum ykkar,“ segir dr. Bill Anderson og augun ljóma bak við kolsvarta gleraugnaumgjörðina sem kallast á við breiðstræti amerískra stórborga. „Arkitektúrinn dásamlegur.“

Dr. Bill segir almenna hversdagsmenningu brjótast hvað mest fram á samfélagsmiðlum um þessar mundir. Þar er í raun hver og einn burðarmaður þessarar menningar með sínu sniði. Hann segir að margt í hversdagsmenningu hafi trúarlega snertifleti sem komi fram í textum, myndum og hljóði; hrifnæmi, og í sumum tilvikum tengslum sem myndast milli fólks og einhvers tiltekins atriðis í hversdagsmenningunni; að sjálfsögðu afguðir (skurðgoð) á máli hefðbundinna trúarbragða. En menningarflóð nútímans, bæði í afkimum sem og á hinum breiða vettvangi hversdagsins, fer sínu fram.

En hvað er hversdagsmenning samkvæmt skilgreiningu hans?
„Það er gríðarlega umfangsmikið fyrirbæri,“ segir dr. Bill, „allt internetið, kvikmyndir, sjónvarp, myndbönd, teknó-tónlist, instagram og twitter, íþróttir, stjórnmál, fréttir, tíska, tækni – svo nokkuð sé nefnt.“ Hann segir að þessi menning hafi verið mjög kraftmikil og haft áhrif á hugsun nútímamanna – nánast soðið hana niður í dós. Málfar þessarar menningar er allsráðandi og hún er eins og meginstraumur við hliðina á öllu því sem telst vera venjulegt. Menningin gangi kaupum og sölum eins og svo sem flest menning. Menningin setur svip sinn á allt og fólk fær á tilfinninguna að það tilheyri sama hópnum vegna þess að það sé hrifið af sama dægurlagasöngvaranum og gangi í samskonar skóm og hann.

„Þarna er fólkið,“ segir hann, „og þetta er sá vettvangur þar sem kirkjurnar eiga að láta að sér kveða og vera algjörlega ófeimnar við það.“

Margir söfnuðir hafa verið ótrauðir við að feta nýjar slóðir og tekið margt upp á arma sína sem telst til hversdagsmenningar. Reynt að koma kristnum svip eða gildum á það. Gengið til liðs við meginstrauminn og gætt sín á að kristin gildi séu ekki yfirtekin eða útþynnt. Slíkt tekst stundum vel og stundum miður.

Kirkjustarfið upp á hina eldri vísu verður alltaf til segir hann, en það er lágmarksstarf þar sem oftast jaðrar við að kirkjurnar séu tómar. „Kirkjan þarf að spyrja: hvar er fólkið?“ segir dr. Bill ákafur, „og fara þangað þar sem það er.“ Hversdagsmenningin á stóran þátt í því að kirkjurnar eru illa sóttar. Þetta gerir kröfur til annars konar boðunaraðferðar en hinnar hefðbundu sem kemur fram í prédikunum og aldagamalla helgilistfræði.

„Prédikunin er í líka í öngstræti,“ segir dr. Bill, „fólkið er almennt vel menntað og hefur aðgang að alfræðibókasafni þar sem er netið og því þarf ekki langar ræður út frá guðspjöllum og öðrum textum í athöfnum á borð við guðsþjónustur.“ Prédikarar eru sjaldan að flytja eitthvað nýtt, þeir móraliséra kannski í vandræðum sínum, og finna sig á vissan hátt sem beiningamenn um athyglina á breiðstrætum hversdagsmenningar nútímans. Nú sækir hver það sem hann vill. Gamla kirkjusamfélagið er á vissan hátt kirkjuforsjársamfélag þar sem allt er niður njörvað eftir því sem kallast kirkjuár. Sumir finni sig í því en þorri fólks leiti að öðru. Kirkjan verði að skyggnast eftir fólkinu.

Já, dr. Bill er mikið niðri fyrir og hefur sterkar skoðanir á mörgu. Flugmælskur myndi einhver segja. En hann fór yfir sviðið hratt og örugglega, ekki í fyrsta sinn sem hann ræðir um sín fræði af miklum eldmóði. 

Kirkjan.is hafði ánægju að því að spjalla við hann þó stutt væri. Kvaddi dr. Bill Anderson og óskaði honum góðrar ferðar.

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir á biskupssofu

Fyrsti vinnudagurinn annasamur

01. júl. 2024
...hjá nýjum biskupi Íslands
For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið