Fugladagbók prestsins - og þín

24. október 2021

Fugladagbók prestsins - og þín

Fugladagbókin er handhæg bók og falleg - mynd: hsh

Allir þekkja algenga fugla sem eru hluti af daglegu lífi til sjávar og sveita. Skógarþröstur, lóa, spói og hrafn. Starri, hrossagaukur, lundi. Svo mætti lengi telja. Fuglarnir eru á sveimi hér og þar og við veitum þeim mismikla athygli í erli dagsins.

Það getur verið gott að skrá eitt og annað sem ber fyrir augu í handhæga bók. Skrifa til dæmis nöfn fugla, jafnvel stutta lýsingu ef nafn er ókunnugt og svo ekki sé talað um ef flækingsfugl er á ferð hvort sem hann er nú sjaldgæfur eða ekki.

Nú er komin bók þar sem hægt er að rita niður skipulega fuglanöfn og fleira sem tengist fuglalífi. Bók sem fuglaáhugafólk hefur lengi dreymt um. Hún getur ekki síður verið hvatning til þeirra sem láta fuglana líða fram hjá sér til að gefa þeim nánari gaum.

Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar – Fugladagbókin 2022, heitir bók sem sr. Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði og þjóðfræðingur, hefur látið frá sér fara. Þetta er einföld bók en snjöll sem allt áhugafólk um fugla mun fagna. Vönduð bók.

Dagbókin er á vikuplani, frá janúar til desember. Í upphafi hverrar viku er fróðleikur um einn valinn fugl (alls 52) af þeim rúmlega fjögur hundruð sem sést hafa hér frá því að skráning hófst. Tæplega áttatíu þeirra verpa að staðaldri hér á landi. 

Þarna er að finna skemmtileg fuglanöfn sem almenningur hefur sennilega ekki á hraðbergi en eru bæði sérstök og falleg – og fuglanir ekki síður. Já, hver hefur séð dómpápa? Ormskríkju og bláþyril? Býsvelg? Já, kröftug og dularfull eru nöfnin.

Höfundur hyggst gefa bók af þessu tagi út á hverju ári. Já, svo má líka nota hana sem dagbók.

Sr. Sigurður er maður fugla og náttúru. Í fyrra kom út vönduð og mikil bók eftir hann um fugla: Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Prýdd fjölda mynda og flutti frásögur af fuglum og fólki. Að baki hennar lá mikil vinna.

Áhugi fólks fyrir náttúrunni hefur vaxið og þar með umhyggja fyrir henni. Eins hefur áhugi fólks á fuglalífi aukist til muna. Náttúra og fuglar eru nefnilega eitt og hvort tveggja þarf að umgangast með virðingu og gát. Það er hluti af umhverfismálum að fylgjast með þeim, hluti af menningu og sögu. Þessi bók er því afar heppilegt framlag til hversdagslegrar og ánægjulegrar náttúruskoðunar og umhyggju fyrir umhverfinu.

Bókin er 223 blaðsíður og það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur hana út.

Kirkjan.is óskar sr. Sigurði Ægissyni til hamingju með fallega og netta bók sem mun koma mörgum að notum og vonandi vekja áhuga sem flestra.

hsh


  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Útgáfa

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju