Söfnuðir og grænu málin

11. september 2021

Söfnuðir og grænu málin

Umhverfisstarf safnaða - birkiplöntur gróðursettar i landi Mosfells

Í vikunni var haldið örþing grænna safnaða í safnaðarheimili Lágafellsóknar í Mosfellsbæ.

Að sögn sr. Halldórs Reynissonar, verkefnisstjóra á Biskupsstofu, gekk örþingið vel og var hið athyglisverðasta. Rúmlega tuttugu manns sóttu þingið.

Alls eru fimmtán söfnuðir á grænni leið og hafa fengið viðurkenningu fyrir það. Fjórir söfnuðir hafa farið skrefinu lengra og teljast grænir söfnuðir.

Hvað er grænn söfnuður?

Hvað þýðir að vera á grænni leið?
Til að hljóta viðurkenninguna kirkja á grænni leið þurfa söfnuðir að uppfylla a.m.k. átta atriði af fjörutíu á gátlista umhverfisstarfs þjóðkirkjunnar sem ber heitið Græni söfnuðurinn okkar.

Á málþinginu bar ýmislegt á góma. Fulltrúar safnaðanna báru saman bækur sínar um grænt starf í söfnuðum en af nógu er að taka þegar að því kemur. Rætt var um að minnka pappírsnotkun með því að nota myndvarpa til að varpa sálmaskrám á vegg kirkjunnar í stað þess að prenta þær eða ljósrita. Fram kom að einn söfnuður notar bara Svansvottuð kerti en ekki paraffínkerti sem eru unnin úr jarðefnaeldsneyti. Þá tók einn söfnuður upp á því að gefa öllum kirkjugestum trjáplöntu við messu og sumir söfnuðir hafa gróðursett tré sem mótvægi gegn óhóflegum kolefnisfótsporum.

Sagt var frá umhverfisverkefnum á vegum þjóðkirkjunnar eins og aðgerðaráætlun á þrjátíu kirkjujörðum, sem felst í skógrækt, endurheimt votlendis og landgræðslu. Enn fremur möguleikum sem eru að skapast í Skálholti fyrir söfnuði eða hópa að „helga sér land“, þ.e. að taka landskika í fóstur til gróðursetningar.

Í lok málþingsins var haldið upp að Mosfelli í Mosfellsdal þar sem hluti þátttakenda gróðursetti fjörutíu birkiplöntur, Emblu, sem táknræna aðgerð í umhverfisstarfi.

hsh
  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Viðburður

  • Frétt

Logo.jpg - mynd

Laust starf

21. nóv. 2025
... starf prests við Borgarfjarðarprestakall í Vesturlandsprófastsdæmi með sérstakar skyldur við prófastsdæmið
Sigurður flosa.jpg - mynd

Sigurður Flosason söngmálastjóri

18. nóv. 2025
Biskup Íslands hefur valið Sigurð Flosason tónlistarmann, tónskáld og tónlistarkennara í starf söngmálastjóra.
Tónleikar.png - mynd

Kristnir flóttamenn frá NAGORNO KARABAKH

12. nóv. 2025
STYRKTARTÓNLEIKAR fimmtudaginn 13. nóvember kl. 19:30 - 21:30 í Dómkirkjunni