Festum brauðið í sessi

30. október 2021

Festum brauðið í sessi

Siðbótarbrauð - bragðast vel - mynd: hsh

Á morgun er siðbótardagurinn, 31. október. Tilefni hans er flestum kunnugt en þá hóf Marteinn Lúther mótmæli sín gegn rómversk-kaþólskri kirkju og í kjölfar þess var til hreyfing sem kennir sig við siðbót. Þetta var árið 1517.

Lútherskar kirkjur um allan heim minnast þessa dags með ýmsu móti og þar með talin þjóðkirkjan. Einn er sá siður sem ekki hefur náð að skjóta rótum hér á landi en það er bakstur á svokölluðu siðbótarbrauði eða því sem þýskir kalla Reformationsbrötchen. Það er lítil sneið, ekki ólík heimagerðu vínarbrauði, með sultu í miðjunni og er í laginu eins og blóm og minnir því á Lúthersrósina. Nokkru fyrir siðbótardaginn má sjá siðbótarbrauðið nánast í öllum bakaríum á siðbótarslóðum, til dæmis í Saxlandi – og er það mjög vinsælt.

Gaman væri að þessi siður kæmist á hér og hvetur kirkjan.is hér með einstaklinga og söfnuði (til dæmis með fermingarbörnunum) til að reyna fyrir sér með baksturinn sem er ekki flókinn og má haga með ýmsum hætti eins og öðrum bakstri.

Kirkjan.is skellti í eina uppskrift í gærkvöldi og tókst sú frumraun í bakstri siðbótarbrauðsins nokkuð vel að sögn nærstaddra.

En reynið nú fyrir ykkur góðir hálsar og hér er uppskriftin – hún er miðuð við tólf manns:

Uppskriftin
500 g hveiti
40 g ger eða 1 bréf af þurrgeri
30 g sykur 250 ml mjólk (gott er að hafa mjólkina volga og jafnvel hita hana ögn svo gerið kippi fyrr við sér) 50 g smjör (mýkist við stofuhita)
100 g rúsínur
50 g sætar möndlur, muldar/ möndluflögur
Ögn af salti
200 g rauð/appelsínugul sulta/marmelaði
Eftir smekk má bæta við einni matskeið af sítrónusafa eða sítrónubörk af hálfri sítrónu.
Flórsykur
1. Setjið hveitið í skál og búið til holu í miðjunni þar sem þið setjið gerið, sykur og átta msk. mjólk. Blandið öllu saman og stráið meira hveiti yfir. Látið standa á heitum stað þar til deigið hefur lyft sér. Hafið gjarnan rakt viskustykki yfir.
2. Þegar deigið hefur lyft sér skal blanda smjörinu, rúsínum, möndlum, salti (og eftir atvikum sítrónusafanum/berkinum) saman við deigið. Hellið því sem eftir er af mjólkinni saman við og hnoðið saman. Gætið að hitastiginu.
3. Látið deigið lyfta sér í u.þ.b. tvöfalda stærð.
4. Hnoðið svo deigið áfram, fletjið það og skerið út ca. 12 x 12 sm stóra ferninga. Brettið upp á hornin inn að miðju eða útbúið stjörnulaga form með öðrum hætti. Athugið þó að í miðjunni þarf að vera hægt að koma sultunni/marmelaðinu fyrir.
5. Bakið við 200-220°C í um 20 mínútur eða þar til brauðið fer að dökkna.
6. Takið brauðið út úr ofninum. Þegar þær hafa kólnað má strjúka pensli yfir þær með vökva sem í er sítrónusafi, flórsykur og örlítið vatn.

Verði ykkur að góðu!

hsh


Efnið í baksturinn


Á leið í ofninn


Siðbótarbrauð með morgunkaffinu ...


  • Menning

  • Nýjung

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju