Grænir kirkjugarðar

29. september 2021

Grænir kirkjugarðar

Kirkjugarður Akureyrar á sumardegi - mynd: Smári Sigurðsson

Frændur vorir Danir ræða hvernig hægt sé að gera kirkjugarðana sem grænasta en um það má lesa á vef dönsku kirkjunnar.

Áhugasamt kirkjufólk hefur ýmsar hugmyndir um að svo megi verða. Margar sóknar-og kirkjugarðsnefndir eru til dæmis hættar að láta sprauta skordýraeitri á tré og annan gróður í kirkjugörðum. Það er stórt skref og láta náttúruna bara hafa sinn gang.

Nú hafa Danir búið til gátlista með 50 stigum í því skyni að kirkjugarðarnir verði sjálfbærir. Þeir kirkjugarðar sem ná 26 stigum af þessum 50  fá heitið Grænir kirkjugarðar.

Stigin 50 eru komin frá sérfræðingum og fólki sem hefur reynslu af rekstri sjálfbærra kirkjugarða og þekkir vel til umhverfis- og loftslagsmála.

Í umhverfisvænum rekstri koma við sögu rafmagnssláttuvélar, moltugerð, safnhaugar sem eru vistvænir, draga til sína fugla og margvísleg skordýr. Grænn kirkjugarður er nefnilega lifandi garður í þessu tilliti – lífið í honum er fjölbreytilegt og náttúrulegt, fyllt af gleði fyrir allri sköpun Guðs.

Það er margt hægt að gera til að kirkjugarður verði grænn. Fyrst er að skipta út plastblómum eða gróðurhúsablómum og setja í þeirra stað fjölær blóm. Afskorin blóm eru mörg hver flutt heimsálfa á milli. Göngustígar ættu að vera grasi lagðir en ekki með unninni möl. Þá er mikilvægt að hvetja öll þau sem sækja leiði ástvina að huga að umhverfisþættinum t.d. með því að flokka það sem til fellur í garðinum og prýða minningarmörk með umhverfisvænum hætti. Skreytingar á leiðum eiga ekki að vera einnota, hvorki blómapottar né ljós. Jólakúlur og glitrandi bönd á grenigreinum sem settar eru á leiði valda því að þær teljast ekki umhverfisvænar heldur hafna í almennu sorpi vegna þess að kirkjugarðar hafa ekki starfsfólk til að tína kúlur og skraut af greinunum. Þess vegna er mikilvægt að nota umhverfisvænt skraut á náttúrulegar greinar.

Fólk er almennt sammála því í meginatriðum að flest er tengist umhirðu kirkjugarða og viðhaldi ætti að vera unnið með sem umhverfisvænstum hætti. Mikilvægast í því sambandi er að vera meðvitaður um það og gleyma sér ekki. Þess vegna reyna þau sem sinna kirkjugörðunum að vinna umhverfismálin í samvinnu við rétthafa leiða og ættingja sem vitja leiðanna.

Kirkjugarðar Reykjavíkur

Kirkjan.is hafði samband við Kirkjugarða Reykjavíkur og fyrir svörum varð Kristján Linnet.

„Kirkjugarðar Reykjavíkur hafa gert sér far um að vera eins grænir og hægt er,“ segir Kristján, „Við höfum skipt út bensíndrifnum tækjum eins og hekkklippum, keðjusögum og laufblásurum fyrir tæki með rafhlöðum.“ Kristján segir að handsláttuvélar séu ekki komnar með nægilega öflugar rafhlöður til gagnast kirkjugörðunum í þeim mikla slætti sem þar fer fram. Garðyrkjumennirnir fara svo um garðana á rafmagnsbílum sem hafa reynst mjög vel enda er mikil og sífelld yfirferð um garðana vegna umhirðu þeirra.

Og hvað með skordýraeitrun?

„Það eru mörg ár síðan við hættum að nota skordýraeitur og hefur það gefist vel og jafnvægi komist á og allir fuglar glaðir,“ segir Kristján en hann segir að þeir hafi notað illgresiseitur í einhverju magni en það sé nú að taka enda. „Til stendur að kaupa gufuvél sem gefur frá sér 150 gráðu heita gufu sem eyðir illgresi, sérstaklega því sem er að spíra,“ segir Kristján og bætir því við að stefnan sé að fækka beðum sem illgresi getur náð að yfirtaka.

Við þetta má bæta að garðarnir hafa undanfarin ár endurunnið jarðveg og framleitt svokallaða moltu. Sú framleiðsla hefur tekist vel. Öllum lífrænum úrgangi, grasi og trjákurli, er safnað í gám. Síðan er sturtað úr gámnum á flöt og efninu umbylt annan hvern dag. Eftir um fjórar til sex vikur er komin ágæt molta.


Kristján Linnet við rafdrifinn bíl sem notaður er í Fossvogskirkjugarði

Kirkjugarðar Akureyrar

Þau hjá Kirkjugörðum Akureyrar láta líka umhverfismálin sig varða og kirkjan.is sló á þráðinn til þeirra.

„Við erum með fjórar gerðir af söfnunarílátum víða um garðana,“ segir Smári Sigurðsson, „hvert þeirra er merkt með því sem í það á að fara: plast, pappi, lífrænn úrgangur og almennt sorp.“ Þar á bæ er sem sé allt flokkað.

Þeir leitast við að nota verkfæri sem drifin eru með rafmagni sem og rafbíla.

Smári segir að nánast sé hætt að nota allan illgresiseyði og hann sé á útleið. Á Eyjafjarðasvæðinu er sameiginleg moltuframleiðsla og Kirkjugarðar Akureyrar nýta hana vel. Hann segir að Kirkjugarðar Akureyrar hafi umhverfisstefnu sem birtist meðal annars í framansögðu.


Friðrik Ingvi Helgason, starfsmaður Kirkjugarða Akureyrar, með laufblásara


Kirkjugarðar þarfnast annars konar umhirðu að vetri en að sumri - úr Kirkjugarði Akureyrar

Góð umgengni gulli betri
Öll byggðarlög reyna að sjá til þess að kirkjugarðarnir séu sómasamlega hirtir og vel um gengnir. En fólk er mishirðusamt um umhverfi sitt eins og gengur en það er hvatt til að skilja ekki eftir rusl í görðunum.

Kirkjugarðar eru almenningsrými sem geyma menningarverðmæti og þeir eru staðir minninga og tilfinninga.

Þess vegna er mikilvægt að allir gangi vel um þá og sýni þeim sæmd og virðingu.

Kannski verður þess ekki langt að bíða að við tökum upp svipaða aðferð og Danir og komum okkur upp 50 stiga kerfi til að vega og meta kirkjugarðana út frá umhverfissjónarmiðum.

Nú þegar höfum við svona stigakerfi í sambandi við kirkjur á grænni leið og þær kirkjur sem ná svo meirihluta umhverfisstiga úr pottinum kallast Grænar kirkjur.

hsh

























  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál og kirkja

  • Erlend frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju