Ritfregn: Kröftug bók

5. nóvember 2021

Ritfregn: Kröftug bók

Trú og vald í mannkynssögunni - snjöll og nútímaleg bók - mynd: hsh

Þetta er athyglisverð bók, Trú og vald í mannkynssögunni, og þægileg aflestrar. Stíllinn hraður og yfirlætislaus, hreinn og beinn. Ekki verið að hnýta of marga hnúta, lesandanum er boðið í trúar- og sögulegt ferðalag. Fararstjórarnir tveir, höfundarnir Pétur Pétursson og Jónas Elíasson, láta ekk hlutina vefjast fyrir sér. Eins og góðir fararstjórar þá eru þeir með alls konar sögur á hraðbergi, skemmtilegan fróðleik, frumlegar tengingar og lesandi bítur á öngulinn í jákvæðri merkingu. Og þeir eru án allra fordóma, skoða allt með fránum sjónum á sínu sviði.

Efni bókarinnar er ekki neitt smáræði: Trú og vald í mannkynssögunni. Það er gæfa lesandans að höfundarnir setjast nánast á sama bekk og hann og velta vöngum með honum - það er góð pedagógík. Og það án þess að ætla sér að ná valdi á honum! Aðeins láta hann taka sjálfan afstöðu. Það er líka málið.

Trúin fylgir manninum í gegnum söguna sem og valdið. Og ríkisvaldið hefur oft talið sér hag af þvi að hafa trú sér við hlið, til styrktar og áhrifa - að minnsta kosti fyrr á öldum - og trúin talið sig sömuleiðis njóta góðs af. Ríki og trúarstofnanir hafa því hvort tveggja verið í nánu sambandi og líka eldað saman grátt silfur. Fyrsti kaflinn heitir einmitt kirkjuvald. Engum vafa undirorpið að íslensk menning hefur verið nátengd kristni frá upphafi og fram á okkar daga enda þótt þræðirnir hafi trosnað mjög. Eins og höfundar segja þá var kirkjan í upphafi valdastofnun trúarinnar, hún fór með andlegt valt og veraldlegt að því leyti sem það féll undir hana. Allt átti þetta eftir að breytast og kirkjan missti þetta veraldlega vald – og svo má spyrja um hversu mikið andlegt vald hún hafi í nútímanum og hvort rétt sé yfirhöfuð að nota orðið vald í þessu sambandi. Nær væri að tala um áhrif. Nútímamenn láta ekki bjóða sér neitt vald nema lýðræðislegt umboð og ábyrgð sem þeir eiga sjálfir og fela öðrum. Þetta kirkjuvald er í sjálfu sér gerólíkt því sem höfundar fjalla ögn um eða guðlegt vald og trúarlegt vald fornaldar.

Að mati höfunda var eitt mesta framlag trúarinnar til mannkynsins að ryðja blóðhefndinni úr sögunni. Í stað hennar hafi komið endurgjaldslögmálið (lex talionis) auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Þar sé að finna upphaf réttarríkisins. (Bls.12-13). 

Höfundar víkja að því á tveimur stöðum að trúarbrögð skipti litlu máli í nútíma samfélagi að mati félags- og sagnfræðinga – og reyndar fleiri. Þar er og kallað fram hið margrýnda fyrirbæri, afhelgun (secularization) valds og trúarlegra þátta - og veltur reyndar á því hvort hugtakið afhelgun er tekið sem neikvætt hugtak eða jákvætt í guðfræði. Trúarleg einkenni og ráðandi staða hefur verið svipt hlutverki sínu og eftir stendur hinn veraldlegi kjarni. Kirkjan sem valdastofnun íklædd trúarlegum arfi var smám saman svipt áhrifavaldi sínu – hún varð eftir, hefur orðið eftir með marga sína siði og helgiathafnir sem vísa kannski fremur inn á við en eiga enga skírskotun út á við – því að þeir ná ekki sambandi við hinn afhelgaða heim. Hún hefur til dæmis brugðist við því með að láta ekki afhelgunina trufla sig alvarlega heldur staðið inni á hinu leikræna trúarlega sviði í sínum heimi og notið hylli aðdáenda sinna. Það höfðar til margra. Svo hefur annað kirkjunnar fólk líka skrýðst afhelguðum búningi og boðið upp á margt innan ýmissa þátta kristinnar trúar sem sumir hverjir eru algjörlega afhelgaðir – mörgum kemur það spánskt fyrir sjónir í fyrstu að taka þátt í afhelguðu prógrammi í helgu húsi. En þetta er náttúrlega póstmódernisminn í öllu sínu veldi.

Margar setningar í bókinni koma mjög svo skemmtilega að lesandanum og hann getur velt þeim fyrir sér. Eins og því að: „Trúarlegt stjórnvald er bara til sem einræði.“ (Bls. 15). Það vekur ýmsa þanka hjá lesandanum án þess að höfundar fari mörgum orðum um það en látið fylgja með að trúarlega einræðið sé lítið frábrugðið borgarlegu einræði því að „borgaralegur harðstjóri fellur frá með einum eða öðrum hætti en Guð er eilífur.“ (Bls. 16).

Lunginn af bókinni er sögulegt yfirlit yfir þróun þessa mál á umliðnum öldum. Í augum þess sem ekki er kunnugur þessari sögu er hún stórfróðleg og sett fram með snörpum hætti og umbúðalausum. Ekki verður neitt vikið frekar að því - hún er líka góð og holl upprifjun.  Lesandinn bara njóti.

Í lok bókarinnar er vikið að afhelgun og mótun borgaralegs lýðræðis. Guðlegt vald er borið saman við einveldisvald. Hið fyrra gerir náttúrlega skýlausa kröfu um hlýðni en hið síðara er afhelgað þar sem einvaldskonungurinn tekur yfir með veraldlegum hætti hið guðlega svo að segja. Þó má ekki gleyma því að margur einvaldskonungurinn var veikur fyrir því að hann væri guðlegrar ættar, væri jafnvel guð á köflum, – en það er nú önnur saga. En skilin voru orðin skörp milli hins trúarlega valds og valds ríkisins og hið fyrrnefnda hrakið brott frá ríkinu. Þróun í afhelgun löggjafarvaldsins var í höndum Englendinga sem svo Bandaríkin Norður-Ameríku lögðu lokahönd á með amerísku byltingunni – og stjórnarskránni. Í ljósi þess er trúarlíf Bandaríkjamanna stórmerkilegt eins og afstaða margra þeirra til löggjafar um fóstureyðingar eða þungunarrofs með kannski afhelguðu orðalagi – eða nýmáli (e. newspeak). En það er nú önnur saga.

Í umfjöllun um valdið í nútímanum kemur fram að kirkjan hafi engin formleg völd. Lögð er áhersla á að nútímalög í lýðsræðislöndum byggi á siðfræði trúarinnar eins og það er orðað – þessu væru sennilega ekki allir sammála en það er einu sinni svo. Kirkjan sem einhvers konar gæslustofnun trúarlegs siðferðis kemur þá til álita sem áhrifavaldur í samfélagi nútímans. Þá verður hún að standa undir nafni og hafa eitthvað að segja – vera ekki klumsa.

Stundum koma fram sérstakar fullyrðingar í bókinni – og skemmtilegar, hreyfa við lesanda eins og þessi á bls. 215: „Skotið hefur upp nýrri kenningu sem samræmist ágætlega hugverkum nútíma mannúðar- og jafnréttissjónarmiða. Það er kenningin um að í sínu innsta eðli sé maðurinn góður og það sé samfélaginu að kenna þegar svo reynist ekki, þessi kenning er dálítið þvert á staðreyndir sögunnar. Það er ekkert sem bendir til að menn hafi kunnað illa við sig undir kerfi blóðhefnda, sem í dag þykir foráttuglæpur.“

Í lokin er tekin smá rispa um Ísland á tuttugu blaðsíðum, 217-237. Fullyrt er að gríðarlegur áhugi sé á sögu Íslands út um allan heim og er gaman að heyra af því og ekki síður þar sem þjóðin nýtur athygli með „fátæklega sögu“ miðað við aðrar þjóðir. En bókmenntirnar eru hryggjarstykkið í þessu sem öðru – og þá er átt við fornbókmenntirnar sem höfundar styðjast líka við sem sögulegar heimildir. Þeir spyrja til dæmis grundvallarspurningar (bls. 223): „Hvað kom fyrir hið heiðna samfélag? Var það kristnin sem hleypti öllu upp í loft svo kalla þurfti til erlendan konung til að halda uppi lögum og reglu?“ Þessu er svarað snöfurmannlega með vísan til að vopn kirkjunnar hafi verið Ritningin og penninn (bls. 232). Og kristna siðferðið sem birtist meðal annars í fornsögum (t.d. Njálu) náði yfirhöndinni: „...betra sé að hið kristna siðferði og réttarvitund kirkjunnar ráði en hinn heiðni siður þjóðveldisins.“ Það er þó rannsóknarefni hvernig hefndarskyldan (blóðhefndin) fjarar út - gerðu menn sér ljósa grein fyrir merkingu endurgjaldsstefnunnar (lex talionis)?

Og niðurlagsorð bókarinnar – hressilega ögrandi og fá kannski einhvern til að hiksta – það er í lagi út af fyrir sig. Þórhallur Bjarnason, var merkur biskup og tímamótamaður. Frjálslyndur og áhrifamikill. Höfundar segja að eftir hans daga hafi íslenska þjóðkirkjan verið skilgreind sem „frjálslynd, þjóðleg og umburðarlynd.“ Biskupinn hafi og beitt sé fyrir því að þjóðkirkjan væri ekki bundin erfikenningum kirkjunnar án þess reyndar að það sé skilgreint nánar. Hins vegar er kirkjan náttúrlega með slatta í poka af gömlum trúarjátningum sem tilheyra hennar innri samþykktum – það eru auðvitað trúarsögulegar minjar í augum sumra en ekki allra. Nú. En lokaorð bókarinnar eru þau að íslenska þjóðkirkjan hafi „síðan ekki gengist við hin trúarlega valdi og látið nægja að vera helgiumgjörð um ævihátíðir einstaklinga og hátíðir í lífi þjóðarinnar.“ (Bls. 239). Gaman væri að halda ráðstefnu um þessa síðustu málsgrein – hún yrði eflaust hin fjörugasta og áhugaverðasta.

Kirkjan.is þakkar fyrir athyglisverða bók og skemmtilega, lipran texta, einarðan og blátt áfram. Stíllinn flæðandi og laus við yfirdrepsskap þess sem allt þykist vita. Efnistök prýðileg og sennilega við allra hæfi og er það ekki lítill kostur. Það er sem höfundar sitji við hlið lesandans og spjalli við hann, láta margt skemmtilegt frá sér fara, vel hugsað, sumt kannski glannalegt eða kannski bara sett fram til að ýta við lesanda. Kirkjan.is hvetur allt kirkju- og menningarsinnað fólk til að lesa hana. - Útgefandi er Reykir, Hveragerði, bókin er 239 blaðsíður. Kápuhönunn: Gígja Rut Ívarsdóttir.

hsh

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju