Mannabreytingar

20. september 2021

Mannabreytingar

Glerárkirkja - mynd: Stefanía Steinsdóttir

Kirkjan.is frétti fyrir nokkru af mannabreytingum í kirkjustarfi fyrir norðan sem snerta Glerárprestakall og Möðruvelli í Dalvíkurprestakalli en um þær mátti lesa á heimasíðu fyrrnefnda prestakallsins og Facebókarsíðu þess síðarnefnda. Af þessu tilefni sló kirkjan.is á þráðinn til sr. Sindra Geirs Óskarssonar, sóknarprests í Glerárprestakalli.

„Breytingin er mjög skyndileg og þessi ákvörðun var tekin fyrir rúmri viku,“ segir sr. Sindri Geir. „Við höfum búið við nokkurn prestakort hér á Akureyrarsvæðinu vegna veikinda og barnsburðarleyfis og til að bregðast við þeim aðstæðum bað sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prestinn okkar í Glerárkirkju, hana sr. Stefaníu Steinsdóttur að færa sig tímabundið um set og leysa sr. Hildi Eir Bolladóttur af í Akureyrarkirkju.“

Sr. Sindri Geir segir að til hafi staðið að sr. Hildur Eir kæmi til starfa í september en svo verður ekki. Sr. Hildur Eir hefur glímt við krabbamein og hefur sýnt ótrúlega seiglu og styrk í þeirri baráttu. Hún hefur rætt opinberalega um veikindi sín og fyrir nokkru hljóp hún tíu kílómetra milli lyfjagjafa til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og ræddi Morgunblaðið við hana af því tilefni.

Sr. Jóhanna Gísladóttir, prestur, er í barnsburðarleyfi en hún þjónar Eyjafirði og Akureyrarkirkju.

En sr. Sindri Geir mun ekki standa einn vaktina í Glerárprestakalli. Sr. Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur á Möðruvöllum, mun þjóna i Glerárkirkju til áramóta. „Hann mun líka sinna sínu prestakalli og ég með honum,“ segir sr. Sindri Geir og bætir því við að fram að áramótum sé Glerársókn og suðurendi Dalvíkurprestakalls því samstarfseining.

„Við deilum guðsþjónustuálagi þannig að sá okkar sem er með morgunmessuna í Glerárkirkju fer mögulega á Möðruvelli, Stærri Árskóg, Hrísey eða kirkjurnar í Hörgárdal seinnipartinn til að leiða helgihald,“ segir sr. Sindri Geir og bætir við að þetta hafi verið „örlítið púsluspil en við sr. Oddur Bjarni erum búnir að ganga frá plani fyrir haustið sem okkur líst vel á.“

Hann segir jafnframt að sr. Þorgrímur Daníelsson prestur á Grenjaðarstað í Aðaldal komi til með að leysa af við guðsþjónustur í nokkur skipti í haust til að létta undir með svæðinu.

„Áherslur í helgihaldi breytast ekki en auðvitað koma nýjar hugmyndir með nýju fólki og sr. Oddur Bjarni mun setja mark sitt á helgihaldið í Glerárkirkju í haust,“ segir sr. Sindri Geir.

Kirkjan.is spyr út í fjölda fermingarbarna.

„Það eru 86 fermingarbörn skráð til leiks en það eru fleiri sem hafa mætt í fræðsluna svo ég reikna með að við verðum með um 90 börn þegar upp er staðið,“ segir sr. Sindri Geir, „Árgangurinn í grunnskólunum hér er lítill í ár og telur sirka 100 börn svo þetta eru ágætis heimtur“.

Hann segir að tíu börn taki þátt í fræðslunni á Möðruvöllum og að þeir sr. Oddur Bjarni reikni með samstarfi um fermingarfræðsluna. „Möðruvallabörnin og Glerárkirkjuhópurinn fara líklega saman í dagsferð í október á Hólavatn þar sem við verðum með fræðslu og fjör,“ segir hann í lokin hress í bragði og fullur tilhlökkunar yfir þessum tímabundnu breytingum.

Þá er þess að geta að sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, og sr. Guðrún Þóru Eggertsdóttir, sóknarprestur á Ólafsfirði, munu leggja Dalvíkurprestakalli lið með ýmsum hætti í samvinnu við sr. Magnús Gunnarsson, sóknarprest.

hsh



  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju