Söfnuðir og grænu málin

11. september 2021

Söfnuðir og grænu málin

Umhverfisstarf safnaða - birkiplöntur gróðursettar i landi Mosfells

Í vikunni var haldið örþing grænna safnaða í safnaðarheimili Lágafellsóknar í Mosfellsbæ.

Að sögn sr. Halldórs Reynissonar, verkefnisstjóra á Biskupsstofu, gekk örþingið vel og var hið athyglisverðasta. Rúmlega tuttugu manns sóttu þingið.

Alls eru fimmtán söfnuðir á grænni leið og hafa fengið viðurkenningu fyrir það. Fjórir söfnuðir hafa farið skrefinu lengra og teljast grænir söfnuðir.

Hvað er grænn söfnuður?

Hvað þýðir að vera á grænni leið?
Til að hljóta viðurkenninguna kirkja á grænni leið þurfa söfnuðir að uppfylla a.m.k. átta atriði af fjörutíu á gátlista umhverfisstarfs þjóðkirkjunnar sem ber heitið Græni söfnuðurinn okkar.

Á málþinginu bar ýmislegt á góma. Fulltrúar safnaðanna báru saman bækur sínar um grænt starf í söfnuðum en af nógu er að taka þegar að því kemur. Rætt var um að minnka pappírsnotkun með því að nota myndvarpa til að varpa sálmaskrám á vegg kirkjunnar í stað þess að prenta þær eða ljósrita. Fram kom að einn söfnuður notar bara Svansvottuð kerti en ekki paraffínkerti sem eru unnin úr jarðefnaeldsneyti. Þá tók einn söfnuður upp á því að gefa öllum kirkjugestum trjáplöntu við messu og sumir söfnuðir hafa gróðursett tré sem mótvægi gegn óhóflegum kolefnisfótsporum.

Sagt var frá umhverfisverkefnum á vegum þjóðkirkjunnar eins og aðgerðaráætlun á þrjátíu kirkjujörðum, sem felst í skógrækt, endurheimt votlendis og landgræðslu. Enn fremur möguleikum sem eru að skapast í Skálholti fyrir söfnuði eða hópa að „helga sér land“, þ.e. að taka landskika í fóstur til gróðursetningar.

Í lok málþingsins var haldið upp að Mosfelli í Mosfellsdal þar sem hluti þátttakenda gróðursetti fjörutíu birkiplöntur, Emblu, sem táknræna aðgerð í umhverfisstarfi.

hsh
  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju