Líf og sorg í nóvember

2. nóvember 2021

Líf og sorg í nóvember

Hallgrímskirkja í Reykjavík - mynd: hsh

Hallgrímssöfnuður  er einn þeirra safnaða sem rekur öflugt fræðslustarf þar sem mörg áhugaverð mál eru tekin fyrir. Góðir fyrirlesarar sem eru þaulkunnugir málum eru fengnir til að fjalla um málin. Tímasetningin er ágæt, í hádeginu alla þriðjudaga, frá kl. 12.00 og til 12.45.

Í nóvember verður fjallað um lífið og sorgina sem er nánast eins og sitthvor hliðin á sama peningnum. Sorgin sækir alla heim og er eitt af mörgum viðfangsefnum lífsins. Jafnvel það stærsta og erfiðasta.

Það er sr. Matthildur Bjarnadóttir sem heldur utan um þriðjudagserindið í dag, 2. nóvember, í Hallgrímskirkju. Hún mun fjalla um börn og sorg.

En annars lítur dagskráin svona út hjá þeim í Hallgrímssöfnuði
9. nóvember: Ólafur Teitur Guðnason skrifaði bókina Meyjarmissir eftir að Engilbjört Auðunsdóttir, kona hans, lést. Ólafur Teitur segir frá Engilbjörtu, lífi hennar, tengslum, missi og því að lifa áfram eftir makamissi. Ólafur Teitur vinnur hjá Atvinnuvegaráðuneytinu.
16. nóvember: Sigurbjörg Sara Bergsdóttir: Kannski enginn töfralausn eftir missi. Lífið eftir áfall. Sigurbjörg Sara er klínískur þerapisti hjá EKTA – ráðgjöf.
23. nóvember: Vigfús Bjarni Albertsson: Sorg og sorgarúrvinnsla. Sr. Vigfús Bjarni starfar sem forstöðumaður Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar og er einnig stundakennari í HÍ. Hann er sérmenntaður í sálgæslu og sálrænum stuðningi.

Þó sr. Matthildur sé varla búinn að þjóna sem prestur í mánuð býr hún yfir mikill þekkingu í þessum málaflokki sem snertir börn og sorg. Hún skrifaði meistaraprófsritgerð um sorg barna og hvernig sorgarúrvinnsla þeirra getur annars vegar gengið vel og hins vegar farið úrskeiðis. Þá er hún prestur hjá Erninum – minningar- og styrktarsjóði sem lætur sér sérstaklega annt um börn sem sorgin hefur sótt heim og hvers kyns áföll. Jafnframt því gegnir sr. Matthildur starfi æskulýðsprests Garðasóknar í Garðabæ.

Kirkjan.is tók hana tali og spurði fyrst hvort þessi árstími, vetrarbyrjun, væri viðkvæmur í sambandi við sorg barna og fjölskyldnanna?

„Sorgin verður mjög oft fyrirferðameiri í lífi syrgjenda þegar líður að mikilvægum dögum eins og afmælisdögum eða tímamótum,“ segir sr. Matthildur. „Jólin eru í hópi þessara stóru daga því þá kemur fjölskyldan oft saman til þess að njóta samverunnar og gleðjast. Þegar allir koma saman verður fjarvera þeirra sem eru dánir svo raunveruleg og sár.“

Sr. Matthildur bendir á að um hátíðirnar eigi margir líka hinar ýmsu hefðir þar sem allir hafi sitt hlutverk svo eftir missi þarf að finna út úr því hvort og þá hvernig fjölskyldan ætlar að halda hefðunum sínum í heiðri. „Ef pabbi sem sá alltaf um að kaupa jólatréð með krökkunum er dáinn, hver gerir það í ár?“ nefnir sr. Matthildur sem dæmi. Það reyni á fjölskylduna að finna út úr slíkum spurningum og ómetanlegt sé að fá hjálp frá ættingjum og vinum í því verkefni.

Hvað er það einkum við sorg barna sem er erfiðasta að eiga við, glíma við?
„Jól og áramót eru í hugum flestra barna mikill tími gleði og eftirvæntingar en eftir missi geta þessar tilfinningar verið blendnar,“ segir sr. Matthildur. „Áhyggjur af því hvernig jólin verða og hvort að það verði gaman eða bara sorglegt geta poppað upp í hugann. Það er þess vegna svo mikilvægt að fjölskyldur tali saman í aðdraganda jóla og segi upphátt það sem þau eru að hugsa, hvað þau vona og hafa áhyggjur af eða óttast.“


Sr. Matthildur segir að börnin þurfi að vita að þau megi vera spennt og glöð jafnvel þó að ástvinur sé dáinn og að sama skapi að þurfi þau ekki að vera hress eða gleðigjafar fyrir hina.

Og sr. Matthildur heldur áfram:
„Það er svo mikilvægt fyrir öryggi barna að það sé í lagi með fullorðna fólkið sem það treystir á og einmitt þess vegna þarf að velja orðin vel þegar þeim er hrósað eða þeim lýst í þeirra eigin eyru. Ef að barn fær þau skilaboð að það skipti trausta fólkið í lífi þeirra máli að þau séu t.d. dugleg, sterk eða glöð geta þau farið að gangast upp í þeim hlutverkum í stað þess að leyfa sér að líða og vera eins og þau eru. Það er mikil og ósanngjörn streita fyrir börn. Svona falleg hrós sem þó getur orkað tvímælis er auðvitað sagt með góðum huga en það skiptir svo miklu máli að reyna að setja sig inn í það hvernig barnið heyrir og skilur það sem er sagt við og um það.“

Sr. Matthildur segir að það sama eigi við um börn í sorg og önnur börn; þau þurfi að fá að vera börn og það dýrmætasta sem þau fái frá fólkinu sínu er öryggi og ást. Að þau finni að það sé ekki á þeirra ábyrgð hvernig fullorðna fólkinu líður og að fullorðna fólkið sé fært um að hugsa um þau, veita þeim allt sem þau þurfa á að halda og séu í öruggri höfn.

„Ég mun spjalla meira um samskipti barna og fullorðinna syrgjenda í fyrirlestrinum á morgun,“ segir sr. Matthildur. „Það er afskaplega mikilvægt umræðuefni og ég er mjög glöð að fá tækifæri til að koma því á framfæri.“

Kirkjan.is spyr hana hana á léttum nótum hvernig það sé að vera prestur og hvort eitthvað óvænt hafi borið við – hún var vígð 3. október s.l.

„Satt best að segja hefur ekki mikið breyst annað en að þó nokkrar skírnir hafa bæst við verkefnalistann,“ segir hún glöð í bragði. „Ég hef unnið við safnaðarstarf í svo langan tíma núna að ég er orðin flestu vön í þeim efnum en viðurkenni þó að ég er langt því frá farin að venjast því að vera séra Matthildur, ætli það sé ekki skrítnasta breytingin.“

Sr. Matthildur segir að eins og hana hafi grunað þá er yndislegt verkefni að fá að skíra börn. „Og ekki er það verra að næsta skírnarbarn er mín eigin bróðurdóttir,“ segir hún spennt og bætir við glettnislegu brosi á vör. „Ég mun gera mitt allra besta til að gráta minna en skírnarþeginn en get engu lofað.“

Eins og fram kom í upphafi er sr. Matthildur ekki aðeins æskulýðsprestur heldur og prestur hjá samtökunum Erninum, minningar- og styrktarsjóði. 

Örninn ætlar að standa fyrir vitundarvakningu varðandi sorg barna þann 18. nóvember,“ segir sr. Matthildur, „þetta er alþjóðlegur dagur barna í sorg og við ætlum að taka hann upp hér á landi og vekja athygli á því sem börn sem verða fyrir missi þurfa á að halda. Í hádeginu verður haldið málþing bæði í Vídalínskirkju og í streymi og um eftirmiðdaginn verður minning látinna við Vífilsstaðavatn kl. 17. 00. Við teljum að börn sem verða fyrir sorg og þeirra fjölskyldur sé hópur í okkar samfélagi sem þurfi meiri stuðning.“

hsh


Sr. Matthildur Bjarnadóttir


  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sóknarnefndir

  • Viðburður

  • Frétt

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Þorláksmessa í Skálholti

23. des. 2024
...kaffibrúsamessa í Þorláksbúð
Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall