Lifnar yfir kirkjunum

6. september 2021

Lifnar yfir kirkjunum

Líf og fjör í Guðríðarkirkju í Grafarholti - Ásta Guðrún Guðmundsdóttir og sr. Pétur Ragnhildarson - mynd: hsh

Barnastarf þjóðkirkjunnar fór víða af stað í gær. Heilsíðu auglýsing var um daginn í blöðunum þar sem barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar á stórhöfuðborgarsvæðinu var auglýst. Hefðbundið barnastarf lá meira og minna niðri í kórónuveiruástandinu.

Kirkjan.is brá sér í Guðríðarkirkju í Grafarholti  í gærmorgun. Auglýst var fjölskylduguðsþjónusta, sú fyrsta þetta haust, létt og fjörug. Brúðan Viktoría hafði boðað komu sína og svo átti að bjóða öllum í pylsugrill í lok guðþjónustunnar.

Þetta var notaleg stund sem sr. Pétur Ragnhildarson, æskulýðsprestur, stjórnaði ásamt Ástu Guðrúnu Guðmundsdóttur, leiðtoga í sunnudagaskólanum. Ásbjörg Jónsdóttir og Gyða Margrét eru barnakórsstjórnendur og fluttu tónlist – og var Gyða Margrét við flygilinn. Nýi sóknarpresturinn, sr. Leifur Ragnar Jónsson var að sjálfsögðu mættur og vakti yfir öllu. Síðastliðinn sunnudag var sr. Karl V. Matthíasson kvaddur sem sóknarprestur en hann hefur verið tengdur Guðríðarkirkju allt frá árinu 2009.

Stundin var uppbyggileg og skemmtileg. Fjörugur söngur, úrval úr vinsælustu sunnudagaskólalögunum tekið, brúðan Viktoría kom í heimsókn. Það var flottur brúðuleikur og gott samtal milli sr. Péturs og Viktoríu og höfðu ungir sem aldnir gaman af því. Biblíusagan um týnda sauðinn leikin og sögð og var ekki annað að sjá en börnin næðu þræði hennar. Stundinni lauk með drottinlegri blessun eins og lög gera ráð fyrir. Og útgönguspil fylgdi, sunginn sálmurinn Í bljúgri bæn.

Rými Guðríðarkirkju er einstaklega bjart og stílhreint. Já, og fallegt. Það var gaman að sjá litlu börnin, svona á að giska tveggja til þriggja ára spranga um kirkjuna og taka þátt í athöfninni með sínum hætti. Þau venjast kirkjunni og umhverfi hennar. Finna öryggið og frelsið. Önnur börn sátu að sjálfsögðu prúð í bekkjunum og tóku þátt í stundinni.

Það var létt yfir prestunum þegar kirkjan.is ræddi við þá eftir stundina. Þeir voru ánægðir með að starfið væri að fara af stað. Snoturt haustfréttabréf Guðríðarkirkju er nýkomið út og í því er rakið starfið sem er framundan. Það er fjölbreytilegt. Kórastarf, barnastarf, unglingastarf, og starf fyrir eldri borgara. Einnig starf fyrir 5. – 7. bekk sem kallast Litróf. Sr. Pétur sagði að það myndi taka smátíma að starfið færi í svipað horf og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Fermingarbörnin eru rúmlega hundrað að sögn sr. Leifs en skráningu þeirra er ekki lokið. Sagði hann árganginn 2008 vera óvenju stóran. Þau fá svokallaða Helgihaldsbók fermingarstarfsins og í hana er stimplað til staðfestingar á því að þau hafi sótt helgihald í sóknarkirkjunni. Í Grafarholtssókn búa nær níu þúsund manns og eru rúmlega fimm þúsund þeirra skráðir í þjóðkirkjuna.

Lovísa Guðmundsdóttir, kirkjuvörður, sá um grillið og stóð við það galvösk þegar út var komið. Pylsurnar eru alltaf jafn vinsælar og þær ruku út. Lovísa var með kolagrill og sagði að það væri miklu betra en gasgrill. Það sást greinilega því að pylsurnar grilluðust mjög fljótt miðað við reynslu tíðindamanns af því að grilla pylsur á gasgrilli.

Þess má geta í lokin að heimasíða Guðríðarkirkju er til mikillar fyrirmyndar. Hún er vel upp sett, skýr og aðgengileg, og með uppfærðum upplýsingum. Mjög gagnleg sóknarbörnunum. Góð heimasíða er gulli betri.

hsh


Prestarnir kynntu starfið sem er framundan - sr. Pétur  og sr. Leifur Ragnar


Sr. Pétur var lipur og hress í hreyfisöngvunum


Gyða Margrét og Ásbjörg Jónsdottir 


Fermingarbarn heldur á Helgihaldsbók




  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju