Bleik Bústaðakirkja

9. október 2021

Bleik Bústaðakirkja

Bústaðakirkja með bleiku yfirbragði - mynd: hsh

Lifandi kirkja hefur fingurinn á púlsi samfélagins til að geta komið erindi sínu á framfæri til ólíkra hópa sem búa við margs konar aðstæður um leið og hún styður við bakið á þeim með myndarlegum hætti.

Októbermánuður er mánuður Bleiku slaufunnar. Þá stendur Krabbameinsfélagið fyrir fjáröflunar- og árvekniátaki til að berjast gegn krabbameini hjá konum.

Kjarni málsins er að vera til staðar og standa við bakið á konum þegar þær greinast með krabbamein og tilveran breytist í einu vetfangi.

Þess vegna efnir Bústaðakirkja til listamánaðar undir yfirskriftinni Bleikur október.

Dagskráin tekur mið af þessu góða málefni sem kirkjan vill styðja og standa með þeim er horfast skyndilega í augu við breyttan veruleika.

Messurnar eru með öðru sniði í október og hádegistónleikar verða á miðvikudögum kl. 12.05.

Dagskrá hádegistónleikanna er fjölbreytt og skemmtileg þar sem Jónas Þórir og ýmsir listamenn töfra fram fagra tóna af alkunnri snilld. Aðgangur er ókeypis, en á tónleikunum gefst gestum færi á að leggja Ljósinu  sérstaklega lið.

Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.

Miðvikudaginn 13. október kl. 12.05 munu Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) og Örn Árnason rifja upp gömlu góðu lögin frá stríðsárunum. Jónas Þórir leikur með á flygilinn. Dagskrána í heild á Bleikum október í Bústaðakirkju má finna hér.

Á sunnudaginn verður Bolvíkingamessa í Bústaðakirkju kl. 13.00. Sóknarpresturinn í Bolungarvík, sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, mun þjóna ásamt hinum nýja sóknarpresti í Fossvogsprestakalli, sr. Þorvaldi Víðissyni.

Einsöngvarar úr Kammerkór Bústaðakirkju munu syngja, ásamt jasstríói, þar sem Björn Thoroddsen leikur á gítar, Gunnar Kv. Hrafnsson á bassa og Jónas Þórir á píanó.

Gestir frá Bolungarvík taka þátt í messunni og m.a. verður flutt lag og ljóð Benedikts Sigurðssonar „Bolungarvík.“

Sem sé. Bústaðakirkja fer á fullri ferð inn í vetrarstarfið með svipuðu sniði og fyrir tíma kórónuveirunnar. Allt er á uppleið.

hsh







  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Fræðsla

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju