Kirkja í Grímsey mun rísa

22. september 2021

Kirkja í Grímsey mun rísa

Grímseyjarkirkja brennur - mynd: Svafar Gylfason/mbl.is

Það hefur ekki farið fram hjá landsmönnum að Miðgarðakirkja í Grímsey brann síðastliðna nótt til kaldra grunna. Elds varð vart um miðnætti og þegar komið var á staðinn varð strax ljóst að engum vörnum varð við komið.

Kirkjan var Grímseyingum einkar kær og byggðin nyrsta er harmi slegin. Miðgarðakirkja var byggð 1867 og endurbætt síðar í tvígang, hún stækkuð 1932 og turn settur á. Kirkjan átti marga góða gripi. Skírnarfontur var til dæmis útskorinn af Einari Einarssyni 1958, þá var altaristaflan eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd da Vincis, máluð af Arngrími Gíslasyni, málara, 1879. Ljósakrónur, gamlar, voru frá seinni hluta 19du aldar og önnur klukknanna frá seinni hluta 18du aldar. Marga aðra góða gripi átti kirkjan.

Miðgarðakirkju var þjónað frá Dalvíkurprestakalli. 

Af þessu tilefni hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, skrifað eftirfarandi:

Albruni Miðgarðakirkju er áfall fyrir íbúa Grímseyjar, sóknina og landsmenn alla. Kirkjan, sem hefur alltaf þótt með merkilegri kirkjubyggingum landsins, er einn af hornsteinum eyjunnar og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lífi íbúa staðarins. Ég hef heyrt í formanni sóknarnefndar og sóknarpresti og boðið allan þann stuðning og atfylgi sem í mínu valdi stendur til að standa þétt að baki uppbyggingu nýrrar kirkju í Grímsey. Hugur minn og hjarta er hjá íbúum Grímseyjar.

Nú er ákvörðun um enduruppbyggingu í höndum sóknarnefndar og íbúa Grímseyjar. Ég mun styðja þeirra ákvörðun. Guði er enginn hlutur um megn.hsh

 


Kirkjan brann gjörsamlega til grunna - mynd: Svafar Gylfason/mbl.is