Nýjung í kirkjustarfi

3. september 2021

Nýjung í kirkjustarfi

Sóley Adda og Kristján Ágúst í Grensáskirkju - mynd: hsh

Í öllu kirkjustarfi er mikilvægt að vera opin fyrir nýjungum. Fara af stað með það sem talið er líklegt að efli kirkjustarfið og geri það aðlaðandi í augum sem flestra aldurshópa.

Í Grensáskirkju í Fossvogsprestakalli er lifandi fólk og áhugasamt að störfum. Þar er líka aðstaða mjög góð fyrir hvers kyns safnaðarstarf.

Sóley Adda er æskulýðsfulltrúi og starfsstöð hennar er Grensáskirkja. Hún fékk þá hugmynd að hrinda af stað Ungu kirkjunni – 16+.

„Ég þekki marga krakka sem geta vel hugsað sér að taka þátt í kirkjulegu starfi með öðrum hætti en sem er hefðbundinn,“ segir hún ögn feimin þegar kirkjan.is ræðir við hana og Kristján Ágúst Kjartansson, framkvæmdastjóra ÆSKR. „Þetta eru krakkar sem tekið hafa þátt í kristilegu starfi og mörg þeirra hafa verið í leiðtogskólanum.“ Hún segir að það vanti samveruvettvang fyrir þennan hóp og þetta sé tilraun til að búa hann til.

Mikilvægur vettvangur
Það kemur fram hjá þeim báðum að það er mikilvægt að hafa vettvang fyrir þennan aldurshóp sem er tengdur kirkjunni með ýmsum hætti og vill starfa í henni. Þetta er ungt fólk og samskiptamynstur þess er með öðrum hætti en þeirra eldri. Hversu gott sem hefðbundið safnaðarstarf annars er þá eru flest í þessum aldurshópi ekki að fíla það – svo töluð sé nú íslenska! – með fullri virðingu fyrir því. Hugsunarferill þeirra er annar, rammi samskiptanna og hugmyndanna annar, og frelsistilfinning þeirra miðast við jafnaldrahópinn og hann vilja þau rækta.

Þessari hugmynd skaut upp: að bjóða þeim í kirkjuna á þeirra eigin forsendum. Þau koma um miðjan dag og undirbúa sjálf það sem verður gert. Það er ekki eins og þau gangi inn í dagskrá sem aðrir hafa samið og þeim réttur pizzakassi yfir borðið heldur verður dagskráin í þeirra eigin höndum. Samhristingur, eins og það heitir, er aðferð til að þétta hópinn, ásamt leikjum og vinnu, matartilbúningi, og svo sjálfri samverunni. Helgistund er að sjálfsögðu hluti af þessu og hana undirbúa þau með umsjónarfólkinu. Þau geta verið í kirkjunni allt að ganga í tíu. „Þetta er nýtt, að leyfa þeim að vera svo lengi í kirkjunni, og slaka bara á,“ segir Kristján Ágúst.

Sóley Adda stendur nálægt þessum hópi í aldri sem Unga kirkjan – 16+ kallar á og er því lykilmanneskjan þegar hópurinn kemur saman. Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir verður sömuleiðis með þeim Kristjáni Ágústi og Sóleyju Öddu í þessari sprotasamveru en hún er alvön barna- og unglingastarfi.

„Kirkjan verður nánast eins og félagsmiðstöð,“ segir Sóley Adda full tilhlökkunar.

Grensáskirkja óskaði eftir samstarfi við ÆSKR um þetta verkefni og við því var orðið fúslega. Kirkjan bauðst til að leggja fram aðstöðu og æskulýðsfulltrúa en ÆSKR veitir aðstoð með margvíslegum hætti. 

Unga kirkjan -16+ er ekki bara bundin við Fossvogsprestakall heldur er hún öllum opin. Sóley Adda er búin að undirstinga góðan hóp og margir hafa lýst áhuga á því að koma. En mæting er frjáls, þau mega koma þegar þau vilja.

„Von okkar er sú að þessi hópur vaxi og geti smám saman haldið sjálfur alveg utan um þetta og jafnvel skipt sér upp í minni hópa sem hafa ákveðin hlutverk,“ segir Kristján Ágúst. „Einn myndi sjá um mat, annar um tónlist o.s.frv.“.

Og hvenær á að byrja?
„Sunnudaginn 5. september,“ segja þau einum kór, „og temað verður mexikanskt,“ bæta þau við sposk á svip. Það verður eitthvað!

Nú er bara að sjá hvernig fer. Kirkjan.is fylgist spennt með og óskar þeim góðs gengis.

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir á biskupssofu

Fyrsti vinnudagurinn annasamur

01. júl. 2024
...hjá nýjum biskupi Íslands
For hope and future.jpg - mynd

Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins gríðarlega mikilvægt

01. júl. 2024
...varaforseti skrifar um hjálparstarfið