Hin hliðin: Presturinn er ljóðskáld

22. október 2021

Hin hliðin: Presturinn er ljóðskáld

Aðkvæða - höfundur á ljósmynd bókarkápunnar - mynd: hs

Aðkvæða, er nafn á lítilli og snoturri ljóðabók sem er nýkomin út. Höfundur hennar er sr. Bragi Jóhann Ingibergsson, sóknarprestur í Víðistaðaprestakalli og hefur hann fengist við ljóðagerð frá unglingsaldri. Þetta er hans fyrsta bók og gefin út í tilefni sextugsafmælis hans. Ljóðin eru sextíu að tölu, eitt fyrir hvert lífár.

Það sem einkennir þessi ljóð umfram annað er mýkt og þokki, vel er kveðið og vandlega. Formið er í langflestum tilvikum rímað en annars órímað. Hugur höfundar leitar víða fanga, það er lífið sjálft og dulardjúp þess, náttúran, samferðafólk og ástin. Sum ljóðanna mætti kalla spekiljóð, þau geyma holla lífsvisku sem gott er að hafa í huga. Yfir bókinni er geðfelldur svipur hollrar íhaldssemi og traustra hefða.

Umdeild samfélagsmál koma ekki mjög til yrkingar í þessari bók og segja má að það sé góð hvíld frá þeim annars þörfu málum. Ljóðin leita inn á við, til næms huga lesenda og kyrrðar. Ekki óskyld íhugun og þeirri hugarstarfsemi sem hún kallar á. Ósjálfrátt kyrrist hugur við lestur bókarinnar sakir prýði hennar og kurteisi. Þess vegna er hún góður félagi sem gott er að hafa við höndina.

Bókina tileinkar sr. Bragi Jóhann föður sínum, sr. Ingibergi J. Hannessyni (1935-2019), fyrrum prófasti, með þeim orðum að hann hafi verið einlægur ljóðaunnandi. Víst er að faðir hans hefur lagt sitt af mörkum til ágætrar ljóðagáfu sonar síns.

Aðkvæða er gefin út af Bókafélaginu, bókin er 72 blaðsíður, harðspjalda. Mynd á kápu tók höfundurinn, sr. Bragi Jóhann, en hann er afar góður ljósmyndari.

Kirkjan.is mælir með ljómandi góðri ljóðabók sr. Braga Jóhanns. Hún er hugþekk og kyrrir sálargný nútímamannsins og leiðir hann á góðar og fagrar slóðir.

 
Hér skulu þrjú ljóðadæmi tiltekin úr bókinni af handahófi

Leiðaval
Hvert líf er ferð úr einni vík í aðra
og oft í grennd við landsins fjærstu jaðra
en tíðum eftir lögðum gönguleiðum.
Þó vilja sumir eftir eigin kvarða
sér ætla leið um grýtta jörð og harða
við ystu nöf á hamrabeltum breiðum.
                        (Bls. 12)

Minning
Sjá, tíminn er taumlaus flaumur
í tilveru þess sem er;-
sem árinnar stríður straumur
stöðugt til ósa ber.

En allt sem þá áfram líður
á upphaf í tærri lind.
Þar framtíðar fæðing bíður
í fagurri dropans mynd.

Hver maður sem minning geymir
og mótar í svörðinn spor,
hann elskar og aldrei gleymir
að ástin er stöðugt vor.

                    (Bls. 22)

Gönguleið viskunnar
Ég spurði um spádóma forðum
í spekinnar hofi
og leitaði´ að eilífum orðum
í auðnu og lofi:

Mun gæfan í veröldu velta
á von sem er falin
í vörðum sem enginn vill elta
og aldrei er valin?

Og svarið sem heyrði ég hljóma
frá hofinu forðum
mun lengi í lífinu óma
í launhelgum orðum:

Þú gönguleið viskunnar velur
að vonanna dölum,
því gæfan um daga þar dvelur
í dýrðlegum sölum.

                    (Bls. 63)

hsh

 

 


  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall