Fólkið í kirkjunni: Kirkjukona á tíræðisaldri

3. október 2021

Fólkið í kirkjunni: Kirkjukona á tíræðisaldri

Valgerður Friðriksdóttir í Brekku - mynd: Þuríður Björg Wiium Árnadóttir

Kirkjukórar bera með sér sterka menningu hvort heldur í þéttbýli eða dreifbýli. Kórarnir eru sem hjartað í starfi kirkjunnar og gera það aðlaðandi. Þeir eru líka öflugur farvegur boðunar sem kirkjan er þakklát fyrir. Kórastarf er safnaðarstarf.

Valgerður Friðriksdóttir frá Ytri-Hlið í Vesturárdal í Hofssókn fæddist í torfbæ alþingshátíðarárið 1930. Þetta var annar tími en nú. Göng lágu frá bænum í fjósið og við gangaveggina voru tunnur með súrmat og slátri. Rafmagnið kom frá vindrafstöð sem búið var að setja upp. „Við vorum með þeim fyrstu sem fengum okkur svona vindrellu,“ segir Valla, „og með rafmagninu hvarf hræðslan við að fara eftir göngunum út í fjósið.“

Hún var yngst fjögurra systkina, dóttir hjónanna Oddnýjar Methúsalemsdóttur frá Bustarfelli og Friðriks Sigurjónssonar frá Ytri-Hlíð.

Móðir hennar var söngvin og innan úr torfbænum mátti heyra óm af söng hennar þar sem hún stóð í eldhúsinu og sýslaði með matinn við kolaeldavélina. „Það var sungið við öll verk,“ segir Valla. Söngurinn varð börnunum inngróinn. Valla í Brekku man eftir því að fólk hafi safnast saman við útvarpstækin í gamla bænum og hlustað á messurnar á sunnudögum. Og sungið með. „Það er nú líklegast,“ segir Valla með þungri áherslu. „Mamma flysjaði kartöflurnar fyrir jólamatinn og söng sálmana hástöfum með kórnum í útvarpinu.“

„Söngurinn létti mann lífið,“ segir Valla í Brekku eins og hún er jafnan kölluð, „maður er bara önnur manneskja í söngnum og öll þreyta hverfur á brott.“ Hún segir að móðir hennar hafi tamið sér þetta skemmtilega vinnulag, að syngja við vinnuna og með því gert allt auðveldara. „Og við lærðum af því, að vinna og syngja,“ segir Valla. „Hún mamma hafði svo sérstakt lag á því að skemmta okkur með þessum hætti.“

Valla var fjórtán ára þegar hún byrjaði að syngja í kór Hofskirkju í Vopnafirði sama ár og þau fluttu úr torfbænum. Hún man eftir því að Sigurður Birkis (1893-1960), fyrsti söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, kom austur og stofnaði kórinn. „Hann stofnaði alvöru kóra,“ segir Valla og leggur áherslu á alvöru, „og með honum var Kjartan Sigurjónsson (1919-1945), söngvari frá Vík í Mýrdal, sem dó á besta aldri.“ Hún segir að Sigurður Birkis hafi verið „stórkostlegur maður.“

Valla syngur alt-röddina í kór og er enn í kórnum. „En það varð náttúrlega hlé á öllum kirkjusöng í kóvid,“ segir Valla og bætir við að nú sé allt að fara í gang. Sjálf fékk hún raddbandabjúg og hefur ekki geta sungið eins og er en það kemur.

Valla í Brekku giftist sjómanni, Sveini Sveinssyni (f.15. 6 1930 d. 31.12 2020) en hann lést í fyrra. Þau eignuðust fjögur börn – svo var eitt fósturbarn – og meðan þau voru að komast á legg var hún heimavinnandi og tók ekki þátt í kirkjusöngnum í sama mæli og áður. Þegar börnin voru orðin stálpuð fór hún aftur að syngja á fullu í kórnum.

Kórar Hofskirkju og Vopnafjarðarkirkju voru sameinaðir og syngur hún í þeim kór.

Valla í Brekku er hress kona í viðræðu, hlýleg og hógvær. Hún býr í þjónustuíbúð í Sundabúð í Vopnafirði og unir þar hag sínum vel. „Það er góð íbúð og stutt að fara yfir í kirkjuna og safnaðarheimilið,“ segir hún.

Kirkjukórinn hefur farið í söngferðalög og Valla í Brekku að sjálfsögðu með. Þau hafa farið til Tékklands, Írlands og Kanada. Slík ferðalög eru hluti af kirkjustarfinu, fara utan, syngja í kirkjum og sjá kirkjulíf í útlöndum. Svo hefur kórinn líka farið í söngferðalög innanlands og þau eru ekki síður gefandi og ferðirnar til útlanda. „Félagsskapurinn í kórnum er alveg einstakur,“ segir hún, „og það hefur fjölgað í honum – og margt ungt fólk hefur gengið til liðs við hann.“

Valla í Brekku segir af reynslu að kórinn eigi mikið undir því að organistinn – eða söngstjórinn sé starfi sínu vaxinn. Þau séu einstaklega heppin með organista sem sé hann Stephen Yates. „Hann leigði niðri hjá mér áður en við fórum í þjónustuíbúðina,“ segir Valla og hlær svo góðlátlegum hlátri um leið og hún segir: „Ja, hann býr núna í íbúð hérna hinum megin við ganginn, það er eins og hann bara fylgi mér.“

Það eru margir sálmarnir sem Valla í Brekku hefur sungið í gegnum tíðina. Þegar hún er spurð um uppáhaldssálminn stendur ekki á svari, það er Þú, Guð, sem stýrir stjarna her. Talið berst líka að sálminum Faðir andanna en hann var sunginn víða um land á stríðsárum seinni heimsstyrjaldarinnar og sums staðar eimdi eftir af honum í nokkur ár eftir að stríðinu lauk. Enda friðarsálmur.

Valla í Brekku er jákvæð kona og kröftug. „Ég er rosalega lánsöm með heilsuna,“ segir hún þakklátum huga, „hugsa sér, að geta komist upp á kirkjuloftið á þessum aldri og staðið með kórnum og sungið.“ Já, hún kann svo sannarlega að meta góða heilsu og þátttakan í kórnum er henni hjartans mál og mikilvægt. Svo tekur hún ekki aðeins þátt í kirkjustarfinu heldur og í starfi eldri borgara í Vopnafirði. Það er því nóg að gera hjá henni.

Valgerður Friðriksdóttir í Brekku, kórkona – já og kirkjukona, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Eftir messu í Hofskirkju 1947 - Valla í Brekku þriðja í röðinni frá vinstri


Mynd tekin í Hofskirkju 1944 þegar kórinn var stofnaður - Valla í Brekku lengst til vinstri í annarri röð - presturinn sr. Jakob Einarsson (1891-1977), fyrir miðri mynd, skírði hana, fermdi og gifti




  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju