Organisti á nýjum slóðum

6. október 2021

Organisti á nýjum slóðum

Friðrik VIgnir Stefánsson við orgelið í Seltjarnarneskirkju - mynd: hsh

Listalíf fylgir kirkjunum enda margir listamenn þar að störfum. Kirkja og list eru líka eins og systur. 

Friðrik Vignir Stefánsson, organisti í Seltjarnarneskirkju, er fjölhæfur tónlistarmaður og margreyndur.

Hann hefur kallað til sín Tindatríóið til að leika með sér á léttu nótunum á Menningarhátíð Seltjarnarnesbæjar.
Tríóið skipa þeir feðgar Atli Guðlaugsson, og synir hans tveir, Bjarni og Guðlaugur. Þeir feðgar hafa komið víða fram og eru menntaðir tónlistarmenn.

Dagskráin heitir Óskalagatónleikar og fer þannig fram að tónleikagestir geta valið úr yfir 100 lögum, bæði íslenskum og erlendum.

Friðrik Vignir leikur á píanó, orgel og harmonikku.

Tónleikarnir verða föstudagskvöldið 8. október kl. 20.00.

Svo verða aðrir tónleikar sunnudagskvöldið 10. október kl. 17.00. Þeir bera heitið: Óvenjulegir orgeltónleikar. Þeir tónleikar eru líka hluti af Menningarhátíð Seltjarnarnesbæjar.

Friðrik Vignir fer mjög óhefðbundnar leiðir í lagavali á þessum óvenjulegu orgeltónleikum. Það eru lög sem hafa verið útsett fyrir orgel, allt frá lírukassastíl yfir í djass og þekkt popplög. Þá koma við sögu gamlir snillingar og nýir eins og Bach, Handel, Clapton og Queen. Einnig hvorki meira né minna en Superman og Star Wars.

Er þetta ekki óvenjulegt? Hvers vegna ekki að skella sér í Seltjarnarneskirkju 8. og 10. október. Aðgangur á báða tónleikana er ókeypis og allir velkomnir

Friðrik Vignir
Hann er fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann er einn af lærisveinum hins merka tónlistarmanns, Hauks Guðlaugssonar, fyrrum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Haukur varð níræður á þessu ári.

„Ég byrjaði að læra á píanó hjá Hauki þegar ég var níu ára gamall, og ellefu ára gamall á orgel,“ segir Friðrik Vignir, „hann var frábær kennari svo nákvæmur.“ Friðrik Vignir byrjaði sem organisti 1984 við Innra-Hólmskirkju fyrir utan Akraness.

Friðrik Vignir lauk kantors- og einleikaraprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1987. Hann var svo fyrsti organisti Hjallasóknar í Kópavogi 1987-1988. Friðrik Vignir var í átján ár organisti við Grundarfjarðarkirkju 1988-2006. Þá leysti hann af organista í Grindavíkurkirkju 2006-2007, eftir að hafa flutt til Reykjavíkur. Friðrik Vignir stundaði framhaldsnám á orgel veturinn 2005-2006 við Konunglega danska tónlistarháskólann.

Hann hefur verið organisti við Seltjarnarneskirkju frá 1. ágúst 2007 og líkar vel. „Starfsumhverfi og samstarfsfólk er frábært,“ segir Friðrik Vignir og er hæstánægður, „gæti ekki verið betra.“

hsh

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju