Viðtalið: Gott starf unnið

22. september 2021

Viðtalið: Gott starf unnið

Sr. Guðmundur Guðmundsson við upptöku á þætti, mynd: Lindin

Margt er unnið í kirkjulegum fræðslumálum vítt og breitt um landið. Kirkjunnar fólki er ljóst að góð fræðsla er ein af meginstoðum í kirkjulegu starfi. Oft er fræðsluefnið unnið af starfsfólki kirkjunnar á heimavettangi af því að það er fullt af kappi og brennur af áhuga fyrir málinu.

Héraðspresturinn í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi hefur unnið fræðsluþætti um Davíðssálma. Þetta er sr. Guðmundur Guðmundsson og birtir hann fræðsluefnið vikulega um leið og þættir sama efnis eru sendir út á Lindinni, sem er kristileg útvarpsstöð. En ekki nóg með það heldur er efnið líka aðgengilegt á appi Lindarinnar og á gummi.blog  þar sem textann er finna ásamt með myndum.

Þættirnir eru um hálftími á lengd með tónlist og tíu mínútna spjalli. „Nútíminn vill hlusta á sínum tíma og hraða,“ segir sr. Guðmundur.

Þetta starf sr. Guðmundar er liður í að efla trúfræðslu meðal fullorðinna en hann telur að hana þurfi að stórefla.

Kirkjunni.is lék hugur á að vita meira um þetta ágæta framtak sr. Guðmundar og tók hann því tali.

Hefur þú fengist lengi við þessa þáttagerð?

„Fyrsti þátturinn fór í loftið 15. september síðastliðinn en í fyrravetur var ég með vikulega fræðsluþætti um Matteusarguðspjall,“ segir sr. Guðmundur og byggir hann þessa þætti á biblíulestrum sem hann var með í Akureyrarkirkju fyrir all mörgum árum um Davíðssálma og erindi með sama heiti Sálmar og bænalíf í Glerárkirkju 2016.

Fer mikill tími hjá þér í að undirbúa þættina?
„Ég hef verið að safna að mér efni undanfarin ár og er þetta hvorki nákvæm yfirferð yfir sálmana né heldur sálmafræðina heldur legg ég áherslu á bænalíf og tilfinningar sem bærast með þeim sem biðja,“ segir sr. Guðmundur en bænatilfinningar koma að sögn hans sterklega fram í Davíðssálmum og í sálmaarfi kirkjunnar. „Markmið mitt er að dýpka bænalíf með þessum erindum,“ segir hann. Inn á milli spilar hann sálma og andlegar vísur sem dæmi um það sem verið er að fjalla um.

Hann segir að af miklu sé að taka því að Davíðssálmar séu sungnir mjög víða um kristnina, sem dæmi nefnir hann lög frá Rússlandi og Úganda. Ekki megi heldur gleyma því að Davíðssálmar séu ein uppistaðan í tíðargjörð kirkjunnar í gegnum aldirnar.

„Í lok hvers þáttar höfum við Elín Steingrimsen, starfsmaður Lindarinnar á Akureyri, tekið spjall um efnið og ég stefni að því að fá gesti í spjall um ákveðin stef þegar fram í sækir,“ segir sr. Guðmundur.

Fræðslumálin í forgangi
Sr. Guðmundur Guðmundsson hefur unnið að fræðslumálum innan kirkjunnar frá því að hann byrjaði sem æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar (1986-88) en það er líka hans stóra áhugamál. Hann telur að kirkjan þurfi að leggja miklu meiri áherslu á andlega leiðbeiningu fyrir söfnuðina og einstaklinga eins og prestar eru kallaðir til. Hann segir að í erindisbréfi hans standi að honum sé ætlað að „skipuleggja fræðslustarf í prófastsdæminu“ og það er með því skemmtilegra sem hann geri í starfinu.

„Því miður náum við allt of skammt og trúfræðsla fyrir fullorðna er mjög takmörkuð. En á YouTube-síðunni eythingpro má finna heilmikið fræðsluefni um kristna trú og einnig á kirkjan.is,“ segir sr. Guðmundur.

Hefur þú fengið viðbrögð við þessum þáttum?

„Fólk hefur þakkað mér fyrir fræðsluna og er ánægt með að læra nýja hluti en þessir þættir um Sálma og bænalíf eru ný byrjaðir svo það á eftir að koma í ljós,“ segir sr. Guðmundur.

Hefurðu einhverja hugmynd um hvað þetta nær til margra?

„Ekki glóru en ég hefði gaman af að fá viðbrögð og ábendingar, fyrirspurnir og andmæli. Ekki að vita nema maður getur brugðist við í spjallinu og við gerð þáttanna en seinni hlutinn er enn í smíðum,“ segir sr. Guðmundur.

Sr. Guðmundur segir að hann ætli svo að koma á fót biblíuleshópi eða umræðuhópi á Akureyri um efnið í október ef tími og kraftar leyfa.

Kirkjan.is óskar sr. Guðmundi góðs gengis með þessa þætti og hlakkar til að fylgjast með þeim - og hvetur lesendur sína til þess hins sama.

hsh





  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju